Veröld – hús Vigdísar
Veröld – hús Vigdísar er ein af byggingum Háskóla Íslands. Húsið stendur við Brynjólfsgötu 1 í Reykjavík og hýsir kennslustofur, skrifstofur kennara í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Vigdísarstofnun sem er alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar og er starfrækt með samkomulagi íslenskra stjórnvalda og UNESCO Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna.[1]
Húsið er kennt við Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá Sameinuðu þjóðunum en Vigdís var einn helsti hvatamaður að byggingu hússins ásamt Auði Hauksdóttur prófessor í dönsku við Háskóla Íslands og forstöðumanni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.
Í upphafi árs 2012 var efnt til samkeppni um hönnun hússins og varð tillaga arkitektastofunnar Arkitektur.is hlutskörpust.[2] Vigdís Finnbogadóttir, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir þáverandi rektor Háskóla Íslands tóku fyrstu skóflustunguna að byggingunni á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars 2015 og í kjölfarið hófust byggingaframkvæmdir.[3] Framkvæmdum miðaði vel og lögðu Vigdís Finnbogadóttir og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands hornstein að byggingunni þann 19. júní 2016[4] en byggingin var formlega tekin í notkun á sumardaginn fyrsta árið 2017. Heiti hússins, „Veröld – hús Vigdísar“, var valið í kjölfar nafnasamkeppni sem efnt var til í aðdraganda vígslu hússins.[5]
Í nóvember árið 2018 voru arkitektar hússins tilnefndir til Evrópsku byggingarlistaverðlaunanna 2019 - EU Mies Award 2019, fyrir hönnun sína á Veröld. Í hönnunarteymi hússins voru arkitektarnir Kristján Garðarsson, Haraldur Örn Jónsson, Gunnlaugur Magnússon og Hjörtur Hannesson.[6] Fyrir utan húsið er bílastæði merkt Vigdísi Finnbogadóttur.
Tilvísanir
breyta- ↑ Hi.is, Veröld – hús Vigdísar (skoðað 7. maí 2019)
- ↑ Mbl.is, „Arkitektúr.is átti vinningstillöguna“, 16. maí 2012, (skoðað 7. maí 2019)
- ↑ Mbl.is, „Fyrsta skóflustunga að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur“, 6. mars 2015, (skoðað 7. maí 2019)
- ↑ Dv.is, „Hornsteinn lagður að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur“, 19. júní 2015, (skoðað 7. maí 2019)
- ↑ Mbl.is, „Byggingin nefnd Veröld – hús Vigdísar“, 18. apríl 2017, (skoðað 7. maí 2019)
- ↑ Hi.is, „Veröld – hús Vigdísar tilnefnt til Evrópsku byggingarlistaverðlaunanna 2019“, 7. nóvember 2018, (skoðað 7. maí 2019)