Wikipedia:Gæðagreinar/Fiskur
Fiskar eru hryggdýr sem dvelja í vatni og anda með tálknum. Flestir fiskar eru með kalt blóð en sumar tegundir háffiska og túnfiska eru með heitt blóð. Af fiskum finnast yfir 29 þúsund tegundir, svo þeir eru fjölbreyttasti hópur hryggdýra. Algengt er að skipta fiskum í vankjálka (Agnatha, til dæmis steinsugur), brjóskfiska (Chondrichthyes - háffiskar og skötur) og beinfiska (Osteichthyes). Flokkunarfræðilega eru helstu hópar fiska af samhliða þróunarlínum og innbyrðis tengsl milli tegunda eru mjög umdeild.
Fiskar eru af öllum stærðum, allt frá 16 metra löngum hvalháfum að Schindleria brevipinguis sem er aðeins um 8 mm. Ýmsar óskyldar tegundir vatnadýra bera fisksheiti, svo sem smokkfiskur, en þær eru ekki raunverulegir fiskar. Önnur vatnadýr, eins og hvalir, líkjast fiskum en eru í raun spendýr.
Þótt flestir fiskar lifi aðeins í vatni og séu með kalt blóð þá eru undantekningar frá báðum þessara einkenna. Fiskar úr nokkrum ólíkum hópum hafa þróað með sér hæfileika til að lifa á landi um lengri tíma. Sumir þessara láðs- og lagarfiska, eins og eðjustökkullinn, geta lifað og farið um á landi í nokkra daga í senn.