Vespurnarforngrísku: Σφήκες (Sfēkes); á latínu: Vespae) er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Það vann til annarra verðlauna á Lenajuhátíðinni árið 422 f.Kr. Í grunninn er leikritið ádeila á réttarkerfi Aþeninga og á lýðskrumarann Kleon sem var áhrifamikill stjórnmálamaður í Aþenu á ritunartíma leikritsins. Kleon þessi var æsingamaður sem sótti fylgi með því að ala á ótta, beita ofbeldi og mútum og notfærði sér svo valdastöðu sína til eiginhagsmuna. Auk þess sýnir Aristófanes hversu gallað réttarkerfið í Aþenu var á þessum tíma. Lítið var greitt fyrir að taka þátt í kviðdómi svo það kom oftar en ekki fyrir að þeir sem gegndu störfum kviðdómenda voru einsleitur hópur roskinna manna sem hættir voru að vinna og er kór leikritsins hópur slíkra manna. Sakborningar fengu því ósanngjörn málagjöld því fjölbreytileiki kviðdómara var enginn, heldur stóð dómarahópurinn af refsiglöðum gamlingjum og lá galli kerfisins fyrst og fremst í því, að mati Aristófanesar.

Söguþráður

breyta

Leikritið Vespurnar hefst fyrir framan hús í Aþenu. Búið er að breiða stórt net yfir húsið og fyrir framan það sofa þrælarnir Sosias og Xanthias. Húsbóndi þeirra sefur svo uppi á útvegg með yfirsýn yfir húsagarðinn. Þrælarnir vakna og eiga spaugilegt samtal. Samræður þeirra leiða áhorfendur inn í sögu leikritsins. Sosias og Xanthias eru á næturvakt sem felst í að hafa eftirlit með skrímsli einu. Skrímslið er í raun roskinn faðir húsbónda þeirra. Þrælarnir segja að faðirinn sé haldinn sjaldgæfum og furðulegum sjúkdómi. Þeir biðja áhorfendur að giska á hver sjúkdómurinn sé. Ekki er það spilafíkn, ofdrykkja né aðrar kunnuglegar fíknir heldur er hann haldinn réttarhaldafíkn. Nafn föðurins er Procleon, sem merkir stuðningsmaður Kleons, en sonurinn heitir Contracleon, sem merkir andvígsmaður Kleons. Nöfn þeirra endurspegla ólíka afstöðu feðganna til stjórnmálamannsins Kleons. Þrælarnir segja svo að Contracleon hafi gripið til þess ráðs að læsa föður sinn inni í húsinu svo hann kæmist ekki til réttarhalda, þar sem engin önnur meðferð við fíkninni virkaði. Procleon dæmir alla sakborninga til þyngstu refsingar en þrælarnir segja hann alltaf koma heim með þykkt lag af krítardufti undir nöglunum sem vísar til dómhörku hans. Ástæðan fyrir því er spádómur sem Procleon fékk í Delfí en spádómurinn sagði að ef Procleon kysi einhvern tímann sakborning saklausan myndi dómaraferli hans ljúka. Contracleon vaknar og skipar þrælunum að vera á verði og passa sérstaklega ræsin þar sem faðir hans getur farið um sem mús og sloppið í gegnum þau. Procleon gabbar son sinn og þrælana og reynir að sleppa í gegnum skorsteininn dulbúinn sem reykur en Contracleon nær að hindra föður sinn. Eftir nokkrar fleiri misheppnaðar atrennur til flótta róast hamagangurinn í húsinu og kórinn birtist á sviðinu. Kórinn er safn gamalla kviðdómara í fylgd drengja sem lýsa þeim veginn, og þeir eru að sækja Procleon til að fara með hann til réttarhalda. Kórinn kemst að því að Procleon er lokaður inni og úr verður mikið rifrildi á milli þeirra og Contracleons þar sem gömlu dómararnir taka upp hanskann fyrir Procleon. Eftir þó nokkurt orðaskak er ákveðið að málið skuli útkljáð með rökræðukeppni á milli feðganna.

Kappræðurnar snúast um það hversu mikinn hag Procleon hafi í raun af réttarkerfinu. Hann lýsir ánægju sinni af allri athygli sem hann fær frá ríkum og valdamiklum mönnum sem biðja hann að dæma sér í vil. Auk þess segir Procleon að peningurinn sem hann fái fyrir störf sín veiti honum frelsi og aukið sjálfstæði. Sonur hans svarar honum og segir að kviðdómarar séu ekkert annað en undirlægjur embættismanna sem stýra þeim og dómum þeirra.  Contracleoni finnst laun kviðdómara mun lægri en þau ættu að vera og bendir á að nær allar tekjur ríkisins renna beint í vasa embættismanna líkt og Kleons. Með þessum rökum nær Contracleon að vinna kórinn á sitt band. Procleon er þó ekki tilbúinn til að gefa eftir og leggja dómarastörfin á hilluna svo Contracleon býðst til að gera húsið að vettvangi réttarhalda og greiða honum laun fyrir að dæma í máli innan veggja heimilisins. Procleon samþykkir það og leggur þá Contracleon mál tveggja hunda  fyrir föður sinn. Annar hundurinn ásakar hinn hundinn um að deila ekki með sér stolnum osti. Þau vitni sem til eru kölluð til varnar eru skál og pottur ásamt öðrum eldhúsáhöldum. Þar sem vitnin eru, eðli málsins samkvæmt, óhæf um að tjá sig segir Contracleon nokkur orð fyrir vitnin þeim ákærða í vil. Eftir það koma nokkrir hvolpar, börn þess ákærða, vælandi inn í „réttarsalinn“ til að lina afstöðu hins kalda kviðdómara Procleons. Þetta bragð Contracleons nær ekki að mýkja föður hans en hann nær þó með brögðum að láta hann setja steinvöluna í krukkuna sem stendur fyrir sakleysi sakborningsins en Xanthias færir til krukkurnar sem leiðir til sektar og sakleysis. Procleoni bregður við niðurstöðunum þar sem hann er vanur að dæma alla sakborninga seka. Þetta atvik markar því endalok Procleons sem dómara. Contracleon hughreystir föður sinn, segir hann loksins geta lifað lífinu, og að nú muni hann geta farið með föður sinn í fín samkvæmi og þeir fara af sviðinu.

