Guðrún Nordal

prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Guðrún Nordal (f. 27. september 1960) er prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Æviágrip

breyta

Foreldrar Guðrúnar eru Jóhannes Nordal fyrrum seðlabankastjóri, og Dóra Guðjónsdóttir Nordal píanóleikari og húsmóðir.

Guðrún útskrifaðist með BA próf í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1982. Þá nam hún í Ludwig Maximiliens Universität í München 1982–83, og hlaut doktorsgráðu frá Oxford University, Christ Church College 1988. Guðrún var fyrirlesari um Halldór Laxness við University College í London 1990–1993, gegndi rannsóknarstöðu með aðstöðu á Stofnun Árna Magnússonar 1993–1996 og starfaði síðan sem fræðimaður við Stofnun Árna Magnússonar 1997–2001. Hún varð síðan dósent íslenskum miðaldabókmenntum við hugvísindadeild Háskóla Íslands og prófessor 2005. Hún varð forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 1. mars 2009.

Helstu kennslusvið Guðrúnar eru íslenskar miðaldabókmenntir, Íslendingasögur, konungasögur, bókmenntafræði miðalda og Snorra-Edda, kveðskapur frá öndverðu til siðaskipta. Rannsóknarsvið hennar eru ritmenning íslenskra miðalda með megináherslu á ritun veraldlegra sagna og kveðskapar í ljósi bókmenntafræði miðalda. Helstu rannsóknarverkefni hennar síðustu misserin hafa verið dróttkvæði allt frá 9. öld til um 1400. Hún er einn fimm ritstjóra alþjóðlegrar heildarútgáfu á dróttkvæðum (Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages), og kom fyrsta bindið af níu út árið 2007. Hún ritstýrir þeim bindum sem geyma kveðskap í Íslendingasögum og í sögulegum verkum um Ísland. Sú útgáfa mun birtast í prentaðri og rafrænni gerð.

Doktorsritgerð Guðrúnar frá Oxford University var um Sturlungu (útgefin árið 1998, Ethics and action in Thirteenth-century Iceland). Árið 2001 kom út rannsókn á dróttkvæðum og lærdómshefð 12. og 13. aldar (Tools of Literacy). Í bókinni er fjallað um Snorra-Eddu og málfræðiritgerðirnar, og hin fræðilega umræða í þeim verkum sett í samhengi við alþjóðlega strauma í bókmenntafræði sem og kveðskapariðkun og mikilvægi skáldskapar í samfélaginu. Guðrún er einn höfunda Íslenskar bókmenntasögu 1, Rvík 1992, (2. útg. 2006).

Guðrún Nordal fékk íslensku fálkaorðuna 17. júní 2010.

Maki Guðrúnar er Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt og eiga þau eina dóttur.

Tilvitnun

breyta

„Dróttkvæðin eru einstakar heimildir um samtíma sinn og hafa ekki verið aðgengileg í greinargóðri og handhægri nútímaútgáfu, . . . Bókmenntalegt gildi dróttkvæðanna er auðvitað óumdeilt, . . . en kvæðin eru einnig mikilvægar heimildir um trúarviðhorf, hugmyndaheim, táknmál og skáldskaparhefð á fyrri tímum og nýtast því ýmsum ólíkum fræðasviðum.“ — Guðrún Nordal.

Helstu rit

breyta
  • Ethics and Action in Thirteenth-Century Iceland, Odense 1998, 369 s. — The Viking collection, Studies in Northern civilization. — Doktorsrit, 1988.
  • Tools of Literacy: the Role of Skaldic Verse in Icelandic Textual Culture of the 12th and 13th Centuries, Toronto 2001, x + 440 s.
  • Skaldic versifying and social discrimination in medieval Iceland, London ~2003, 16 s. — The Dorothea Coke memorial lecture in northern studies.

Greinar

breyta

Guðrún hefur ritað fjölmargar greinar og bókakafla um bókmenntir og ritmenningu miðalda, sjá skrár Landsbókasafns.

Afmælisrit

breyta
  • Guðrúnarstikki, kveðinn Guðrúnu Nordal fimmtugri 27. september 2010, Rvík 2010, 88 s. — Menningar- og minningarsjóður Mette Magussen.