Aðskilnaðardómurinn

Aðskilnaðardómurinn (einnig kallaður mannréttindadómurinn) var dómur Hæstaréttar Íslands sem féll 9. janúar 1990 í máli 120/1989. Hann er að mörgu leyti sérstakur í íslenskum rétti og hafa kennimenn gagnrýnt Hæstarétt mjög fyrir dóminn.

Málsatvik breyta

Málsatvik voru þau að Guðmundur Breiðfjörð Ægisson var hinn 25. janúar 1989 í Sakadómi Árnessýslu dæmdur fyrir fjársvik sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga. Hann áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar og krafðist þess að hinn áfrýjaði dómur væri ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað á þeim forsendum að dómarafulltrúinn sem dæmdi hann hefði ekki verið bær til þess.

Deilumál breyta

Á þessum tíma tíðkaðist það að fógetar (og fulltrúar þeirra) færu með dómsvald í sakamálum. Þetta þýddi í raun að sami maðurinn gat verið yfirmaður lögreglunnar, sem rannsakaði málið, og dómarans, sem dæmdi manninn sem lögreglan taldi sekan. Því var haldið fram að

Fyrri fordæmi og dómurinn breyta

Dómendur breyta

Málið dæmdu Guðmundur Jónsson, Benedikt Blöndal, Bjarni K. Bjarnason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Þór Vilhjálmsson.

Fyrri fordæmi breyta

Sérstaka athygli vekur að til voru tvö nýleg fordæmi þar sem Hæstiréttur hafði komist að því að ofangreind rök væru ekki nægilega sterk. Þessa dóma er að finna í dómasafni Hæstaréttar; H. 1985:1290 og H. 1987:356.

H. 1985:1290 breyta

Ákæruvaldið gegn Jóni Kristinssyni. Ákærði hélt fram sömu vörnum og ákærði í aðskilnaðardómnum, en í forsendum sínum sagði Hæstiréttur m.a. um þá vörn:

  • Við flutning málsins fyrir Hæstarétti gerði verjandi ákærða kröfu um, að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar og dómsálagningar. Fyrir kröfu þessari færði verjandinn eftirfarandi rök: „Í fyrsta lagi að rannsókn málsins í héraði hafi verið verulega áfátt. Í öðru lagi að málið hafi ekki verið dæmt af hlutlausum dómara, en sá háttur að sami maður hafi afskipti af málinu sem lögreglustjóri (fulltrúi lögreglustjóra) og dómari (fulltrúi dómara) brjóti í bága við meginreglur 2. og 61. greinar stjórnarskrárinnar og 6. greinar Evrópuráðssamningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis."
  • Samkvæmt íslenskri dómstólaskipun er dómsvald í héraði utan Reykjavíkur í höndum bæjarfógeta og sýslumanna, sem hafa jafnframt lögreglustjórn á hendi. Þykir héraðsdómur eigi verða ómerktur of þeim sökum, að fulltrúi bæjarfógetans á Akureyri fór með mál þetta. Þá hefur heldur eigi verið sýnt fram á nein sérstök atriði, sem valdi vanhæfi bæjarfógetans né þessa fulltrúa hans.

Jón skaut máli sínu til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem komst að því að sú skipan að fógetar dæmdu í sakamálum væri andstæð 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hljóðar svo: “Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manna að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. [...]” Málinu lauk með sátt við íslenska ríkið. (sjá einnig forsendur Hæstaréttar í aðskilnaðardóminum að neðan)

H. 1987:356 breyta

Í forsendum Hæstaréttar segir m.a.

