Tilvistarstefna er heimspekistefna, sem á rætur að rekja til 19. aldar í verkum Sørens Kierkegaard og Friedrichs Nietzsche, en var einkum mótuð af af þýskum og frönskum heimspekingum upp úr 1920 og fram yfir miðja 20. öldina. Kunnastir munu Martin Heidegger, Karl Jaspers, Gabriel Marcel, Albert Camus, Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre. Verk rithöfundanna Fjodor Dostojevskíj og Franz Kafka eru talin bera vott um tilvistarstefnu og hafa haft áhrif á hugsuði sem á eftir komu. Hún hefur, einkum í meðförum þess síðast nefnda, haft töluverð áhrif innan bókmennta, bæði vegna þess að viðfang hennar — tilvistarvanda einstaklingsins — varðar þær mjög og sökum þess að franskir tilvistarspekingar settu skoðanir sínar oft fram í bókmenntaverkum.

Sören Kierkegaard (1813-1855) er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar.

Kierkegaard, sem var danskur heimspekingur og er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar, hélt því fram að sannleikur væri huglægur, í þeim skilningi að það sem er mikilvægast lifandi veru eru spurningar er varða innri tengsl hennar við tilvistina. Hlutlægur sannleikur (t.d. í stærðfræði) er mikilvægur en ótengd hugsun eða athugun getur aldrei fyllilega hent reiður á mannlegri tilvist. Nietzsche hélt því fram að mannleg tilvist væri „viljinn til valda“, þrá eftir fullkomnun eða mikilleika. Framúrskarandi einstaklingar finna upp eigin gildi og skapa þær kringumstæður þar sem þeir skara fram úr. Hugmyndir Kierkegaards um riddara trúarinnar og Nietzsches um ofurmennið eru dæmi um þá sem skilgreina eðli eigin tilvistar.

Á grundvelli þessara hugmynda hafnar tilvistarspekin hugmyndinni um mannlegt eðli en reynir þess í stað að laða fram getu hvers og eins til að lifa raunverulega, eða með öðrum orðum er hver manneskja fær um að skilgreina og ákvarða eigið líf.

Frekari fróðleikur

breyta
  • Solomon, Robert C. (ritstj.), Existentialism, 2. útg. (Oxford University Press, 2005). ISBN 0-19-517463-1.

Tenglar

breyta
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Existentialism
  • „Hvað er tilvistarstefna?“. Vísindavefurinn.
  • „Hver er meginmunurinn á hugtökunum verund og engu?“. Vísindavefurinn.