Aung San Suu Kyi

Stjórnmálakona og mannréttindafrömuður frá Mjanmar

Aung San Suu Kyi (f. 19. júní 1945) er stjórnmálamaður frá Mjanmar. Hún er fyrrum leiðtogi stjórnarmeirihlutans og leiðtogi Lýðræðisfylkingarinnar (NLD) í Mjanmar.

Aung San Suu Kyi
အောင်ဆန်းစုကြည်
Aung San Suu Kyi árið 2013
Ríkisráðgjafi Mjanmar
Í embætti
6. apríl 2016 – 1. febrúar 2021
ForsetiHtin Kyaw
Win Myint
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurMin Aung Hlaing (sem formaður stjórnsýsluráðs ríkisins)
Persónulegar upplýsingar
Fædd19. júní 1945 (1945-06-19) (79 ára)
Jangún, Búrma
StjórnmálaflokkurLýðræðisfylkingin
MakiMichael Aris (g. 1971; d. 1999)
TrúarbrögðTheravada búddismi
BörnKim og Alexander
HáskóliHáskólinn í Delí
St Hugh's College, Oxford
Lundúnaháskóli
Undirskrift

Árið 1990 vann flokkur hennar, NLD, 52% atkvæða og 80% sæta á landsþinginu.[1] Fyrir kosningarnar var hún handtekin og sett í stofufangelsi. Henni var sleppt úr stofufangelsi 13. nóvember 2010, eftir 15 ára fangelsisvist yfir 21 árs tímabil.[2] Á meðan hún var í stofufangelsi fékk hún Sakharov-verðlaunin 1990[3] og friðarverðlaun Nóbels 1991.[4]

Í kosningunum 1. apríl 2012, þar sem kosið var um hluta þingsæta landsþingsins, var hún kosin í neðri deild þingsins fyrir fylkið Kawhmu. Flokkur hennar vann 43 af 45 lausum sætum í neðri deild þingsins.[5] Í kosningunum 2015 vann NLD 85% atkvæða og 58% sæta á landsþinginu. Hún gat þó ekki sóst eftir forsetaembættinu því samkvæmt stjórnarskrá Búrma geta aðilar sem eiga ættingja með erlendan ríkisborgararétt ekki orðið forsetar landsins. Aung San Suu Kyi á tvo syni sem hafa báðir breskan ríkisborgararétt.[6]

Aung San Suu Kyi varð ríkisstjórnarleiðtogi Mjanmar með titilinn „ríkisráðgjafi“ árið 2016. Eftir að hún komst til valda hafa mannréttindahópar gagnrýnt hana fyrir að beita sér ekki gegn ofsóknum mjanmarska hersins á Róhingjum.

Þann 1. febrúar árið 2021 setti mjanmarski herinn Aung San Suu Kyi í fangelsi og tók völdin í landinu í sínar hendur. Vísað var til meintra kosningasvika í þingkosningum sem fóru fram í nóvember árið áður, en þar hafði Lýðræðisfylkingin unnið yfirburðasigur.[7]

Æviágrip

breyta

Aung San Suu Kyi fæddist árið 1945 í Jangún og er dóttir Aung San, sjálfstæðishetju Mjanmar, sem var myrtur árið 1947. Þegar Aung San Suu Kyi var sautján ára leið lýðræði í landinu undir lok þegar herforinginn Ne Win framdi valdarán og stofnaði til sósíalískrar herforingjastjórnar. Aung var þá búsett í Nýju-Delí með móður sinni, Khin Kyi, sem var sendiherra Búrma á Indlandi. Um svipað leyti hóf hún nám í stjórnmálafræði við Háskólann í Delí og tveimur árum síðar gekk hún í St. Hugh's College við Oxford-háskóla. Hún útskrifaðist þaðan árið 1967 með gráðu í heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði og vann síðan á næstu árum hjá Sameinuðu þjóðunum í New York.[8]

Árið 1971 giftist Aung San Suu Kyi Dr. Michael Aris, sérfræðingi í tíbeskum fræðum, og flutti með honum aftur til Oxford. Í Oxford einbeitti Aung San Suu Kyi sér að fræðastörfum og vann einnig sem gestaprófessor við háskóla í Japan og á Indlandi. Hún skrifaði meðal annars stutta ævisögu föður síns og ritgerðir um félagslega og efnahagslega þróun í heimalandi sínu fyrir upphaf sjálfstæðisbaráttunnar.[8]

Aung San Suu Kyi sneri aftur til Mjanmar árið 1988 til þess að hlúa að móður sinni, sem þá var orðin heilsuveil. Ne Win hafði þá nýlega sagt af sér sem leiðtogi landsins vegna mannskæðra fjöldamótmæla gegn efnahagsóstjórn hans og herforingjastjórnin þótti standa höllum fæti. Þann 15. ágúst 1988 birti Aung San Suu Kyi opið bréf til ríkisstjórnarinnar og birtist síðan ellefu dögum síðar á fjöldasamkomu þar sem stjórninni var mótmælt. Aung San Suu Kyi varð á þessum tíma að sameiningartákni í lýðræðisbaráttu landsins. Hún hvatti landsmenn til friðsamlegra mótmæla og ítrekaði að tryggja bæri öllum landsmönnum grundvallarréttindi. Þann 24. desember 1988 stofnaði hún nýjan stjórnmálaflokk, Lýðræðisfylkinguna, sem varð á skömmum tíma öflugasta stjórnarandstöðuhreyfingin í Mjanmar.[8]

