Yma Sumac (13. september, 1922 (fæðingarvottorð)[1][2] eða 10. september, 1922 (seinni tíma skjöl)[3][4][5] – 1. nóvember, 2008) var perúsk söngkona (coloratura sópran) og ein af frægustu flytjendum exotíkatónlistar á 6. áratugnum.

Yma Sumac á Ítalíu 1954.

Yma Sumac hét Zoila Augusta Emperatriz Chávarri del Castillo og fæddist í Cajamarca í Perú. Hún hóf tónlistarferil með því að syngja suðuramerísk þjóðlög fyrir upptöku á vegum Odeon í Buenos Aires árið 1942. Sama ár giftist hún tónskáldinu Moisés Vivanco og tók upp sviðsnafnið Imma Sumack, sem síðar varð Yma Sumac. Þau ferðuðust um Suður- og Mið-Ameríku og fluttu loks til New York-borgar árið 1946 þar sem þau komu fram sem Inca Taqui Trio, ásamt frænku Sumac, Cholita Rivero. Les Baxter framleiðandi hjá Capitol Records heyrði í henni og framleiddi fyrstu breiðskífu hennar, Voice of the Xtabay árið 1950. Platan seldist í 500.000 eintökum og náði 1. sæti á lista Variety yfir metsöluplötur ársins 1950. Ferill hennar náði hátindi sínum á 6. áratugnum. Hún kom oft fram í Carnegie Hall og Roxy Theatre, lék í söngleikjum og kvikmyndum, og gaf út sjö breiðskífur til 1961. Eftir það kom hún fram á tónleikum með hléum og mörg lög hennar áttu endurkomu síðar, eins og „Ataypura“ sem heyrðist í The Big Lebowski og „Gopher Mambo“ sem heyrðist í Confessions of a Dangerous Mind. Hún lést á hjúkrunarheimili í Los Angeles, 86 ára að aldri.

Sumac sló í gegn á heimsvísu meðal annars vegna hins mikla raddsviðs sem hún bjó yfir. Samkvæmt sumum heimildum var hún fær um fimm áttundir,[6] en upptökur benda til þess að hún hafi náð yfir fjóra og hálfa áttund á hátindi söngferilsins.[1][7] Til samanburðar má nefna að þjálfaður söngvari nær oftast um það bil þremur áttundum.[8] Yma Sumac seldi yfir 40 milljón plötur og er ein af mest seldu rómönsku söngvurum heims og söluhæsti perúski tónlistarmaður allra tíma.[9][10][11]

Í einni tónleikaupptöku af laginu „Chuncho“ fer söngur hennar yfir fjórar og hálfa áttund, frá B2 að G#7. Hún gat sungið bæði lágar baritónnótur og nótur sem voru hærri en hefðbundin sópranrödd ræður við. Mörg af lögum hennar gengu einmitt út á að sýna þetta mikla raddsvið. Hún virðist líka hafa getað sungið „tvíraddað“.[12]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Martin, Douglas (4. nóvember 2008). „Yma Sumac, Vocalist of the Exotic, Dies at 86“. The New York Times. Sótt 14. september 2019.
  2. „The Yma Sumac Timeline“. yma-sumac.com. Sótt 14. september 2019.
  3. Petition for Naturalization as a United States Citizen for Emperatriz Chavarri de Vivanco (#176380), filed October 8, 1954, indicates she was born on September 10, 1922 at Ichocan, Cajamarca, Peru, ancestry.com; sótt 20. febrúar, 2018.
  4. „Ancestry Library Edition“. search.ancestrylibrary.com.
  5. „Ancestry Library Edition“. www.ancestrylibrary.com.
  6. David Richards, "The Trill of a Lifetime", The Washington Post (p. B1), March 2, 1987; accessed February 20, 2018.
    Quote: "a voice that shot up five octaves"
  7. Dennis McLellan (3. nóvember 2008). „Yma Sumac, 'Peruvian songbird' with multi-octave range, dies at 86“. Los Angeles Times. Sótt 10. nóvember 2017.
  8. „Why is a four octave vocal range so rare?“. BBC News Magazine. 5. nóvember 2008. Sótt 10. nóvember 2017.
  9. Mendoza, Zoila S. (28. júní 2021). „Yma Sumac: The Extraordinary Peruvian Singer and Her Paradoxical Career“. Oxford Research Encyclopedia of Latin American History (enska). doi:10.1093/acrefore/9780199366439.013.980. Sótt 9. janúar 2022.
  10. „Yma Súmac: the greatest Peruvian voice of all time featured on the new iPhone12“. peru.info (bandarísk enska). Sótt 9. janúar 2022.
  11. „Yma Súmac, la última princesa inca“. Fundación BBVA Perú (spænska). Sótt 25. desember 2021.
  12. Secret Museum of the Air, October 6, 2002 program (5:15–5:57)“. WFMU. Sótt 28. október 2019.