Alexandre Millerand

12. forseti Frakklands (1859-1943)

Alexandre Millerand (10. febrúar 1859 – 7. apríl 1943) var franskur stjórnmálamaður sem var forseti Frakklands frá 1920 til 1924 og þar áður forsætisráðherra árið 1920. Hann er þekktur fyrir að vera fyrsti sósíalistinn sem tók þátt í ríkisstjórn Frakklands en Millerand færði sig talsvert til hægri á ráðherraferli sínum.

Alexandre Millerand
Alexandre Millerand árið 1920.
Forseti Frakklands
Í embætti
23. september 1920 – 11. júní 1924
ForsætisráðherraGeorges Leygues
Aristide Briand
Raymond Poincaré
Frédéric François-Marsal
ForveriPaul Deschanel
EftirmaðurGaston Doumergue
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
20. janúar 1920 – 23. september 1920
ForsetiRaymond Poincaré
Paul Deschanel
ForveriGeorges Clemenceau
EftirmaðurGeorges Leygues
Persónulegar upplýsingar
Fæddur10. febrúar 1859
París, Frakklandi
Látinn7. apríl 1943 (84 ára) Versölum, Frakklandi
StjórnmálaflokkurFranski sósíalistaflokkurinn (1902-1904)
Sjálfstæði sósíalistaflokkurinn (1907-1911)
Lýðveldissósíalistaflokkurinn (1911-1912)
Þjóðernisbandalag lýðveldissinna (1924-1927)
MakiJeanne Levayer
TrúarbrögðEfahyggja
Börn4
HáskóliParísarháskóli
StarfLögfræðingur, blaðamaður stjórnmálamaður

Þegar Paul Deschanel forseti sagði af sér af heilsufarsástæðum tók Millerand, sem var þá forsætisráðherra, við af honum og náði 695 atkvæðum af 892 í forsetakjöri á franska þinginu. Sem forseti átti Millerand í stormasömu sambandi við forsætisráðherra sína þar sem hann vildi túlka frönsku stjórnarskrána bókstaflega og fara með veruleg völd sem þjóðhöfðingi Frakklands. Millerand átti sér í lagi í deilum við Aristide Briand forsætisráðherra þar sem Briand vildi bæta samskipti Frakka við Þjóðverja í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar en Millerand vildi taka hart á þeim, sérstaklega þegar kom að greiðslu stríðsskaðabóta.

Millerand blandaði sér í innanríkisstjórnmál Frakklands og braut í bága við hefðbundið stjórnmálahlutleysi forsetans, sérstaklega með ræðu sem hann flutti í Évreux árið 1923 þar sem hann lýsti yfir stuðningi við fráfarandi þingmeirihluta. Vinstribandalagið sem vann þingkosningarnar árið 1924 heimtaði í kjölfarið afsögn hans en Millerand neitaði og storkaði þinginu með því að fela fjármálaráðherra fráfarandi hægristjórnar, Frédéric François-Marsal, að mynda ríkisstjórn. Þingið lýsti umsvifalaust yfir vantrausti á fyrirhugaða ríkisstjórn François-Marsal.

Þjóðernissinnaðir hægrimenn hvöttu Millerand til að fremja „valdarán“ en hann neitaði og sendi þinginu loks uppsagnarbréf sitt þann 11. júní 1924.

Tíu mánuðum síðar, í apríl 1925, var Millerand kjörinn á efri deild franska þingsins fyrir Signukjördæmi. Hann sat á þinginu til ársins 1927 en þá tapaði hann endurkjöri á þing fyrir Pierre Laval.[1] Hann settist aftur á þing sem fulltrúi Orne-kjördæmis eftir andlát fyrri fulltrúans[2] og sat þar til dauðadags. Sökum aldurs og veikinda tók Millerand ekki þátt í atkvæðagreiðslunni þann 10. júlí 1940 þar sem ákveðið var að veita Philippe Pétain neyðarvöld.

Heimild

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Le Petit Parisien, 10. janúar 1927.
  2. Le Petit Parisien, 31. október 1927, bls. 1.


Fyrirrennari:
Georges Clemenceau
Forsætisráðherra Frakklands
(20. janúar 192023. september 1920)
Eftirmaður:
Georges Leygues
Fyrirrennari:
Paul Deschanel
Forseti Frakklands
(23. september 192011. júní 1924)
Eftirmaður:
Gaston Doumergue