Ásatrúarfélagið

Ásatrúarfélagið er íslenskt trúfélag. Félagið var stofnað sumardaginn fyrsta árið 1972 og viðurkennt af stjórnvöldum sem trúfélag árið eftir. Það varð þar með fyrsta félagið um Ásatrú sem fékk formlega viðurkenningu sem trúfélag. Það byggir á eins konar endurvakningu á norrænni goðafræði, oft kölluð Ásatrú. Rétt er þó að taka fram að nafnið Ásatrú er ekki mjög lýsandi, þar sem „Ásatrú“ inniheldur ekki einungis trú á Æsi, heldur líka önnur goðmögn svo sem Vani. Þess vegna er Ásatrú stundum nefnd „Vor siður“ eða einfaldlega heiðni. Félagsmenn í Ásatrúarfélaginu voru 6.136 1. október 2024, eða um 1,5% þjóðarinnar. [1]

Sigurblót í Öskjuhlíð á sumardaginn fyrsta 2009

Skipulag

breyta

Æðsti yfirmaður félagsins í trúmálum nefnist Allsherjargoði. Fyrsti Allsherjargoðinn var Sveinbjörn Beinteinsson en hann var Allsherjargoði frá stofnun félagsins til hann lést 24. desember 1993. Núverandi Allsherjargoði er Hilmar Örn Hilmarsson. Sex aðrir goðar eru til staðar, en þeir eru eins konar trúarlegir leiðtogar. Æðsta stjórn félagsins nefnist Allsherjarþing en á því mega sitja allir sjálfráða félagsmenn. Allsherjarþing er haldið síðasta laugardag hvers októbermánaðar. Lögrétta samanstendur af fimm fulltrúum kosnum af Allsherjarþinginu, Allsherjargoða og einum öðrum goða sem goðarnir velja úr sínum hópi. Lögrétta fer með stjórn félagsins á milli Allsherjarþinga.

Allsherjargoðar

breyta
Allsherjargoði Hóf störf Hætti
Sveinbjörn Beinteinsson 1972 1993
Jörmundur Ingi Hansen 1994 2002
Jónína Kristín Berg 2002 2003
Hilmar Örn Hilmarsson 2003

Blót og önnur trúmál

breyta

Ásatrú byggir að miklu leyti á fornri norrænni goðafræði og styðst því við rit svo sem Eddukvæði og Snorra-Eddu. Einn kjarnanna í trú Ásatrúarmanna er hringrás sköpunar og eyðingar, að heimurinn hafi aldrei orðið til úr engu og muni aldrei verða að engu, heldur haldi hann áfram að verða til og eyðast. Ásatrúarfélagið heldur fjögur höfuðblót yfir árið. Þau eru: Á fyrsta vetrardegi (upphaf nýs árs að fornu), á jólum (við sólhvörf), sumardaginn fyrsta og á fimmtudegi í tíundu viku sumars. Auk þess er haldið árlegt þorrablót á bóndadegi og vættablót í hverjum landsfjórðungi á fullveldisdegi Íslendinga.

Hof Ásatrúarfélagsins

breyta

Félagið fékk úthlutað lóð í sunnanverðri Öskjuhlíð árið 2008 og hugðist byggja þar hof. Framkvæmdinni hefur margsinnis verið frestað og hefur staðið yfir frá 2015.

Fjölgun félaga

breyta

Hér er tafla um fjölgun félaga í prósentum í félaginu frá árinu 2002.

 
Fjöldi félaga frá upphafi og að árinu 2010
Ártal Meðlimir Fjölgun
2002 570 11%
2004 787 24%
2006 960 9%
2008 1154 11%
2010 1402 10%
2012 1951 15%
2014 2382 11%
2016 3187 19%
2018 4186 17%
2020 5031 12%
2023 5774

Heimildir

breyta
  • „Ásatrúarfélagið“. Sótt 8. desember 2005.

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Skráning í trú og lífsskoðunarfélög fram til 1. okt 2024 Þjóðskrá, sótt 3. nóv 2024