Veturnætur eða vetrarnætur eru forn tímamót sem haldin voru hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni. Voru hátíðarhöldin haldin í október til að fagna upphafi vetrar, en í gamla norræna misseristalinu var vetrarmisseri talið á undan sumarmisseri svo mögulega voru þetta einskonar áramót[1]. Nafngiftin er skýrð þannig að í gamla norræna tímatalinu sem byggist á vikum var síðasti dagur sumars á miðvikudegi, þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudegi, en fyrsti vetrardagur á laugardegi. Dagarnir tveir þarna á milli voru kallaðir vetrarnætur eða veturnætur.

Uppruni

breyta

Veturnáttablóta eða boða um veturnætur er oft getið í fornsögum sem eiga að gerast fyrir eða um kristnitöku, svo sem Gísla sögu Súrssonar, Laxdælu, Reykdæla sögu, Njálu og Landnámu. Raunar má segja, að engin árstíðabundin boð eða blót séu nefnd eins oft nema um jólaleytið.

Ekki er vitað hve hefðin er gömul og þótt minnst sé á blót eða boð í ýmsum íslenskum handritum, kemur mjög lítið fram hvernig hátíðin fór fram. Í Egils sögu, Víga-Glúms sögu og fleiri handritum er einnig minnst á dísablót sem haldin voru í Skandinavíu í október og má skilja á samhengi textanna þar að þau hafi verið haldin í námunda við vetrarnætur eða mögulega á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir. Dísir voru kvenkyns vættir, hugsanlega gyðjur eða valkyrjur og vetrarnætur oft kenndar við kvenleika. Talið er mögulegt að kvenvættir eins og Grýla og nornir í evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessari fornu dísatrú.

Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýranna og þeirri gnægð sem þau gáfu á þessum tíma árs, myrkri og kulda komandi vetrar, en einnig nýju upphafi. Samkvæmt gamla norræna misseristalinu er vetrarmisseri sem byrjar á fyrsta degi gormánaðar, fyrsta vetrardag, á undan sumarmisseri, svo talið er mögulegt að litið hafi verið á að árið hafi byrjað með vetrinum en ekki sumrinu eins og fram kemur hér að ofan og kann það að skýra hve dagurinn var vinsæll sem brúðkaupsdagur, enda markar brúðkaup nýtt upphaf. Þó er ekki vitað hvar norræna misseristalið setti niður áramót þótt þessi tími sé einn af þeim sem talinn er líklegur.

Hvernig hátíðin fór fram

breyta

Minnst er á ýmis veisluhöld í Íslendingasögum en þeim ber ekki saman um hvers konar hátíð þetta hafi verið né hvort aðeins voru haldnar ýmiskonar veislur á þessum tíma til að heiðra komu vetrar. Á þessum árstíma var til nóg af mat eftir sláturtíð svo tilefnið var til staðar. Til dæmis er nefnt að Snorri goði, Ólafur pá, og Ósvífur, Gísli Súrsson, Þorgrímur mágur hanns, Ólafur á Haukagili, Gunnar og Njáll héldu allir haustboð á vetranóttum. En hinsvegar héldu Breiðvíkingar knattleiki. Oft er minnst á brúkaup á vetrarnóttum svo sá dagur virðist hafa verið vinsæll sem slíkur og gæti það verið tengingin við konur líkt og á dísablótum. Heimildir geta þess að kristnum mönnum hafi ekki líkað við þessa hátíð og sem dæmi stendur í Gísla sögu:

Það var þá margra manna siður að fagna vetri í þann tíma og hafa þá veislur og vetrarnáttarblót, en Gísli lét af blótum síðan hann var í Vébjörgum í Danmörku, en hann hélt þó sem áður veislum og allri stórmennsku. Og nú aflar hann til veislu mikillar. Og líður nú sumarið og kemur að veturnóttum.“

Gísla saga Súrssonar - 10. kafli [1].

Því virðist þessi siður ekki eingöngu hafa tengst heiðnum trúarbrögðum þar sem kristnir virðast hafa líka haldið hátíð þessa daga þótt ekki væri um blót að ræða.

Ekkert er minnst á veturnætur sem hátíð í heimildum á 12., 13., né 14., öld en sá siður að halda brúðkaup á þessum tíma virðist þó halda sér. Eins virðist nafnið hafa haldist um þessa ákveðnu daga því stundum er vísað til þess að eitthvað hafi verið gert eða átt sér stað um veturnætur þótt það hafi ekki tengst neinum veisluhöldum.

Arfleið vetrarnátta

breyta

Eftir að Norðurlönd tóku kristni yfirtók Allraheilagramessa sem var frá 8. öld haldin 1. nóvember hlutverk þessarar hausthátíðar. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum, eins og öðrum heiðnum hausthátíðum á borð við keltnesku hátíðina Samhain. Einna helst er þó talið mögulegt að tímasetning þeirra hafi haft áhrif á keltnesku hátíðirnar sökum þess hve norrænir menn réðu lengi yfir Bretlandseyjum[2].

Veturnáttablót í dag

breyta

Hátíðin virðist hafa lagst af fljótlega eftir kristni. En þennan sið að halda veturnæturhátíð tók Íslenska Ásatrúarfélagið upp seint á 20. öld og heldur Veturnáttablót fyrsta vetrardag.[3]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Hverjar eru hefðir og saga hrekkjavöku?
  2. „Spår av forntidens kalender“. Populär Historia. Sótt 3. janúar 2015.
  3. „Blót“. Ásatrúarfélagið. Sótt 3. janúar 2015.

Heimildir

breyta
  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.

Tenglar

breyta