Wikipedia:Grein mánaðarins/07, 2015
Bjórkjallarauppreisnin var misheppnuð valdaránstilraun Adolf Hitlers, foringja Nasistaflokksins, og Erich Ludendorffs hershöfðingja, í München í Bæjaralandi dagana 8. til 9. nóvember árið 1923, á tímum Weimar-lýðveldisins í Þýskalandi. Valdaránstilraunin átti sér stað í kjölfar mikilla efnahagslegra og pólitískra þrenginga í Þýskalandi sem fylgdu ósigrinum í fyrri heimsstyrjöldinni, en óðaverðbólga hafði geisað á árunum 1921-1923 og Frakkar höfðu hernumið Ruhrhérað þegar að stjórnvöld Weimar-lýðveldisins gátu ekki borgað þær stríðsskaðabætur sem Versalasamningurinn kvað á um. Hægri öfgamenn og þjóðernissinnar í Bæjaralandi, undir leiðsögn Hitlers og Ludendorffs, gripu tækifærið til að ná völdum í München, höfuðborg Bæjaralands, í þeim tilgangi að hleypa af stað þjóðbyltingu á landsvísu sem myndi binda enda á lýðræði og stjórn sósíaldemókrata í Þýskalandi, og leiða til stofnunar valdboðsríkis að hætti þjóðernissinna. Uppreisnin leystist upp í skotbardaga á Odeonplatz-torgi, og Hitler og Nasistaflokkurinn urðu fyrir miklum skakkaföllum.