  • Þá eru af ákærða hálfu færð fram þau rök fyrir ómerkingarkröf­unni að héraðsdómarinn, sem dæmdi hinn áfrýjaða dóm, hafi ekki mátt skipa dómarasæti í málinu. Er um þetta skírskotað til þess að héraðsdómarinn gegni eigi aðeins héraðsdómarastarfi í umdæmi sínu heldur sé hann jafnframt lögreglustjóri í því umdæmi. Brjóti sú skipan gegn 2. grein og 61. grein stjórnarskrár lýðveldisins, nr. 33 frá 1944, svo og 6. grein Evrópusamnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. auglýsingu nr. 11 frá 9. febrúar 1954, og eigi að valda ómerkingu hins áfrýjaða dóms.
  • Ákvæði 2. greinar stjórnarskrár lýðveldisins og sambærileg ákvæði 2. greinar stjórnarskrár konungsríkisins Íslands, nr. 9 frá 18. maí 1920, og 1. greinar stjórnarskrár um hin sérstaklegu málefni Íslands frá 5. janúar 1874, hafa ekki verið talin standa í vegi þeirri skipan, sem lög mæla fyrir um, að sýslumenn og bæjarfógetar, sem hafa á hendi lögreglustjórn, fari jafnframt með dómsvald í héraði þó að undantekningar séu frá því gerðar, sbr. 29. gr. laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, og 4. gr. laga nr. 74/1974 um meðferð opinberra mála, sbr. enn fremur lög nr. 74/1972 en áður lög nr. 65/1943 og lög nr. 98/1961. Er og beinlínis ráð fyrir því gert í 61. grein stjórnarskrárinnar frá 1944, sbr. áður 57. grein stjórnar­skrárinnar frá 1920 og 44. grein stjórnarskrárinnar frá 1874, að dómendur geti haft umboðsstörf á hendi. Ávæðum 6. greinar
  • Evrópusamnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. aug­lýsingu nr. 11 frá 9. febrúar 1954 hefur ekki verið veitt lagagildi hér á landi. Breyta þau ekki þeirri lögbundnu skipan sem að framan var greind. Þar sem hinn áfrýjaði dómur var samkvæmt þessu kveðinn upp af héraðsdómara, sem til þess var bær að íslenskum lögum, verður hann ekki ómerktur af þeirri ástæðu sem hér er um fjallað þótt í málinu hafi verið lagðar fram skýrslur sem lögreglumaður í umdæmi héraðsdómara hafði tekið.

Eins og Jón Kristinsson skaut áfrýjandi málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og lauk málinu með sátt við Íslenska ríkið.

Forsendur aðskilnaðardómsins breyta

Hæstiréttur segir að líta beri til þessa:

  • Að í stjórnarskránni sé byggt á því að ríkisvaldið sé þríþætt
  • Að Alþingi hafi setti lög sem taka ættu gildi 1. júlí 1992 þar sem þessu fyrirkomulagi væri breytt þannig að fógetar væru ekki dómarar.
  • Að mannréttindanefnd Evrópu hefði ályktað í máli Jóns Kristinssonar að þessi skipan mála bryti gegn 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (sjá að ofan)
  • Að landfræðilegar og sögulegar ástæður hafi legið að baki þessari skipan dómsmála, ástæður sem ekki eigi lengur við.

Með þetta í huga komst Hæstiréttur að því að dómara hefði borið að víkja sæti. Málið var því sent aftur heim í hérað til efnislegrar meðferðar.

Gagnrýni á dóminn breyta

Dómurinn hefur verið gagnrýndur mjög af lögfræðingum, sem almennt virðast telja að Hæstiréttur hafi vikið frá hinni lagalegu aðferð. Forsendur dómsins hafa þá verið teknar fyrir, oftast eitthvað á þessa leið:

  • Hæstiréttur hafi fyrir varla þremur árum komist að því að fyrirkomulagið hafi verið í lagi. Ekki hafi borið að víkja svo fljótt frá endurteknum fordæmum.
  • Í forsendum Hæstaréttar vitnar hann í lög sem taka ættu gildi 1. júlí 1992. Þetta hefði ekki átt að hafa neina þýðingu, lögum sem ekki hafa tekið gildi eigi ekki að beita.
  • Þá vísar Hæstiréttur til álits Mannréttindanefndar Evrópu í máli Jóns Kristinssonar, og sáttar sem íslenska ríkið gerði í máli hans. En samkvæmt viðurkenndum réttarheimildafræðum getur álit Mannréttindanefndar Evrópu eða sátt Íslenska ríkisins ekki verið gild réttarheimild og því ekki hægt að reisa dóm á þeim.
  • Ólíklegt verður að telja að landfræðilegar og sögulegar ástæður hafi breyst mikið á milli dómanna.
  • Hafa ber í huga að Mannréttindasáttmáli Evrópu var ekki lögfestur á þessum tíma. Hann var því ekki gild íslensk réttarheimild.

Frekara lesefni breyta