Wikipedia:Grein mánaðarins/11, 2020
Katrín af Medici (13. apríl 1519 – 5. janúar 1589) eða Caterina Maria Romula di Lorenzo de' Medici var drottning Frakklands á 16. öld, kona Hinriks 2. Frakkakonungs og móðir Frakkakonunganna Frans 2., Karls 9. og Hinriks 3., tengdamóðir Hinriks 4. og einnig tengdamóðir Filippusar 2. Spánarkonungs. Hún hélt í raun um stjórnartaumana í Frakklandi í nærri 30 ár og hafði mjög mikil áhrif á stjórnmál og listir í Frakklandi.
Katrín af Medici hefur fengið misjöfn eftirmæli. Óumdeilt er að í tæp þrjátíu ár hélt hún í raun um stjórnartaumana í Frakklandi að því marki sem hægt er að stjórna landi þar sem skiptast á blóðugar borgarastyrjaldir og mikil spenna og hatur milli trúarhreyfinga og aðalsætta. Hún sveifst einskis til að reyna að halda sonum sínum á konungsstóli og er talið ólíklegt að þeir hefðu enst lengi án hennar.
Katrín var mikill listunnandi. Hún safnaði málverkum og öðrum listaverkum, styrkti listamenn úr ýmsum greinum og eyddi háum fjárhæðum í listir. Mestan áhuga hafði hún þó á byggingarlist og lét reisa ýmsar hallir og önnur mannvirki, þar á meðal Tuileries-höll í París. Mörgum þeirra var þó aldrei lokið og fátt stendur eftir í dag.