Vanda Sigurgeirsdóttir

Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir (f. 28. júní 1965) er lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður Knattspyrnusambands Íslands. Vanda er landskunn íþróttakona og lék bæði með landsliðinu í fótbolta og körfubolta. Hún er eina konan á Íslandi sem hefur þjálfað meistaraflokk karla í fótbolta, er fyrsta konan sem þjálfaði kvennalandsliðið í fótbolta og er nú formaður KSÍ fyrst kvenna.

Fjölskylda

breyta

Vanda ólst upp á Sauðárkróki og foreldrar hennar eru Sigurgeir Angantýrsson (1939-2012) verkstjóri hjá Sauðárkrókskaupstað og Dóra Þorsteinsdóttir (1946-2009) starfsmaður við Bókasafnið á Sauðárkróki.[1] Eiginmaður Vöndu er Jakob Frímann Þorsteinsson (f.1969) og eiga þau þrjú börn.

Menntun og störf

breyta

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, námi í tómstundafræði við Lýðháskólann í Gautaborg í Svíþjóð árið 1989, meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun frá Háskóla Íslands árið 2003[2] og stundar nú doktorsnám þar sem viðfangsefnið er einelti.[3] Hún starfaði um árabil í félagsmiðstöðinni Ársel í Árbæ, fyrst frá 1986-1987, og sem aðstoðarforstöðumaður frá 1989-1993 og forstöðumaður frá 1993-1997.[1] Hún hefur verið lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands frá árinu 2008. Frá 1998-2002 gegndi Vanda stöðu varaborgarfulltrúa fyrir hönd Reykjavíkurlistans.

Knattspyrnuferill

breyta

Vanda hóf knattspyrnuferil sinn með strákaliði Tindastóls á Sauðárkróki er hún var 9 ára gömul.[4] Hún fluttist til Akureyrar og settist á skólabekk í menntaskóla og lék þá í fyrsta sinn með kvennaliði er hún gekk til liðs við KA.[5] Hún lék einnig síðar með ÍA og Breiðablik. Síðasti leikur hennar í úrvalsdeild var með Tindastóli árið 2008 og stóð hún þá í marki í fyrsta sinn á ferlinum, þá 43 ára gömul, en hún var kölluð inn í liðið með klukkustundarfyrirvara vegna meiðsla markmanns liðsins.[6]

Á árunum 1985-1996 spilaði Vanda 37 leiki með kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu og var lengst af fyrirliði landsliðsins. Hún var spilandi þjálfari Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks frá 1994-1996, var landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins frá 1997-1999 fyrst kvenna,[7] þjálfari KR frá 1999-2003, þjálfari hjá Tindastóli frá 2005-2007[8] og hjá Þrótti frá 2012-2013.[9]

Árið 2001 varð Vanda fyrsta konan á Íslandi til að vera ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu er hún var ráðin þjálfari þriðju deildarliðs Neista frá Hofsósi.[10]

Körfuboltaferill

breyta

Um árabil lék Vanda körfubolta með Íþróttafélagi stúdenta og var í lykilhlutverki er liðið varð Íslands- og bikarmeistari árið 1991 og lék níu körfuboltalandsleiki á árunum 1989-1991.[11]

Viðurkenningar

breyta

Vanda var valin leikmaður ársins í úrvalsdeildinni í knattspyrnu árið 1990. Árið 2019 hlaut hún hvatningarverðlaun Dags eineltis fyrir framlag til rannsókna og forvarna gegn einelti auk úrlausna í einstökum eineltismálum.[12] Vanda var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2021 fyrir störf að kvennaknattspyrnu, jafnréttismálum og fyrir baráttu gegn einelti.[3]

Formaður KSÍ

breyta

Í október árið 2021 var Vanda kjörin formaður Knattspyrnusambands Íslands. Vanda tók við starfinu í kjölfar mikilla hneykslismála innan sambandsins en Guðni Bergsson fráfarandi formaður og stjórn sambandsins höfðu sagt af sér í kjölfar harðrar gagnrýni fyrir að hafa þagað um og hylmt yfir ofbeldisbrotum leikmanna karlalandsliðsins í knattspyrnu. Vanda er fyrsta konan sem gegnir formennsku KSÍ og jafnframt fyrsta konan sem tekur við formennsku í aðildarsambandi UEFA.[13]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Vanda Sigurgeirsdóttir“, Dagblaðið-Vísir, 8. september 1999 (skoðað 5. október 2021)
  2. Hi.is, „Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir“ (skoðað 5. október 2021)
  3. 3,0 3,1 Kvan.is, „Vanda Sigurgeirsdóttir“ (skoðað 5. október 2021)
  4. Ruv.is, „Kvennalandsleikir voru ekki auglýstir“ (skoðað 5. október 2021)
  5. „Liðið harðsnúið“ Morgunblaðið, 16. október 1994 (skoðað 5. október 2021)
  6. Fotbolti.net, „Vanda Sigurgeirsdóttir enn að spila - lék í marki Tindastóls“ (skoðað 5. október 2021)
  7. Visir.is, „Ekki bara þeirra draumur heldur okkar allra“ (skoðað 5. október 2021)
  8. Feykir.is, „Vanda sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu“ (skoðað 5. október 2021)
  9. Mbl.is, „Vanda ráðin þjálfari Þróttar“ (skoðað 5. október 2021)
  10. „Vanda þjálfar karlalið Neista“, Morgunblaðið, 20. mars 2001 (skoðað 5. október 2021)
  11. Kki.is, „Leikmenn, leikir og stigaskor íslenska kvennalandsliðsins“ (skoðað 5. október 2021)
  12. Skessuhorn.is, „Vanda Sigurgeirsdóttir hlaut viðurkenningu á degi gegn einelti“ (skoðað 5. október 2021)
  13. Frettabladid.is, „Vanda nýr formaður KSÍ“ (skoðað 5. október 2021)