Herforingjastjórnin hafði leyft takmarkaða starfsemi stjórnmálaflokka og boðað til kosninga sem yrðu haldnar árið 1990. Í aðdraganda kosninganna leitaði stjórnin ítrekað að afsökunum til að beita hervaldi gegn Lýðræðisfylkingunni og friðsamlegum mótmælendum. Þann 19. júlí 1989 hugðist Lýðræðisfylkingin halda minningarathöfn um föður Aung San Suu Kyi, sem hafði þá verið myrtur fyrir 42 árum. Herforingjastjórnin lét hins vegar setja útgöngubann þennan dag og lét síðan einangra Aung San Suu Kyi og halda henni í stofufangelsi á meðan margir aðrir stuðningsmenn hennar voru handteknir. Í stofufangelsinu fór Aung San Suu Kyi í tólf daga hungurverkfall þar til hún fékk loforð um að félagar hennar yrðu ekki pyntaðir í fangelsi.[8]

Þrátt fyrir handtöku Aung San Suu Kyi vann Lýðræðisfylkingin stórsigur í kosningunum sem fóru fram árið 1990. Herforingjastjórnin neitaði hins vegar að virða niðurstöður kosninganna og afsala sér völdum til borgaralegrar ríkisstjórnar. Aung San Suu Kyi var áfram haldið fanginni og henni meinað að hafa samband við stuðningsmenn sína og fjölskyldu sína. Á meðan hún sat í fangelsi jókst hróður Aung San Suu Kyi erlendis og hún var sæmd bæði Sakharov-verðlaununum árið 1990 og friðarverðlaunum Nóbels árið 1991. Henni var hins vegar bannað að fara úr landi til að taka við verðlaununum og synir hennar veittu þeim því viðtöku fyrir hennar hönd.[8]

Aung San Suu Kyi var í fangelsi í 15 af næsta 21 ári og var á þeim tíma einn frægasti pólitíski fangi í heimi. Alþjóðasamfélagið beitti miklum þrýstingi á herforingjastjórn Mjanmar til þess að fá hana leysta úr haldi.[9]

Lausn úr fangelsi og stjórnmálaferill

breyta
 
Aung San Suu Kyi heldur ræðu fyrir stuðningsmenn sína í kjördæminu Kawhmu árið 2012.

Árið 2010 hélt herforingjastjórnin kosningar en Lýðræðisfylkingin sniðgekk þær, sem leiddi til þess að stjórnmálaarmur hersins, USDP, vann auðveldan sigur. Stuttu eftir kosningarnar lét herforingjastjórnin loks undan þrýstingi alþjóðasamfélagsins og lét sleppa Aung San Suu Kyi úr haldi. Ríkisstjórnin fór á næstu árum að slaka nokkuð á klónni og árið 2012 fékk Aung San Suu Kyi í fyrsta sinn að bjóða sig fram á þing í aukakosningum þar sem Lýðræðisfylkingin vann 43 af 45 þingsætum sem kosið var um.[10] Undir lok ársins 2015 voru haldnar frjálsar þingkosningar í landinu þar sem Lýðræðisfylkingin vann stórsigur. Þrátt fyrir afburðasigur Lýðræðisfylkingarinnar fékk Aung San Suu Kyi ekki að taka að sér embætti forseta eða forsætisráðherra vegna ákvæðis sem kvað á um að enginn mætti gegna þessum embættum sem ætti börn með erlent ríkisfang, en báðir synir Aung San Suu Kyi með eiginmani sínum heitnum eru með breskan ríkisborgararétt. Til þess að komast í kringum þessi höft var stofnað nýtt embætti, embætti ríkisráðgjafa, sem Aung San Suu Kyi tók við og gerðist þannig ríkisstjórnarleiðtogi í landinu.[9]

Þrátt fyrir kosningasigur Lýðræðisfylkingarinnar hélt mjanmarski herinn verulegum völdum í landinu en borgaraleg stjórnvöld höfðu aðeins takmörkuð ítök innan hersins. Árið 2017 hóf herinn áhlaup gegn aðskilnaðarsinnum í héraðinu Rakhine sem fól í sér þjóðernishreinsanir gegn minnihlutahópi Róhingja í landinu. Aung San Suu Kyi tjáði sig lengst af ekki um ofsóknirnar og neitaði að fordæma fangelsanir á blaðamönnum sem vöktu athygli á þeim. Fálæti Aung San Suu Kyi í garð þjóðernisofsóknanna leiddu til þess að margir mannréttindahópar sem áður höfðu stutt hana hófu að gagnrýna hana af hörku og að ýmsar viðurkenningar sem hún hafði hlotið voru afturkallaðar.[9]

