Ólafur Hannesson Finsen (22. maí 179324. febrúar 1836) var íslenskur sýslumaður, dómari í Landsyfirrétti og gegndi störfum landfógeta, bæjarfógeta, amtmanns og stiftamtmanns í afleysingum.

Hann var fæddur í Skálholti, sonur Hannesar Finnssonar biskups og Valgerðar Jónsdóttur, seinni konu hans, og var aðeins þriggja ára þegar faðir hans dó. Hann varð stúdent úr heimaskóla hjá Steingrími Jónssyni biskupi 1814, hélt þá til náms í Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist með lögfræðipróf haustið 1817. Hann var settur sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1818 og skipaður sýslumaður 1821. Hann varð 2. assessor og dómsmálaritari Landsyfirréttar þegar Magnús Stephensen dó 1833 og var skipaður árið eftir.

Ólafur þjónaði landfógetaembættinu og bæjarfógetaembættinu í Reykjavík í fjarveru Ulstrups landfógeta 1831-1832 og stiftamtmannsembættinu og amtmannsembættinu í Suðuramti í fjarveru Kriegers stiftamtmanns 1834-1836 en þá lést Ólafur. Krieger kom þó aftur um vorið og gendi embættinu til vors 1837 þótt hann hefði verið skipaður stiftamtmaður í Álaborgarstifti 1836.

Kona Ólafs var María Nikólína Möller (28. ágúst 1803 - 27. nóvember 1886), dóttir Óla Möller, kaupmanns í Reykjavík. Börn þeirra voru Vilhjálmur Finsen hæstaréttardómari í Kaupmannahöfn, Jón Finsen stiftlæknir á Lálandi og Falstri, Hannes Finsen amtmaður í Færeyjum, Óli Finsen póstmeistari í Reykjavík og Valgerður, kona Halldórs Jónssonar prófasts á Hofi í Vopnafirði.

Heimildir

breyta
  • „Candidati juris. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 3. árgangur 1882“.