Áhlaupið á lögreglustöðina við Hverfisgötu 22. nóvember 2008
Áhlaupið á lögreglustöðina við Hverfisgötu 22. nóvember 2008 er atburður þar sem hópur fólks safnaðist saman við Lögreglustöðina við Hverfisgötu og gerði áhlaup á húsið. Mannfjöldinn braut sér leið í gegnum útidyr hússins, en var hrakinn út á ný af lögreglu sem beitti piparúða. Ástæður þessa voru þær að daginn áður hafði Haukur Hilmarsson verið handtekinn af lögreglu[1], en Haukur er m.a. þekktur fyrir að hafa flaggað fána Bónus verslunarkeðjunnar á fánastöng Alþingis þann 8. nóvember 2008[2] og einnig fyrir að hafa verið handtekinn fyrir að hlekkja sig við byggingarkrana þegar hann tók þátt í mótmælaaðgerðum við álverið á Reyðarfirði árið 2006.[3]
Það var Hörður Torfason[4] sem var aðal hvatamaðurinn að því að fólk fylkti liði að lögreglustöðinni, en í ræðu sinni á mótmælum Radda fólksins á Austurvelli þennan sama dag fordæmdi hann handtökuna. Hörður sagði meðal annars í ræðu sinni:
„Við erum ekki hrifin af því að fólk í þessu landi fái ekki að tjá sig. Það á ekki að líðast að mótmælandi sé handtekinn daginn fyrir útifund.“[4]
Að því loknu hvatti hann mótmælendur á Austurvelli til að mótmæla handtöku lögreglunnar og í kjölfarið fór hópur manna fylktu liði að lögreglustöðinni, en talið er að mótmælendur hafi verið á fimmta hundrað við lögreglustöðina.[4]
Aðgerðir mótmælenda og viðbrögð lögreglu
breytaMótmælendur kröfðust þess að fá inngöngu í lögreglustöðina og hrópuðu endurtekið „Út með Hauk, inn með Geir“. Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, hélt ræðu og fór fram á að sonur hennar yrði leystur úr haldi. Þegar ekki bárust nein viðbrögð frá lögreglu hófust mótmælendur handa við að brjóta sér leið inn í húsið um aðaldyr höfuðstöðvar lögreglunnar, en þær voru læstar.
Morgunblaðið greinir frá atburðinum þann 24. nóvember 2008[5]. Þar kemur fram að Eva Hauksdóttir hafi leitt mótmælin, en er haft eftir henni að hún hafi ekki átt frumkvæði að hústökunni.
Brutust mótmælendur fyrst inn um fremri dyrnar inn í anddyrið og reyndu svo að brjóta sér leið áfram inn, en þar mættu þeir lögreglunni sem varnaði þeim inngöngu og sneri þeim við.
Í frétt Morgunblaðsins segir:
,,Eftir um klukkustundarlöng mótmæli magnaðist reiðin svo tekið var til við að grýta húsið og brjóta upp útidyrnar. Þrjár rúður brotnuðu og komst fólkið að innri hurð anddyrisins. Þar tóku 15-20 lögreglumenn á móti, klæddir hlífðarbúnaði fyrir óeirðir. Þeir sprautuðu piparúða yfir hópinn, ruddu anddyrið og stóðu svo vörð fyrir utan. Nokkrir leituðu sér læknishjálpar í framhaldinu, vegna piparúðans."[5]
Fjölmargir leituðu á slysadeild
breytaFjölmargir aðilar, meðal annars móðir Hauks, leituðu á slysadeild vegna sviða í augnum eftir piparúðann sem lögregla sprautaði yfir mótmælendur.
