Anders C. Høyers
Anders C. Høyers (15. mars 1885-30. júní 1959) var danskur garðyrkjumaður, fæddur í Árósum. Hann kom til Íslands á 3. áratug 20. aldar og kom upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hveri þar sem Skíðaskálinn reis síðar.
Höyer hafði verið formaður ungra jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og verið blaðamaður á Socialdemokraten og víðar en síðar flust til Lettlands og bjó þar 1923 til 1925. Hann kom til Íslands sem vinnumaður í Bræðratungu í Biskupstungum í maí 1926. Þá var eigandi Bræðratungu hinn danski ritstjóri Berliske Tidende, Svend Paulsen. Um haustið réði hann sig að Lágafelli í Mosfellssveit. Næsta sumar var hann í Reykjavík og 1927 kom þá unnusta hans Erika, fædd Hartmann til hans. Þau fengu leyfi til að setjast að í Hveradölum á Hellisheiði og giftu sig og fluttu inn í kofa þar sem hverahiti var nýttur. Þau unni við ýmis konar garðyrkju og ylrækt, brugguðu jurtamjöð og voru með torgsölu í Reykjavík fyrir afurðir sínar.
Þegar skíðaumsvif jukust flutti þau að Gunnuhver á Reykjanesi og bjó Höyer þar með Eriku konu sinni og ungum syni. Þau bjuggu þar til blómapotta úr hveraleir sem þau hertu við jarðhita.Þau fluttu frá Gunnuhver á Reykjanesi til Danmerkur árið 1937 og varð Höyer þá strax fyrirlesari við danska ríkisútvarpið. Höyer flutti þar fyrirlestra um ýmislegt varðandi veru hans á Íslandi. Þegar Danmörk var hertekin 9. apríl 1940 gekk Höyer strax til liðs við innrásarliðið og tók þátt í útvarpssendingum á þeirra vegum. Hann var þá rekinn frá danska útvarpinu en varð í júlí 1941 fréttaritari í Berlín fyrir dönsku bændasamtökin.
Höyer var í Berlín fram að uppgjöf Þjóðverja en kona hans og sonur í Danmörku. Þau voru yfirheyrð í stríðslok en fengu að fara til Íslands með Drottningunni í janúar 1946 en þau voru íslenskir ríkisborgarar. Þau fluttu norður í Eyjafjörð að Melgerðismelum þar sem hafði verið flugvöllur og bækistöð Bandamanna. Þar bjuggu þau í bragga sem var hólfaður í íbúð og afgreiðslusal fyrir flug og voru þar umsjónarmenn og einnig með greiðasölu. Þegar flug fluttist til Akureyrar árið 1955 var bragginn rifinn og þau byggðu sér hús.[1][2]