Aleksandar Vučić
Aleksandar Vučić (f. 5. mars 1970) er serbneskur stjórnmálamaður sem hefur verið forseti Serbíu frá árinu 2017. Hann var áður forsætisráðherra landsins frá 2014 til 2017 og hefur verið leiðtogi serbneska Framfaraflokksins frá árinu 2012. Flokkurinn hefur haft meirihluta á þingi Serbíu frá árinu 2014.
Aleksandar Vučić | |
---|---|
Александар Вучић | |
Forseti Serbíu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 31. maí 2017 | |
Forsætisráðherra | Ivica Dačić (starfandi) Ana Brnabić |
Forveri | Tomislav Nikolić |
Forsætisráðherra Serbíu | |
Í embætti 24. apríl 2014 – 31. maí 2017 | |
Forseti | Tomislav Nikolić |
Forveri | Ivica Dačić |
Eftirmaður | Ivica Dačić (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 5. mars 1970 Belgrad, Serbíu, Júgóslavíu |
Þjóðerni | Serbneskur |
Stjórnmálaflokkur | Serbneski framfaraflokkurinn |
Maki | Ksenija Janković (g. 1997; sk. 2011) Tamara Đukanović (g. 2013) |
Háskóli | Háskólinn í Belgrad |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Þótt Serbía sé þingræði þar sem forsetinn fer formlega séð ekki með mikil völd er Vučić enn almennt talinn valdamesti maður landsins og hinn eiginlegi leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Stjórn hans hefur sætt ásökunum um að skerða lýðræði í Serbíu vegna takmarkana á fjölmiðlafrelsi á síðustu árum.
Æviágrip
breytaÆtterni og uppvöxtur
breytaFöðurfjölskylda Vučićs kemur frá Bugojno í Bosníu en neyddist til að flýja þaðan undan króatísku fasistasamtökunum Ustasja í seinni heimsstyrjöldinni og setjast að í Belgrad. Margir ættingjar Vučićs, meðal annars föðurafi hans, voru myrtir af meðlimum Ustasja í stríðinu. Móðir Vučićs er frá Bečej.
Vučić ólst upp í Nýju Belgrad og gekk í gagnfræðaskóla í borgarhlutanum Zemun. Hann nam lögfræði við Háskólann í Belgrad. Hann bjó síðan í tvö ár í Bretlandi og sneri heim til Júgóslavíu í byrjun tíunda áratugarins til að vinna sem blaðamaður.[1]
Stjórnmálaferill
breytaÁrið 1993 gekk Vučić í serbneska Róttæka flokkinn, þjóðernis- og hægrisinnaðan popúlistaflokk sem hafði það að stefnumáli að þenja landamæri Serbíu til svæða í nágrannaríkjunum sem áður höfðu verið byggð Serbum. Vučić var kjörinn á þing fyrir Róttæka flokkinn í kosningum sama ár og var kjörinn aðalritari flokksins tveimur árum síðar, aðeins 24 ára gamall.
Í mars árið 1998 varð Vučić upplýsingaráðherra í stjórn Mirko Marjanović forsætisráðherra. Til þess að bæla niður í gagnrýni á ríkisstjórn Slobodans Milošević forseta lét Vučić setja lög sem sektuðu blaðamenn fyrir að gagnrýna stjórnina og kom í veg fyrir að erlendir fjölmiðlar mættu starfa í landinu.[2] Á þessum tíma sættu serbneskir fjölmiðlar ásökunum um að miðla þjóðernisáróðri, úthrópa þjóðernisminnihlutahópa og réttlæta voðaverk gegn þeim.[3]
Vegna ósættis innan Róttæka flokksins um neikvæða afstöðu hans til Evrópusambandsins klauf Tomislav Nikolić, þáverandi aðstoðarleiðtogi flokksins, sig úr flokknum árið 2008 ásamt 57 meðlimum, þar á meðal Vučić. Nikolić stofnaði sama ár nýjan flokk, Serbneska Framfaraflokkinn, og bað Vučić að gerast meðlimur í honum. Í október árið 2008 tilkynnti Vučić að hann hygðist gerast aðstoðarleiðtogi Framfaraflokksins. Upp frá því virðist Vučić hafa breytt ýmsum stjórnmálaskoðunum sínum og hefur gefið frá sér ýmsar staðhæfingar sem stangast á við fyrri störf hans.
