Auðlegð þjóðanna
Auðlegð þjóðanna (enska: An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) er eitt af þekktustu ritum hagfræðinnar skrifað af skoska hagfræðingnum og heimspekingnum Adam Smith, sem er oft nefndur faðir nútímahagfræðinnar. Bókin kom út árið 1776 og er almennt talin vera grundvallarrit hagfræðinnar og hefur haft mikil áhrif á markaðshagkerfi, kapítalismann og allar þær hugmyndir sem tengjast frjálsum markaði. Þegar Smith skrifar þessa bók leggur hann í raun grunninn að nútíma hagfræði og hugmyndum um efnahagslegt frelsi.[1]
Höfundur | Adam Smith |
---|---|
Tungumál | Enska |
Útgefandi | W. Strahan & T. Cadell, London |
Útgáfudagur | 9. mars 1776 |
Á tímum Smiths, þegar Evrópa var að taka stakkaskiptum vegna iðnvæðingar, vofðu yfir gamlar hugmyndirnar um merkantílisma sem lögðu áherslu á ríkisstýrðann útflutning og takmörkun á innflutningi til að hámarka gullforða landsins. Smith gagnrýndi þessar hugmyndir harðlega og bar fram rök fyrir því að hagvöxtur og velsæld þjóða væri ekki byggður á birgðum af gulli eða silfri, heldur á framleiðslugetu og viðskiptafrelsi. Þessar kenningar setti hann fram í bók sinni og sýndi fram á hvernig efnahagslegt frelsi gæti leitt til meiri hagsældar og réttlátari skiptingu auðs.[1]
Smith tók dæmi úr daglegu lífi og notkun alþýðunnar til að útskýra flóknar hagfræðikenningar, sem gerði verk hans aðgengilegt fyrir almenning og fræðimenn jafnt. Hann fjallaði einnig um mikilvægi vinnuskiptingar innan iðnaðarins og hvernig hún leiddi til meiri hagkvæmni og framleiðni, kenningar sem hafa verið nýttar til grundvallar í hagfræðilegum greiningum allt fram á okkar daga.
Með þessari útgáfu lagði Smith ekki aðeins grunninn að nútíma hagfræði heldur einnig að hugmyndum sem hafa mótað stefnur frjálshyggjumanna og frjálslyndra um allan heim. Þessi áhrif eru enn til staðar og má finna í margs konar efnahagslegum og stjórnmálalegum ákvörðunum sem teknar eru í nútímasamfélögum.
Bakgrunnur og ritun
breytaAdam Smith (1723–1790) var heimspekingur og kennari í siðfræði við Háskólann í Glasgow. Hann hafði mikinn áhuga á því hvernig mismunandi efnahagskerfi virka og afhverju fólk tekur mismunandi efnahagslegar ákvarðanir. Hann samdi "Auðlegð þjóðanna" á tímabili þegar hefðbundnar hugmyndir voru endurmetnar í ljósi vísinda og skynsemi. Bókin endurspeglar ástríðu Smiths að skilja þætti sem hafa áhrif á efnahagslífið og stjórnkerfi. Á þeim tíma voru Evrópulönd að takast á við hraðar breytingar vegna iðnvæðinga sem breyttu grundvallaratriðum samfélaga frá landbúnaðar til iðnvæddra þjóða. Þessar breytingar veittu Smith einstakt tækifæri til að rannsaka og gagnrýna efnahagsstefnur, sérstaklega merkantílismann, sem hann taldi skaðlegan fyrir efnahagslega framþróun.[2]
Smith notfærði sér vinnu og hugmyndir samtímamanna sinna, eins og David Hume og François Quesnay, til að þróa sína eigin hugmyndir sem í dag eru viðurkenndar sem grundvallaratriði í hagfræði. Hann tók til dæmis hugmyndir Quesnay um efnahagslegt flæði innan samfélaga og setti þær í stærra samhengi með áherslu á mikilvægi frjálsra markaða. Sýn Smiths á "ósýnilegu höndina" sem leiðbeinir markaðsöflum var byltingarkennd og markaði tímamót í þróun hagfræðinnar, en hún fól í sér trú á að efnahagslegar ákvarðanir einstaklinga, stýrðar af eigin hagsmunum, myndu leiða til hagsældar fyrir samfélagið í heild sinni.[3]
Bók I: Orsök meiri framleiðslugetu vinnuafls