Einn þeirra sem sem fékk piparúða lögreglunnar í augun var Jón Erlendur Guðvarðarson. Hann sagði í viðtali við Fréttablaðið 24. nóvember 2008 að sér finndist handtaka Hauks svívirðileg og það hafi fengið hann til að mótmæla við lögreglustöðina:
„Mig svíður í augun. [...] Okkur á að vera frjálst að mótmæla og okkur á að vera frjálst að segja skoðun okkar. Með því að taka þennan mann sýndi lögreglan það að við erum ekki frjáls. En fólki á ekki að detta það í hug að við sættum okkur við að mótmælendur séu handteknir.“[6]
Ástæða handtökunnar
breytaHandtaka Hauks[7] tengdist því að hann hafði hlotið sekt vegna mótmælaaðgerða sinna við álverið á Reyðarfirði sem hann hafði ekki greitt og átti eftir að ljúka vararefsingu vegna málsins. Haukur hélt þó öðru fram og stefndi íslenska ríkinu vegna handtökunnar. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Hauki í vil þann 25. febrúar 2010[3], meðal annars með þeim rökum að boða hefði átt hann til fangelsisvistar með fyrirvara, en Haukur var handtekinn fyrirvaralaust þann 21. nóvember þegar hann hafði verið í vísindaferð á Alþingi á vegum Háskóla Íslands.[3]
Mistök Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar
breytaInnheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar viðurkenndi að hafa gert mistök með því að hafa ekki látið Hauka vita af því að hann ætti eftir að mæta til afplánunnar á vararefsingu. [8]
Hauki sleppt úr haldi
breytaHauki var sleppt úr haldi um klukkan 18:00 þann 22. nóvember eftir að aðili hafði þá greitt umrædda sekt sem Hauki var gert að sæta vararefsingu fyrir, en ekki hefur verið staðfest hver sá aðili var. DV hélt því þó fram að það hefði verið lögmaðurinn Sigurmar Albertsson, eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra.[9]
Eyjan fjallar um málið og hefur eftir vinkonu móður Hauks á bloggsíðu hennar að maðurinn væri „hátt settur í réttarkerfi Íslendinga og vildi borga Hauk út því hann óttaðist óeirðir ef honum yrði ekki sleppt.“[10]
Viðbrögð Hauks
breytaEftir að Haukur var frjáls á ný sagði hann við mótmælendur sem stóðu fyrir utan lögreglustöðina að hann skildi reiði fólks og bætti við:
,,Ég vil að það verði barist fyrir byltingu, en ekki fyrir mig. Ég vil að við nýtum alla þessa orku til að fella ríkisstjórnina strax."[11]
Í viðtali við Fréttablaðið 24. nóvember 2008 sagði Haukur:
„Ég vildi ekki að gott fólk myndi slasa sig við að bjarga einhverjum tittlingi. Heldur frekar að þessi kraftur yrði notaður í að knésetja þessa ríkisstjórn. Koma á algjörri og almennri og tafarlausri byltingu.“[12]
Haukur lýsti því yfir í samtali við Fréttablaðið að hann hyggðist kanna réttarstöðu sína[13] enda teldi hann að handtakan hafi farið fram á ólöglegan hátt. Hann segir lögregluna hafa tjáð sér við handtökuna að hann væri eftirlýstur, en ekki haft hugmynd um það sjálfur. „Já, og mér finnst að allir ættu að halda áfram aðgerðum,“[13] segir Haukur inntur eftir því hvort hann ætlaði sér að mótmæla áfram, en hann var þó ekki tilbúinn að sýna andlit sitt.
„Ég vil ekki verða persónugervingur þessa máls. Mér finnst að það eigi að fjalla um málefni.“[13]
Viðbrögð móður Hauks
breytaEva Hauksdóttir, móðir Hauks sagði á sinni bloggsíðu um málið:
,,Sonur minn Byltingin var handtekinn í kvöld og honum gert að afplána 14 daga fangavist. Forsaga málsins er sú að í desember 2005 fékk hann á sig sektardóm vegna aðgerðar á vegum Saving Iceland. Hann kaus vitanlega að sitja af sér dóminn, þ.e. 18 daga, og var boðaður í afplánun í ágúst 2007. Þangað mætti hann en var sparkað út á 5. degi til að rýma til fyrir öðrum aktivista sem þurfti líka að taka úr umferð vegna skoðanna sinna. Honum var þá sagt að hann yrði kallaður inn síðar þegar fangelsismálastofnun hentaði. Hann reiknaði þó ekki með að vera hirtur upp af götunni án nokkurs fyrirvara.
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður þekkir þess ekkert dæmi að fangelsisyfirvöld skipti afplánun niður að eigin geðþótta. Það þarf mjög góðar ástæður til og einu dæmin sem þekkjast um að svo stuttum dómi sé skipt er ef sá dæmdi fer sjálfur fram á það vegna sérstakra aðstæðna, t.d. ef ástvinur fellur frá. Auk þess ber fangelsisyfirvöldum að boða fólk í afplánun með minnst 3ja vikna fyrirvara."[10]
Í samtali við Fréttablaðið lýsti Eva sögu sonar síns og sagði hann friðsaman aktivista sem ekki eigi heima í fangelsi.
