Wikipedia:Úrvalsgreinar/Malaví
Malaví er landlukt land í suð-austurhluta Afríku sem liggur á milli Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Helsta einkenni Malaví er Malaví-vatn sem þekur tæplega 1/5 hluta landsins, en samtals er flatarmál Malaví 120 þús. ferkílómetrar.
Malaví er eitt af þéttbýlustu löndum í Afríku og búa þar alls 11 milljónir manna. Fólkið lifir helst á landbúnaði og fiskveiðum í Malaví-vatni. Mikil fátækt ríkir í landinu en ríkari lönd keppast við að hjálpa Malavíbúum með því að kenna þeim arðbærari vinnubrögð í landbúnaði og fiskveiðum, ásamt fullorðinsfræðslu.
Mannvistarleifar sem fundist hafa í Malaví eru taldar vera frá að minnsta kosti 8.000 f. Kr. en þær sýna að ættbálkarnir líktust nokkuð því fólki sem býr á Sómalíu-skaga á okkar dögum. Einnig hafa fundist mannvistarleifar og hellaristur frá því um 1.500 f. Kr. og sýna að fólkið var Búskmenn, þó ekki sömu tegundar og er að finna í Ástralíu.
Á 15. öld var Maravi-veldið stofnað við suðvesturströnd Malaví-vatns en það var Amaravi (seinna þekkt sem Chewa-fólkið) sem flúði frá því svæði sem nú er Vestur-Kongó. Maravi-veldi stækkaði og náði yfir bæði Mósambík og Sambíu en leið loks undir lok á 18. öld vegna þess að þrælasala og óeirðir innan stjórnarinnar veiktu veldið.