Stjórnvöld Gambíu ákærðu árið 2019 Mjanmar í umboði Samtaka um íslamska samvinnu til Alþjóðadómstólsins í Haag fyrir meint þjóðarmorð hersins á Róhingjum. Í desember 2019 bar Aung San Suu Kyi vitni fyrir Alþjóðadómstólnum og neitaði því að mjanmarski herinn hefði framið þjóðarmorð.[11] Aung San Suu Kyi viðurkenndi að mjanmarski herinn kynni að hafa framið stríðsglæpi en hafnaði því að um þjóðarmorð væri að ræða.[12]

Valdaránið 2021 og önnur fangavist

breyta

Lýðræðisfylkinginn vann afburðasigur í þingkosningum sem haldnar voru árið 2020 og vann 396 þing­sæti af 476 mögu­legum. Leppflokkur hersins vændi Lýðræðisfylkinguna hins vegar um að hafa rangt við í kosningunum. Þann 1. febrúar árið 2021 gerðu herforingjarnir uppreisn gegn stjórninni og settu Aung San Suu Kyi í fangelsi á ný. Aung San Suu Kyi hvatti landsmenn til að fjölmenna út á götur til að mótmæla valdaráninu og koma í veg fyrir að landið snúi aftur til einræðisstjórnar.[13] Eftir handtöku Aung San Suu Kyi var hún ákærð í nokkrum liðum, meðal annars fyrir brot á innflutningslögum, vörslu á ólöglegum fjarskiptatækjum[14] og fyrir að brjóta gegn lögum um náttúruhamfarir.[15]

Þann 6. desember 2021 var Aung San Suu Kyi dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir að hvetja til mótmæla gegn herforingjastjórninni eftir valdaránið og fyrir að brjóta sóttvarnareglur vegna heimsfaraldursins.[16] Þann 30. desember 2022 lauk síðustu málaferlum stjórnarinnar gegn Aung San Suu Kyi en þá hafði hún samtals verið dæmd í 33 ára fangelsi.[17]

Tilvísanir

breyta
  1. „Myanmar's 2015 landmark elections explained“. BBC. 3. desember 2015. Sótt 1. febrúar 2021.
  2. „Burma releases pro-democracy leader Aung San Suu Kyi“. BBC. 10. nóvember 2010. Sótt 1. febrúar 2021.
  3. Tom Watkins (23. október 2013). „Aung San Suu Kyi receives Sakharov Prize, finally“. CNN. Sótt 1. febrúar 2021.
  4. Peter Beaumont (16. júní 2012). „Aung San Suu Kyi accepts Nobel peace price“. The Guardian. Sótt 1. febrúar 2021.
  5. Kocha Olarn (4. apríl 2012). „Myanmar confirms sweeping election victory for Suu Kyi's party“. CNN. Sótt 1. febrúar 2021.
  6. Ed Payne (13. nóvember 2015). „Aung San Suu Kyi's NLD wins historic majority in Myanmar election“. CNN. Sótt 1. febrúar 2021.
  7. Róbert Jóhannsson (1. febrúar 2021). „Herinn tekur völdin í Mjanmar“. RÚV. Sótt 1. febrúar 2021.
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 8,4 Jakob F. Ásgeirsson (7. júlí 1990). „Hetja í anda Gandhis“. Morgunblaðið. bls. 4-5.
  9. 9,0 9,1 9,2 Gunnar Hrafn Jónsson (2018). „Hvað kom fyrir Aung San Suu Kyi?“. Stundin. Sótt 2. febrúar 2021.
  10. Róbert Jóhannsson (2021). „Stutt og stormasöm saga lýðræðis í Mjanmar“. RÚV. Sótt 2. febrúar 2021.
  11. Guðmundur Björn Þorbjörnsson (15. desember 2019). „Frelsishetja og friðarsinni ásökuð um þjóðarmorð“. RÚV. Sótt 23. janúar 2020.
  12. Kristján Róbert Kristjánsson (23. janúar 2020). „Vísar á bug ásökunum um þjóðarmorð“. RÚV. Sótt 23. janúar 2020.
  13. Oddur Ævar Gunnarsson (1. febrúar 2021). „Herinn tekur völdin í Mjanmar“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. júlí 2022. Sótt 2. febrúar 2021.
  14. Atli Ísleifsson (3. febrúar 2021). „Á­kærð vegna brota á inn­flutnings­lögum og ó­lög­lega vörslu á fjar­skipta­tækjum“. Vísir. Sótt 22. febrúar 2021.
  15. Þorvarður Pálsson (16. febrúar 2021). „Herinn lofar kosningum og á­kæra Suu Kyi aftur“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. desember 2021. Sótt 21. febrúar 2021.
  16. Gunnar Reynir Valþórsson (6. desember 2021). „Aung San Suu Kiy dæmd í fjögurra ára fangelsi“. Vísir. Sótt 6. desember 2021.
  17. Hallgrímur Indriðason (30. desember 2022). „Fangelsisdómar Aung San Suu Kyi orðnir 33 ár“. RÚV. Sótt 30. desember 2022.