Barnafoss er foss í Hvítá, í þrengingum (gljúfri) við jaðar Hallmundarhrauns rétt fyrir ofan Hraunfossa.

Barnafoss í Hvítá, Borgarfirði. Á myndinni sést steinbogi yfir ána, niðri í gilinu.
Barnafoss um 1900.

Til eru heimildir fyrir því að fossinn hafi áður verið nefndur Bjarnafoss. Svæðið var friðlýst árið 1987.

Staðhættir

breyta

Þar er steinbogi yfir ána, en engum er ráðlagt að reyna að fara yfir hann. Sagnir eru um annan steinboga á ánni á þessum stað sem nú er horfinn. Bogarnir neðan fossins hurfu á sjötta og sjöunda áratugnum, en boginn á gömlu fossbrúninni er alltaf þurr nema í flóðum. sjálf fossbrúnin er komin tugum metrum ofar en áður og er nú iðuflaumur þar sem áður var aðalafossinn. Erfið aðkoma er að steinboganum sem hefur alltaf heillað ofurhuga og stökk þar yfir aðkomumaður um miðja síðustu öld og síðast varð þar banaslys árið 1984.

Rétt neðan við Barnafoss er göngubrú yfir ána, upphaflega byggð 1891, en endurbyggð um 1954 og viðhaldið síðan. [1] Er þetta fyrsta brúin sem byggð var yfir Hvítá í Borgarfirði og var notuð af bændum í Hálsasveit og Reykholtsdal til þess að reka fé til sumarbeitar á Arnarvatnsheiði og sleppa þannig við erfið og hættuleg vöð yfir Geitá, Kaldá, Hvítá og Norðlingafljót.

Þjóðsagan um Barnafoss

breyta

Sagan segir að steinbogi af náttúrunnar hendi hafi áður fyrr þjónað sem brú yfir Hvítá. En á jólum, endur fyrir löngu, hélt heimilisfólk í Hraunsási til kirkju á Gilsbakka í Hvítársíðu, sem er bær hinum megin við fossinn. Tveir ungir strákar voru skildir eftir á Hraunsási. Þeim leiddist og veittu heimilisfólkinu eftirför. Er þeir komu á steinbogann litu þeir niður, misstu jafnvægið og féllu í ána. Eftir það lét húsfrúin að Hraunsási höggva bogann niður.

Nálægir staðir

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. * Barnafossbrú 100 ára; Mathias Á Mathiessen, Morgunblaðið 1. september 1991, bls. 32–33.


Heimildir

breyta
  • „Vesturland.is - Afþreying og staðir“. Sótt 15. júlí 2010.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Borgarfjörður og Mýrar. Mál og menning. ISBN 9979-3-0657-2.

Tenglar

breyta
   Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.