Árni Grétar Finnsson

Árni Grétar Finnsson (f. 3. ágúst 1934 á Akranesi, d. 11. október 2009) var íslenskur lögmaður og stjórnmálamaður. Hann var forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði fyrir Sjálfstæðisflokk, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og lögmaður.

Árni ólst upp á Akranesi en bjó á námsárunum í Hafnarfirði og flutti þangað alfarið 1957. Árni lauk stúdentsprófi frá 1955, embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1961, öðlaðist héraðsdómsréttindi 1962 og hæstaréttarréttindi 1967.

Árni starfrækti eigin lögfræðiskrifstofu í Hafnarfirði frá 1961-2007. Hann var jafnframt umboðsmaður Sjóvátryggingafélags Íslands í Hafnarfirði og Sjóvár-Almennra 1962-95. Árni var varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1962-66, bæjarfulltrúi þar 1966-90, sat í bæjarráði 1970-82 og 1986-90 og var forseti bæjarstjórnar 1982-86. Hann var formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar 1962-70. Þá sat hann í stjórn Landsvirkjunar, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, St. Jósefsspítala, markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, í stjórn Íslenskra aðalverktaka, Bláa lónsins, Heilsufélags Bláa lónsins og var fulltrúi Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna 1979.

Árni var formaður stúdentaráðs HÍ og fulltrúi stúdenta í háskólaráði, var ritstjóri stúdentablaðs um skeið, sat í stjórn Þórs, félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi, 1950-57, var formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði 1958-62, formaður SUS 1964-67, í stjórn kjördæmisráðs sjálfstæðisfélagana í Reykjaneskjördæmi 1960-66, í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1964-67, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði 1978-80 og var ritstjóri Hamars í mörg ár. Árni var formaður Taflfélags Hafnarfjarðar 1956-57. Hann var skákmeistari Taflfélags Hafnarfjarðar 1954, hraðskákmeistari Akraness 1954-56, var í sveit Íslands á heimsmeistaramóti stúdenta í Reykjavík 1957 og í Búlgaríu 1958.

Árni sendi frá sér ljóðabækurnar Leikur að orðum 1982, Skiptir það máli 1990, Septemberrós 1997 og Fiðluleikarinn 2007.