Viðtengingarháttur

háttur sagna í tungumálum

Viðtengingarháttur (skammstafað sem vth. eða vh.) sem kallast coniunctivus á latínu er sagnháttur sem flokkast undir persónuhátt. Notkun viðtengingarháttar er tekin að minnka í mörgum tungumálum og í sumum tungumálum er hann hartnær horfinn nema í orðtökum.[1] Viðtengingarhátturinn hefur dáið í flestum germönskum málum fyrir utan íslensku og þýsku, sem hafa hvort um sig byrjað að nota viðtengingarháttinn í óbeinni ræðu[2][3] og er horfinn úr ensku fyrir utan einstaka orðmyndir eins og were.[3]

Orðsifjar og upplýsingar um orð

breyta

Orðið viðtengingarháttur er samsett af nafnorðunum viðtenging og háttur þar sem viðtenging er dregið af sögninni að tengja við — og er þetta bein þýðing á latneska heitinu modus conjunctivus þar sem viðtengingarhátturinn er mikið notaður þegar aukasetningar tengjast aðalsetningum:[1][4]

  • Ég kæmi ef ég gæti.
  • Mamma færi í veisluna ef hún treysti sér.

Viðtengingarháttur í íslensku

breyta

Viðtengingarháttur er einn af þremur persónuháttum í íslensku[1] og lætur í ljós ósk, vafa, skoðun, eitthvað skilyrðisbundið eða óraunverulegt.[1] Viðtengingarhátturinn er algengari í aukasetningum en aðalsetningum í íslensku.[1][5] Viðtengingarháttur í íslensku er kominn frá viðtengingarhætti og óskhætti í frumindóevrópsku (FIE).[2]

Viðtengingarháttur nútíðar eða óskháttur er notaður til að lýsa skipun, hvatningu eða ósk:[6][7]

  • Hún vonar að þú njótir sýningarinnar.
  • Við eigum enga mjólk, nema þú farir út í búð.[1]
  • Spyrðu Jökul hvort hundarnir komi líka með.[8]

og viðtengingarháttur þátíðar til að gefa til kynna möguleika, óvissu eða sagður í kurteisisskyni.[6][7] Tiltölulega fáar sagnir er hægt að nota í viðtengingarhætti þátíðar í kurteisisskyni en algengustu sagnirnar sem nota má á þann máta eru vilja, mega, þykja, þurfa, eiga, geta, skulu og munu:[6]

  • Gætirðu sagt mér hvar Hallgrímskirkja er?
  • Mætti ég spyrja herrann að nafni?
  • Það er alkunna að þau eru eigi skólagengin en skyldu þau vera kunnug heimspeki?
  • Þyrftirðu hjálp, ungi piltur?

Viðtengingarháttur er til í persónum, tölum, tíðum og myndum. Sem dæmi má taka sögnina að njóta eftir persónum í nútíð og þátíð:

Viðtengingarháttur sagnarinnar að „njóta“
Nútíð Þátíð
Eintala Fleirtala Eintala Fleirtala
Fyrsta persóna þótt ég njóti þótt við njótum Þótt ég nyti Þótt við nytum
Önnur persóna þótt þú njótir þótt þið njótið þótt þú nytir þótt þið nytuð
Þriðja persóna þótt hann njóti þótt þeir njóti þótt hann nyti þótt þeir nytu

Viðtengingingarhátt má alltaf finna með að setja þótt eða þó að og persónufornafn (ég, þú, hann, þau) fyrir framan sögnina. Viðtengingarháttur og framsöguháttur eru oft eins að forminu til í 1. og 2. persónu fleirtölu í nútíð og allri þátíð veikra sagna sem enda á -aði (við köllum í viðtengingarhætti fyrstu persónu fleirtölu nútíð en er eins í forsetningarhætti fyrstu persónu fleirtölu þátíð). Oft má þekkja hættina í sundur á merkingunni en einnig má setja í stað vafasagnarinnar einhverja sögn sem ekki er eins í báðum háttum, til dæmis sögnina að fara:

Framsögu- og viðtengingarháttur sagnarinnar að „fara“
Framsöguháttur Viðtengingarháttur
Nútíð Þátíð Nútíð Þátíð
Eintala Fleirtala Eintala Fleirtala Eintala Fleirtala Eintala Fleirtala
Fyrsta persóna ég fer við förum ég fór við fórum þótt ég fari þótt við förum þótt ég færi þótt við færum
Önnur persóna þú ferð þið farið þú fórst þið fóruð þótt þú farir þótt þið farið þótt þú færir þótt þið færuð
Þriðja persóna hann fer þeir fara hann fór þeir fóru þótt hann fari þótt þeir fari þótt hann færi þótt þeir færu

Viðtengingarháttur er algengur í aukasetningum og óbeinni ræðu.