„Hann hefur staðið í ýmsum mótmælum, meðal annars fyrir umhverfisvernd og gegn stóriðjustefnunni. Hann tilheyrir mörgum grasrótarhreyfingum. En hann hefur alltaf mótmælt friðsamlega og er aldrei með ofbeldi." [6]
Hún sagðist ánægð með stuðninginn sem syni hennar væri sýndur með mótælununum. Svo bætti hún við:
„Fólk er að verða reitt sýnist mér. [...] Mér líður illa yfir hvernig lýðræðinu í okkar landi er fyrir komið. Það er hræðilegt að rödd alþýðunnar skuli vera barin niður. En mér finnst frábært að sjá þau viðbrögð sem þetta vekur. Það er greinilegt að fólk er búið að fá nóg af þessu rugli.“[6]
Viðbrögð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu
breytaStefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins tjáði sig um málið við mbl.is. Hann neitar því ekki að handtakan hafi verið illa tímasett:
„Ég get alveg tekið undir að þetta hefði mátt vera með öðrum hætti. Hins vegar var þessi maður ekki undir neinu sérstöku eftirliti hjá okkur. Þess vegna fór bara með hann eins og alla aðra sem eru eftirlýstir. Þetta fór ekki í neina sérmeðferð upp á mitt borð eða annarra embættismanna."[14]
Hann sagði jafnframt fráleitt að handtakan hafi verið gerð til að kæfa niður mótmæli.
Í frétt DV Geymt 9 mars 2018 í Wayback Machine segir að margir hafi verið sárir út í lögregluna eftir að piparúða var spreyjað yfir mótmælendur. Börn og unglingar hafi orðið fyrir úðanum sem og móðir Hauks.[11]
Viðbrögð þingmanns
breytaÁlfheiður Ingadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þingmaður Vinstri grænna, sem var viðstödd mótmælin við lögreglustöðina, tjáði sig um handtöku Hauks á forsíðu Fréttablaðsins 23. nóvember 2008:
„Mér finnst lögreglan hafa gengið of langt. Það er algjörlega ólíðandi að fólki sé kippt úr umferð fyrir að mótmæla eins og gert var í tilfelli þessa unga manns. Ég skil því vel reiði fólksins, þetta eru félagar hans sem ofbýður þessar aðfarir. Það að handtaka manninn með þessum hætti daginn fyrir útifund er eins og hefndaraðgerð, það er líka ögrun og slík vinnubrögð eru aðeins til þess fallin að ýta undir reiði fólks.“[12]
Tilvísanir
breyta- ↑ Bónusfánamaður handtekinn. [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ „Þekktir anarkistar“ æstu upp lýðinn. Geymt 10 maí 2016 í Wayback Machine [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Hauks Hilmarssonar gegn íslenska ríkinu.[óvirkur tengill] [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Fanganum sleppt. [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ 5,0 5,1 Reyndu að frelsa mann úr varðhaldi, Morgunblaðið 24. nóvember 2008. [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ 6,0 6,1 6,2 ,,Út með Hauk - inn með Geir", Fréttablaðið, 24. nóvember 2008. [timrit.is] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ Bónusflaggarinn handtekinn.[óvirkur tengill] [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ Mistök Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017] Stökkva upp↑
- ↑ Lögmaður bjargaði mótmælanda.[óvirkur tengill] [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ 10,0 10,1 Háttsettur maður í réttarkerfinu, sem óttaðist óeirðir, sagður hafa borgað sekt Hauks.[óvirkur tengill] [Tekið af vefnum] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ 11,0 11,1 Frjáls fánamaður krefst byltingar. Geymt 9 mars 2018 í Wayback Machine [Tekið af vefnum ] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ 12,0 12,1 Mótmælendur réðust inn í lögreglustöðina, Fréttablaðið, 24. nóvember 2008. [timarit.is] [Skoðað 26. janúar 2017]
- ↑ 13,0 13,1 13,2 Boðaði byltingu með fögnuði. Fréttablaðið, 24. nóvember 2008. [timarit.is] [Skoðað 26. janúar 2008]
- ↑ Viðtala við Stefán Eiríksson [Tekið af netinu] [Skoðað 26.janúar 2017]