Grímur Svertingsson

Grímur Svertingsson var íslenskur lögsögumaður sem uppi var á 10. og 11. öld. Hann bjó á Mosfelli í Mosfellssveit og var lögsögumaður á árunum 1002-1003.

Grímur var auðugur og ættstór, að því er segir í Egils sögu. Hann var sonur Svertings Hrolleifssonar, sem kominn var í beinan karllegg af Ölvi barnakarli. Móðir Gríms var Arnbjörg Ráðormsdóttir og hafði hún áður verið gift Gnúpi Molda-Gnúpssyni. Um árið 959 giftist hann Þórdísi Þórólfsdóttur (f. um 936), bróður- og stjúpdóttur Egils Skallagrímssonar. Egill unni henni engu minna en sínum eigin börnum og flutti að Mosfelli til þeirra Gríms um 974. Hann dó þar um 990 og var þá orðinn hrumur en skömmu fyrir dauða sinn vildi hann ríða til Alþingis með Grími stjúptengdasyni sínum og dreifa silfri sínu yfir þingheim. Grímur tók það ekki í mál og skildi hann eftir. Grímur var skírður þegar kristni var lögtekin á Alþingi og lét fljótlega reisa kirkju á Mosfelli. Þangað lét Þórdís flytja bein Egils og grafa.

Grímur tók við lögsögumannsembættinu af Þorgeiri ljósvetningagoða árið 1002 og hefur þá líklega verið orðinn roskinn. Eftir tvö ár í embætti fékk hann leyfi til þess að afsala sér embættinu til Skafta Þóroddssonar, sem var sonur Rannveigar Gnúpsdóttur hálfsystur hans „af því at hann var hásmæltr sjálfr“. Lögsögumaður þurfti á fullum raddstyrk að halda því að honum bar að fara með þriðjung allra laga í heyranda hljóði fyrir þingheim á hverju Alþingi.

Heimildir breyta

  • „Mosfell í Mosfellsdal“.
  • „Egils saga á vef Netútgáfunnar“.