Uppkastið voru drög að sambandslögunum sem voru gerð á tímum heimastjórnarinnar á Íslandi, með blessun Friðriks VIII Danakonungs.

Björn Jónsson heldur ræðu í porti Barnaskólans vegna Sambandsmálsins 2. júní 1908. Mannfjöldi fylgist með.
Portrettmynd af Friðriki 8. tekin 1909.

Íslendingar höfðu fengið ráðherra Íslands árið 1904 en áfram var krafist frekara sjálfstæðis. Þegar Friðrik VIII kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1907 skipaði hann forsætisráðherra Dana og Hannes Hafstein, ráðherra Íslands, ásamt fulltrúum þingflokkanna í sérstaka samningsnefnd til samninga um ný lög um samband Íslands og Danmerkur, sem leysa átti af hólmi stöðulögin frá 1871. Komist var að málamiðlun og féllst nefndin að Skúla Thoroddsen undanþegnum á samninginn þar sem Danir og Íslendingar hefðu sömu réttindi í hvoru landinu en Danir hefðu áfram umsjón með utanríkis- og hermálum Íslands og Danakonungur væri áfram konungur Íslendinga. Samningurinn átti að vera óuppsegjanlegur.

Þingkosningarnar 1908 snerust að mestu leyti um Uppkastið og urðu úrslit kosninganna þannig að andstæðingar Uppkastsins undir forystu Björns Jónssonar í Sjálfstæðisflokknum gamla, ritstjóra Ísafoldar, sigruðu. Þegar nýtt þing var sett var samþykkt vantrauststillaga gegn Hannesi Hafstein og tók Björn við af honum sem ráðherra Íslands. Björn sat sem ráðherra til 1911 þegar hann varð sjálfur að víkja vegna Bankafargansins svonefnda.

Hannes Hafstein gerði aftur atlögu við að fá Uppkastið samþykkt á þingi, og var nú nefnt Bræðingurinn. Hann stofnaði Sambandsflokkinn árið 1911 og hélt til Kaupmannahafnar til skrafs og ráðagerðar við danska embættismenn. Hann snéri þaðan með óformlegt tilboð („grútinn“) sem hann hætti við að bera upp á þingi 1913.[1]sambandslög tóku gildi 1918 og þar með hlaut Ísland fullveldi.

Tilvísanir breyta

  1. „Heimastjórn.is - Átakamál“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. júní 2006. Sótt 23. nóvember 2008.

Tenglar breyta

 
Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist