Týli Pétursson
Týli Pétursson (d. 1523) var hirðstjóri á Íslandi 1517-1520. Hann var frá Flensborg, var hálfgerður ævintýramaður eða jafnvel sjóræningi og virðist hafa verið mjög yfirgangssamur. Urðu róstur á Alþingi öll hirðstjóraár hans.
Týli hafði verið kaupmaður í Flensborg og síðan fógeti í Bramstad en kom svo til Íslands með hirðstjóratign norðan og austan. Þegar á fyrsta alþingi sem hann sótti, 1517, eltu menn hans einn lögréttumanna, skutu hann til bana og lögðu hald á fé hans. Árið eftir var lögréttumaður einn barinn og settur í járn af mönnum Týla. Og 1519 varð ágreiningur milli Týla og Ögmundar Pálssonar biskupsefnis og voru þeir ósammála um mannbætur, því Ögmundur sagði að sér þætti að ekki ætti að gjalda jafnmikið fyrir víg erlendra ribbalda sem unnið hefðu sér til óhelgi og fyrir Íslendinga sem útlendingar hefðu drepið saklausa. Týla þótti mjög sneitt að sér og brást hann svo reiður við að hann skipaði mönnum sínum að taka til vopna og bjóst til að slá og stinga biskupsefnið. En Vigfús Erlendsson lögmaður gekk á milli.
Týli þótti draga mjög taum Englendinga í deilum þeirra við landsmenn og hefur þess verið getið til að hann hafi átt að undirbúa að Englendingar tækju við landinu en um þessar mundir var Kristján 2. Danakonungur að reyna að selja eða veðsetja Hinrik 8. Ísland. Sumir telja að Týli hafi jafnvel leikið tveim skjöldum og verið á mála hjá Englendingum.
Hirðstjóratíma Týla lauk 1520 og hafði hann hug á að fá hann framlengdan en hann var óvinsæll vegna yfirgangs og Vigfús Erlendsson, sem áður hafði verið hirðstjóri, sóttist einnig eftir embættinu. Þeir sigldu út á sama skipi en Vigfús dó erlendis og virðist þá hafa verið búinn að fá hirðstjóraembættið ef marka má klögunarbréf sem Týli skrifaði Kristjáni 2. 27. mars 1521. Þar segir hann meðal annars að Vigfús sé gamall og veikur („Fuzse Ellandtson er en gammell swghe mandt“) og má það til sanns vegar færa því Vigfús mun hafa dáið um það leyti. Týli fékk þó ekki hirðstjórn, heldur Hannes Eggertsson.
Týli var á heimaslóðum í Flensborg næstu árin og fékkst við kaupskap. Kristján 2. flúði land 1523 og Friðrik 1. föðurbróðir hans varð konungur, en Kristján hafði áður sett Týla yfir Ísland og Færeyjar og sendi hann til Íslands. Fór Týli vorið 1523 með flokk manna, innlendra og erlendra, að Bessastöðum, þar sem Hannes hafði aðsetur, rændi og ruplaði, braut upp kirkju og kistur og flutti svo Hannes sjálfan nauðugan inn í Hólm (til Reykjavíkur) og hafði hann í haldi þar um tíma en sleppti honum síðan. Ögmundur biskup og Erlendur Þorvarðarson lögmaður skipuðu tylftardóm sem úrskurðaði 28. maí í Viðey að skipunarbréf Hannesar væri gilt og Týli skyldi skila fénu. Fáum dögum síðar, þann 1. júní, dæmdi tylftardómur nefndur af Erlendi lögmanni Týla óbótamann. Hannes fékk bæði Íslendinga og þýska kaupmenn í lið með sér og tóku þeir Týla og afhöfðuðu.
Heimildir
breyta- „Fyrir 400 árum. Lesbók Morgunblaðsins, 8. mars 1942“.
- „Tilraunir Danakonunga til að selja Ísland. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 1898“.
- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
- Íslenskt fornbréfasafn, 9. bindi, Reykjavík 1909-1913.
Fyrirrennari: Søren Andersen Norby |
|
Eftirmaður: Hannes Eggertsson |