Wikipedia:Grein mánaðarins/01, 2022
Haile Selassie var ríkisstjóri Eþíópíu frá 1916 til 1930 og Eþíópíukeisari frá 1930 til 1974. Hann átti þátt í að nútímavæða landið og var gríðarlega vinsæll leiðtogi, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.
Selassie var meðlimur eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunnar. Innan rastafarahreyfingarinnar, sem var stofnuð á Jamaíku snemma á 4. áratugnum er hann talinn vera Kristur endurborinn. Rastafarahreyfingin er kennd við nafn Haile Selassie fyrir keisaratíð hans, Ras Tafari. Fylgjendur trúarinnar telja að titill Haile Selassie og ætterni hans sem meints afkomanda Salómons konungs og drottningarinnar af Saba sýni fram á að krýning hans hafi verið uppfylling á spádómi úr Opinberunarbók Jóhannesar um endurkomu Messíasar. Rastar líta sem svo á að Haile Selassie sé sá Messías sem eigi að frelsa Afríkubúa og fólk af afrískum uppruna um allan heim.