Eftir af feðgarnir fara af sviðinu stígur kórinn fram og ávarpar áhorfendur í svokölluðum parabasis. Í þessum hluta stöðvast atburðarás leikritsins og kórinn fer úr hlutverki sínu sem gamlir kviðdómarar og tala fyrir hönd leikskáldsins. Kórinn byrjar á því að lofsama Aristófanes fyrir að standa upp í hárinu á ofríkismönnum á borð við Kleon. Auk þess skammar kórinn áhorfendur fyrir að kunna ekki gott að meta en leikritið Skýin eftir Aristófanes fékk slæmar móttökur þegar það var sýnt árið áður (423 f. Kr.). Í því hafi Aristófanes reynt að sá nýjum hugmyndum sem kórinn segir að áhorfendur hafi hreinlega ekki skilið.

Eftir parabasis-kaflann koma feðgarnir aftur á sviðið. Nú þrátta þeir yfir klæðnaði Procleons en Contracleon finnst gamla skikkja föður síns og skór ekki nægilega fágaður klæðnaður en feðgarnir eru á leið í fínt samkvæmi um kvöldið. Contracleon snurfusar föður sinn, neyðir hann í fínni föt og kennir honum fágaða mannasiði svo hann muni ekki verða sjálfum sér og syni sínum að athlægi í veislunni. Procleon segir svo að víndrykkja sé bara uppspretta vandamála en sonur hans fullvissar hann um að fágaðir og veraldarvanir menn geta auðveldlega talað sig frá öllum vandamálum og feðgarnir leggja bjartsýnir af stað í samkvæmið og þeir fara af sviðinu. Nú tekur við annar parabasis-kafli þar sem kórinn talar í stuttu máli um ágreining á milli Kleons og Aristófanesar. Eftir það kemur Xanthias á sviðið og greinir áhorfendum frá dónalegri framkomu Procleons í samkvæminu. Hann hafi drukkið sig blindfullan og móðgað alla fínu vini hans Contracleons og nú væri hann á heimleið. Xanthias fer svo af sviðinu þar sem hann sér Procleon koma á sviðið, búinn að ræna fallegri flautustúlku úr samkvæminu. Sonur hans kemur á sviðið skömmu síðar og skammar föður sinn fyrir að hafa rænt stelpunni. Procleon þykist ekki hafa rænt neinni stelpu heldur hafi hann tekið með sér kyndil úr veislunni. Contracleon lætur ekki blekkjast og reynir að taka stelpuna frá föður sínum en Procleon slær son sinn niður. Á sviðið koma nú fórnarlömb Procleons úr samkvæminu og hóta að kæra hann fyrir hegðunina. Procleon reynir þá að tala sig frá vandamálinu líkt og fágaðir og veraldarvanir menn gera. Með því gerir hann bara illt verra og dregur Contracleon föðir sinn inn í húsið. Leikritið endar svo á því að Procleon skorar á þrjá drengi í danskeppni á meðan kórinn fer með loka söng leikritsins. Kórinn tilkynnir að leikritið sé búið og dansar af sviðinu.

Persónur

breyta
  • Sosias: Þræll Contracleons
  • Xanthias: Þræll Contracleons
  • Contracleon: Ungur og auðugur Aþenubúi
  • Procleon: Gamall faðir Contracleons
  • Vespu-kór: Hópur tuttugu og fjögra gamalla kviðdómara
  • Strákur: Fátækur sonur leiðtoga kórsins
  • Kuon: Hundur á heimili Contracleons sem líkist Kleoni
  • Myrtia: Bakarakona
  • Maður: Aþenubúi sem varð fyrir árás frá Procleoni

Þöglar persónur:

  • Strákar: Þrír fátækir strákar sem fylgja kórnum
  • Midas: Þræll Contracleons
  • Phryx: Þræll Contracleons
  • Masyntias: Þræll Contracleons
  • Labes: Hundur á heimili Contracleons
  • Dardanis: Flautustúlka
  • Chaerephon: Þekktur heimspekingur
  • Vitni: Vitni mannsins sem varð fyrir barðinu á Procleoni
  • Dansarar: Þrír synir Carcinusar
  • Carcinus: Aþenskur skipstjóri
  Varðveitt verk Aristófanesar