Varmaland er þéttbýli sem byggst hefur í kring jarðhitasvæði í Stafholtstungum í Borgarbyggð. Byggðin er staðsett í tungunni milli Hvítár og Norðurár og búa þar um 20 manns að staðaldri. Á Varmalandi er starfræktur leik- og grunnskóli fyrir aðliggjandi sveitir og 1946 var stofnsettur þar Húsmæðraskóli Borgfirðinga. Húsmæðraskólinn á Varmalandi var rekinn af heimamönnum til 1978 þegar ríkið tók við rekstri skólans, sem varð við það Hússtjórnarskólinn á Varmalandi. Ýmiss tengd starfsemi hefur verið í skólahúsnæðinu á sumrum, svo sem veitinga- og gistihús og hvíldar- og hressingarheimili. Heimavist og skóli fyrir nærliggjandi byggðir á Mýrum tók til starfa á Varmalandi 1954.

Varmaland

Um aldamótin 1900 var byggt lítið býli, Laugaland skammt þar frá sem nú er Varmaland. Þar var síðan hlaðin upp sundlaug er naut nálægðar við jarðhita frá náttúrulegum hverum sem þar er að finna. Veggjalaug heitir stærsti hverinn sem þar er nýttur og þar rétt hjá er Minni-hver sem einnig er nýttur sem orkugjafi til margvíslegra þarfa á Varmalandi. Þriðji hverinn heitir Kvennaskólahver og er vatn hveranna, auk þess að vera notað til upphitunnar á húsakosti og sundlaug Varmalands einnig notað til umfangsmikillar ylræktunnar í þeim fjölmörgu gróðurhúsum sem þar eru starfrækt.

Heimildir

breyta
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, U-Ö. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Borgarfjörður og Mýrar. Mál og menning. ISBN 9979-3-0657-2.
   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.