breytaÍ fyrstu bók "Auðlegðar þjóðanna" greinir Adam Smith grundvallaratriði framleiðslu og lýsir vinnuafl sem lykilframleiðslutóli. Hann útskýrir að sérhæfing, sem felur í sér að einstaklingar sérhæfa sig í afmörkuðum verkefnum, er grundvallaratriði til að auka framleiðni og hagvöxt. Hann tekur sem dæmi verksmiðju, þar sem sérhæfð störf leiða til mikillar aukningar í framleiðslugetu í samanburði við það þegar einstaklingar sinna fjölbreyttum verkefnum. Smith bendir á að stærð markaðarins sé lykilþáttur í að ákvarða hversu mikla hagræðingu er hægt að ná, þar sem stærri markaðir bjóða upp á meiri tækifæri til sérhæfingar og þar með hagkvæmari framleiðslu. Hann tengir þetta við þróun hagkerfa, þar sem þjóðir með opnari og fjölbreyttari markaði ná frekar að hámarka framleiðslugetu og efnahagslega velferð.[1]
Smith fjallar einnig um langtímaáhrif hagræðingar á þróun iðnaðar og hagkerfa. Hann sýnir fram á hvernig sérhæfing og skipti á vinnuafli geta verið drifkraftur efnahagslegrar framfara, sem leiðir til nýsköpunar og tækniþróunar. Með þessum hætti lagði Smith ekki aðeins grunn að skilningi á mikilvægi sérhæfingar fyrir hagvöxt, heldur einnig hvernig efnahagslegt umhverfi og pólitísk stefnumörkun geta haft áhrif á hagkerfið í heild sinni.[1]
Bók II: Eðli uppsöfnunar fjármagns og notkun þess
breytaÖnnur bókin fjallar um fjármagn, hvernig það myndast, safnast upp og hvernig það er notað í hagkerfinu. Smith útskýrir að fjármagn sé það sem er notað til að fjárfesta í vinnuafli, tækjum og öðrum þáttum sem auka framleiðni. Hann skiptir fjármagni í tvær tegundir:
Fastfjármagn: Þetta er fjármagnið sem er bundið í hlutum, eins og vélum, byggingum og tækjum sem notuð eru til framleiðslu.
Rekstrarfjármagn: Þetta er fjármagn sem er notað til að halda uppi framleiðslunni, eins og hráefni, birgðir og laun.
Í bókinni fjallar Smith um mikilvægi þess að spara fjármagn í samfélögum og hvernig sparnaður leiðir til fjárfestinga sem auka framleiðni í framtíðinni. Hann útskýrir hvernig einstaklingar og fyrirtæki nota fjármagn til að tryggja áframhaldandi hagvöxt.[1]
Bók III: Mismunandi þróun auðlegðar í ólíkum þjóðum
breytaÞriðja bókin fjallar ítarlega um hvernig hagkerfi geta þróast á mismunandi vegu eftir aðstæðum og áherslum hjá þjóðum og samfélögum. Adam Smith útskýrir að sumar þjóðir upplifi hraðari hagvöxt en aðrar vegna fjölbreyttra þátta, bæði ytri og innri, sem hafa áhrif á þróun efnahagslífsins. Hann telur að stjórnmálalegar aðstæður, landfræðileg lega og sögulegir atburðir séu lykilþættir sem móta efnahagslega vöxt hvers lands. Smith bendir til dæmis á að landbúnaðarsamfélög, sem einblína á frumframleiðslu, þróist oft hægar en samfélög sem byggja á verslun og iðnaði. Slík samfélög njóta meiri hagvaxtar þar sem þau hafa möguleika á fjölbreyttari framleiðslu, nýta sér sérhæfingu og skapa stærri markaði fyrir vörur sínar.[4]
Smith útskýrir einnig hvernig landfræðileg lega hefur áhrif á efnahagslegar framfarir; til dæmis eiga strandríki meiri möguleika á að stunda verslun og viðskipti en landlukt ríki, sem getur auðveldað útflutning og haft jákvæð áhrif á hagkerfið. Með því að sýna fram á hvernig ólík samfélög einbeita sér að mismunandi atvinnugreinum útskýrir Smith að þessi sérhæfing hafi mikil áhrif á það hvernig auðlegð dreifist og þróast bæði innan og á milli landa. Hann leggur áherslu á að skýr stefna í efnahagsmálum og nýting á sérstöðu hvers samfélags sé lykill að sjálfbærum hagvexti og velmegun. Þetta sjónarhorn hans gefur innsýn í aðstöðu sem getur haft áhrif á hagþróun og efnahagslegar framfarir þjóða og samfélaga á mjög mismunandi hátt.