Viðtengingarháttur í aðalsetningum

breyta

Merkingarmunur framsöguháttar og viðtengingarháttar kemur skýrast fram í aðalsetningum.[9]

  • Gæti ég fengið meira? (ósk)
  • Það væri gaman ef þið kæmuð með í ferðina. (eitthvað hugsanlegt)
  • Væri ég ekki svona latur, færi ég út í búð. (eitthvað hugsanlegt)
  • Ég held ég gangi heim. (óvissa)
  • Ég gengi heim ef ég væri ekki svona sárfættur. (skilyrði)
  • Ég spurði hvort hann kæmi fljótlega aftur. (skilyrði)

Áhyggjur varðandi viðtengingarháttinn

breyta

Gísli Jónsson íslenskufræðingur, sem skrifaði pistla um íslenskt mál í Morgunblaðinu um árabil, segir í þætti 982:

„Viðtengingarháttur hefur ekki átt sjö dagana sæla í máli margra grannþjóða okkar. Svo er komið, að varla er þar eftir nema tangur eða tetur. Þetta er óbætanlegt tjón fyrir fegurð og fjölbreytileika tungumálsins. Allt, sem er í útlöndum, kemur til okkar, og umsjónarmaður hefur stundum skrifað um þá hættu sem steðjar að viðtengingarhættinum okkar. [..] Hugarleti veldur mörgum málspjöllum, og lathuga menn forðast vanda með því að hafa sem flestar sagnir í framsöguhætti. Tómas Sæmundsson trúði því, að menn töluðu rétt, ef þeir hugsuðu rétt.“

Hann bætir svo við og útskýrir viðtengingarháttinn:

„Viðtengingarháttur er notaður til þess að tákna það sem er óvíst og skilyrðisbundið, ósk eða bæn. Dæmi: Hann vissi ekki hvort hann kæmi. Ég færi, ef ég gæti. Gangi þér vel. Fari hann og veri. Sértu í sæmd og æru. Málið flækist nokkuð af því, að ekki er sama hvort umsögn skilyrðissetningar er í þátíð eða nútíð. Í nútíðinni notum við framsöguhátt. Dæmi: Ég veit ekki hvort hann kemur á morgun. Ég hitti hann, ef hann er heima. Nokkrum hættir við að segja: ef hann ?sé.“
„Svokallaðar viðurkenningarsetningar eru tengdar með þó að og þótt (enda þótt). Í slíkum setningum er umsögnin í viðtengingarhætti, og þess vegna nota margir þá aðferð til að þekkja eða finna háttinn, að búa sér til setningar sem hefjast á viðurkenningartengingum. Dæmi: Þótt ég fari, gerist ekki neitt.“[10]

Hildur Ýr Ísberg hefur rannsakað breytingar viðtengingarháttarins á milli kynslóða sem hluta af B.A.-verkefni við Háskóla Íslands og segir að ungt fólk noti viðtengingarháttinn mun minna en eldri kynslóðir. Unga fólkið noti framsöguhátt nútíðar í stað viðtengingarháttar þátíðar og þá sérstaklega varðandi sterkar óreglulegar sagnir.[11]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Hildur Ýr Ísberg (2011), bls. 1
  2. 2,0 2,1 Hulda Óladóttir (2011), bls. 3
  3. 3,0 3,1 Hulda Óladóttir (2011), bls. 6
  4. Árni Böðvarsson (1985), bls. 2
  5. Kristján Árnason (1980), bls. 50
  6. 6,0 6,1 6,2 „Viðtengingarháttur“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 15. mars 2013. Sótt 15. mars 2013.
  7. 7,0 7,1 Um skipun, boð og bönn eftir Susanne Rudholm
  8. Hildur Ýr Ísberg (2011), bls. 18
  9. Hulda Óladóttir (2011), bls. 8
  10. Gísli Jónsson: Íslenskt mál, þáttur 982
  11. „Viðtengingarháttur að deyja út? Unga fólkið einfaldar beygingar“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. febrúar 2011. Sótt 8. febrúar 2011.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta