The Squad
The Squad, eða Sveitin, er gælunafn yfir fjórar hörundsdökkar þingkonur, sem allar náðu kjöri í fyrsta sinn til fulltrúardeildar Bandaríkjaþings árið 2018: Alexandria Ocasio-Cortez, Ilhan Omar, Ayanna Pressley og Rashida Tlaib. Þær vöktu athygli fyrir róttæka vinstripólitík og ungan aldur, þær eru allar undir fimmtugu og sumarið 2019 var meðalaldur þeirra 38,3 ár, sem er tæpum 20 árum undir meðalaldri fulltrúadeildarþingmanna.[1] Ocasio-Cortez, Omar, Pressley og Tlaib urðu fljótt opinber andlit nýs og róttækari vinstri arms Demókrataflokksins, og hafa meðal annars allar stutt Green New Deal, um nýjan samfélagssáttmála um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og misskiptingu auðs.[2] Þingkonurnar fjórar náðu allar endurkjöri í kosningunum 2020.
Bakgrunnur og saga
breytaAlexandria Ocasio-Cortez (f. 13 okt. 1989) situr á þingi fyrir 14 kjördæmi New York-ríkis, sem inniheldur stóran hluta Bronx og Queens. Hún er fædd í New York en foreldrar hennar eiga ættir að rekja til Púertó Ríkó. Ilhan Omar situr á þingi fyrir 5. kjördæmi Minnesota-ríkis, sem inniheldur Minneapolis. Hún er fædd í Mogadishu í Sómalíu en flutti 13 ára gömul til Bandaríkjanna. Ayanna Pressley situr á þingi fyrir Massachusetts-ríki sem inniheldur stóran hluta Boston. Hún er svartur Bandaríkjamaður, fædd í Cincinnati. Rashida Tlaib situr á þingi fyrir 13 kjördæmi Michigan-ríkis, sem inniheldur stóran hluta Detroit. Hún er dóttir innflytjenda frá Palestínu, en fædd og uppalin í Detroit.
Meðlimir The Squad endurspegla fjölbreytileika yngri kynslóða í bandarísku nútímasamfélagi, en þrjár þeirra eru innflytjendur eða börn fyrstu kynslóðar innflytjenda. Kosning þeirra markaði að mörgu leyti kaflaskil í bandarískum stjórnmálum. Alexandria Ocasio-Cortez er t.d. yngsta konan sem kjörin hefur verið á þing í Bandaríkjunum og bæði Ilhan Omar og Rashida Tlaib eru múslimar, fyrstar kvenna þeirrar trúar á Bandaríkjaþingi. Þá hefur Ilhan vakið athygli fyrir að klæðast slæðu, hijab, dags daglega.[3]
Nafnið Sveitin er komið frá Alexandriu Ociaso-Cortez, sem notaði það í Instagram-færslu viku eftir kosningarnar 2018. Tilefnið var ljósmynd sem var tekin af konunum fjórum stuttu eftir að þær náðu kjöri.[4] Hugtakið „squad“ er sótt í menningarheim hip-hop tónlistar á austurströnd Bandaríkjanna, en hipphoppið er jafnan talið eiga uppruna sinn að rekja til Bronx hverfisins, þar sem Ocasio-Cortez ólst upp. „Squad“ vísar til vinahópsins sem maður velur sér og samstöðunnar innan hans. Þingkonurnar fjórar tileinkuðu sér nafnið í baráttu sinni gegn Trump.[1]
Ummæli Trump um The Squad
breytaÞað vakti mikla athygli þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti sumarið 2019 að þingkonurnar fjórar ættu að „hunskast aftur á heimaslóðir, í glæparottuholurnar þaðan sem þær væru upprunnar, og ekki vera að skipta sér af bandarískum innanríkismálum.”[5] Í kjölfarið samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings með 240 atkvæðum gegn 187 að fordæma tíst Trumps, þar sem „rasísk ummæli" forsetans „hafi réttlætt ótta og hatur gegn aðfluttum Bandaríkjamönnum og lituðu fólki.“[6]
Donald Trump hefur látið ýmis önnur umdeild orð falla í Hvíta húsinu um fólk frá Afríku og Mið-Ameríku. Til dæmis árið 2018 að hann hefði engan áhuga á innflytjendum frá „skítabælum“ í Afríku. Einnig hélt Trump því lengi fram að Barack Obama, forveri hans í embætti, væri í raun og veru alls ekki fæddur í Bandaríkjunum heldur í Keníu og því ekki kjörgengur sem forseti.[7][8][9]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Arit John (18. júlí 2019). „A Brief History of Squads“. New York Times. Sótt 21. nóvember 2020.
- ↑ Magnús Helgason (25. maí 2019). „Endurkoma sósíalískra stjórnmála í Bandaríkjunum“. Stundin. Sótt 23. nóvember 2020.
- ↑ Steindór Grétar Jónsson (7. nóvember 2018). „Demókratar ná stjórn á fulltrúadeildinni“. Stundin. Sótt 21. nóvember 2020.
- ↑ „Ocasio-Cortez shares photo of new 'squad' on Capitol Hill“. The Hill. 13. nóvember 2018. Sótt 21. nóvember 2020.
- ↑ Vésteinn Örn Pétursson (14. júlí 2019). „Trump segir bandarískum þingkonum að fara aftur „til síns heima"“. Vísir. Sótt 21. nóvember 2020.
- ↑ Þorvarður Pálsson (17. júlí 2019). „Þingið fordæmdi tíst Trumps“. RÚV. Sótt 21. nóvember 2020.
- ↑ Lilja Katrín Gunnarsdóttir (20. júlí 2019). „Trump hefur alltaf verið rasisti: „Af hverju viljum við að allt þetta fólk frá skítabælum komi hingað?"“. DV. Sótt 21. nóvember 2020.
- ↑ Alan Fram og Jonathan Lemire (12. janúar 2018). „Why allow immigrants from 'shithole countries'?“. APnews. Sótt 21. nóvember 2020.
- ↑ Kjartan Kjartansson (15. júlí 2019). „Trump sagður vilja gera Bandaríkin hvít aftur“. Vísir. Sótt 21. nóvember 2020.