Bók IV: Kerfi stjórnmálahagfræðinnar
breytaÍ fjórðu bókinni af "Auðlegð þjóðanna" einbeitir Adam Smith sér að gagnrýni á ríkjandi hagfræðikenningar síns tíma, með sérstakri áherslu á merkantílismann. Merkantílisminn byggði á þeirri hugmynd að auðlegð þjóða væri mæld með birgðum af gulli og silfri, og að þjóðir ættu að stuðla að viðskiptahagnaði með því að takmarka innflutning og efla útflutning. Þessi stefna leiddi til innflutningstolla og annarra hindrana sem voru settar á til að minnka viðskipti við aðrar þjóðir og viðhalda viðskiptahalla þeim í hag. Smith var harður andstæðingur þessara hugmynda og taldi að þær myndu í raun hamla efnahagslegum framförum, þar sem þær beindu áherslu frá raunverulegum hagvexti og framleiðni yfir í söfnun auðs sem ekki hefði sama gildi.[5]
Smith lagði fram í staðinn hugmyndina um frjáls viðskipti (e. free trade) og hélt því fram að þjóðir ættu að sérhæfa sig í framleiðslu þeirra vara sem þær gætu framleitt á sem hagkvæmastan hátt, byggt á því sem hann kallaði "hlutfallslegir yfirburðir" eða getu til að framleiða tilteknar vörur með minni tilkostnaði en aðrar þjóðir. Með því að eiga frjáls viðskipti, þar sem hver þjóð myndi einbeita sér að því sem hún gæti framleitt á sem arðbærastan máta, yrðu allar þjóðir betur settar, bæði í hagvexti og efnahagslegri velferð. Þessi nálgun, sem seinna varð kölluð kenningin um viðskiptayfirburði, varð grunnur að nútíma hagfræðilegum viðhorfum til utanríkisviðskipta og hnattvæðingar.[4]
Smith útskýrir að með því að leyfa frjáls viðskipti og minnka hömlur og takmarkanir á innflutningi og útflutningi geti þjóðir hámarkað hag sinn og stuðlað að auknum efnahagslegum vexti. Hann taldi að með þessum hætti myndi „ósýnilega höndin“ leiða markaðsöflin þannig að heildarhagsæld væri tryggð og að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar yrði náð á sem hagkvæmastan hátt. Þessi hugmynd um ósýnilega höndina er meðal þekktustu hugmynda Smiths og hefur haft víðtæk áhrif á þróun markaðshagkerfa og efnahagsstefnu um allan heim.[4]
Bók V: Tekjur ríkisins eða þjóðfélagsins
breytaFimmta bókin fjallar um hlutverk ríkisins í hagkerfinu. Þrátt fyrir að Smith sé almennt talsmaður takmarkaðrar íhlutunar ríkisins í efnahagslíf, þá viðurkennir hann að ríkið gegni mikilvægu hlutverki. Hann bendir á þrjú helstu hlutverk ríkisins:
- Að tryggja þjóðaröryggi, með því að vernda landið frá utanaðkomandi ógnunum.
- Að viðhalda réttlæti, með því að setja lög og reglur til að koma í veg fyrir glæpi og misnotkun.
- Að sjá um opinbera innviði, eins og vegi, brýr og menntun, sem eru nauðsynlegir fyrir hagkerfið en ekki endilega arðbærir fyrir einkaaðila að fjárfesta í.
Smith útskýrir að ríkið þurfi tekjur til að fjármagna þessi verkefni og talar um hvernig skattkerfi getur verið byggt á sanngjarnan hátt. Hann er talsmaður þess að skattar séu lagðir á réttlátan hátt, þannig að þeir sem leggja mest á sig græða mest. [5]
Neðanmálsgreinar
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „The Wealth of Nations“. Britannica. Sótt 21. september 2024.
- ↑ Smith, Adam (1776). An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations (PDF). Strahan and Cadell.
- ↑ Robert L. Heilbroner (1999). The Worldly Philosophers. Penguin Books.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 „Wealth of Nations PDF“ (PDF). Sótt 21. september 2024.
- ↑ 5,0 5,1 Smith, Adam. (1776). An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations. Strahan and Cadell.