Frá árinu 2008 hefur Vučić verið fylgjandi því að Serbía gerist aðildarríki Evrópusambandsins. Markmið flokksins er að Serbía hljóti aðild að ESB árið 2022 og til þess að ná því markmiði verði að koma á ýmsum umbótum. Þar á meðal má nefna umbætur í dómskerfinu, valddreifingu, einkavæðingu hluta af fjármálakerfinu og rannsóknir á glæpum úr Kosóvóstríðinu. Þessar áætlanir hafa verið erfiðaðar þar sem mikill hluti Serba aðhyllist hefðbundið bandalag þjóðarinnar við Rússland og því hefur Vučić þótt leika nokkurs konar „jafnvægisleik“ á milli ESB og Rússlands á valdatíð sinni.[4]
Vegna fortíðar Vučićs í serbneskum stjórnmálum er hann litinn hornauga í nágrannaríkjunum Bosníu og Hersegóvínu og Króatíu. Þar sem Króatar eru meðlimir í ESB hefur afstaða þeirra til Vučićs einnig flækt fyrirætlanir hans um inngöngu í sambandið. Króatar hafa farið leynt og ljóst fram á að Serbar leysi úr álitamálum er varða framgang þeirra í króatíska sjálfstæðisstríðinu áður en aðild þeirra að ESB verði tekin til greina. Aðild Vučićs að ríkisstjórn Miloševićs á tíunda áratugnum þykir hafa gert honum erfitt fyrir í samningaviðræðum við Króatíu.
Vučić bað Serba um umboð til að halda áfram viðræðum við ESB í aðdraganda þingkosninga árið 2016.[5] Framfaraflokkurinn vann kosningarnar með yfirburðum en í stað þess að halda áfram sem forsætisráðherra ákvað Vučić að gefa kost á sér í forsetakosningum landsins sem fóru fram árið 2016. Hann vann forsetakosningarnar með meirihluta í fyrstu umferð þann 2. apríl árið 2017.[6] Ana Brnabić tók við af Vučić sem forsætisráðherra en þótt forsetaembættið hafi lítil völd samkvæmt stjórnarskrá landsins hefur Vučić í reynd áfram verið leiðtogi ríkisstjórnarinnar í krafti stöðu sinnar sem flokksleiðtogi Framfaraflokksins. Brnabić hefur gengist við því að Vučić starfi sem „leiðbeinandi“ hennar.[7]
Alþjóðlegir eftirlitshópar hafa lýst áhyggjum af hrörnun lýðræðis í Serbíu á stjórnartíð Vučićs. Árið 2020 komst bandaríska hugveitan Freedom House að þeirri niðurstöðu að Serbía gæti ekki lengur talist lýðræðisríki.[8] Stjórnarandstöðuflokkarnir sniðgengu þingkosningar sem haldnar voru í júní 2020, sem leiddi til þess að Framfaraflokkurinn og samstarfsflokkar hans unnu nánast öll sæti á serbneska þinginu.[9]
Vučić var endurkjörinn forseti Serbíu í apríl 2022, auk þess sem Framfaraflokkurinn viðhélt yfirburðastöðu á serbneska þinginu.[10]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Порекло Александра Вучића“. Poreklo. Sótt 25. júní 2020.
- ↑ Guy De Launey (2014). „Serbia transforming from pariah to EU partner“ (enska). BBC News. Sótt 25. júní 2020.
- ↑ Judah (1997). The Serbs. Yale University Press. ISBN 978-0-300-15826-7.
- ↑ „Miloš Varcaković: Ingen oro över att Serbien ska alliera sig med Ryssland“ (sænska). Frihetssmedjan. 16. júní 2015. Sótt 25. júní 2020.
- ↑ „Segertippad Vucic vinner Serbienval“ (sænska). SvD.se. Sótt 25. júní 2020.
- ↑ „Vucic næsti forseti Serbíu“. RÚV. 3. apríl 2017. Sótt 25. júní 2020.
- ↑ „Brnabić: Vučić da ima ulogu mentora nad premijerom“ (serbneska). Danas. 6. júní 2017. Sótt 25. júní 2020.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (6. maí 2020). „Telja Ungverjaland ekki lengur lýðræðisríki“. Vísir. Sótt 25. júní 2020.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (22. júní 2020). „Vučić herðir tökin“. Vísir. Sótt 22. júní 2020.
- ↑ Atli Ísleifsson (4. aprí 2022). „Vucic og flokkur hans með örugga sigra í Serbíu“. Vísir. Sótt 4. apríl 2022.
Fyrirrennari: Ivica Dačić |
|
Eftirmaður: Ivica Dačić (starfandi) | |||
Fyrirrennari: Tomislav Nikolić |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |