Harpa (tónlistar- og ráðstefnuhús)

tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík

Harpa er tónlistar- og ráðstefnuhús á austurbakka Reykjavíkurhafnar, fyrir neðan Seðlabanka Íslands. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Stórsveit Reykjavíkur og Íslenska óperan hafa aðsetur í húsinu. Í húsinu eru fjórir salir, en sá stærsti, Eldborg, er hannaður fyrir stóra tónlistarviðburði og tekur milli 1600 og 1800 manns í sæti. Auk salanna eru mörg stór opin rými í húsinu sem eru nýtt undir viðburði af ýmsu tagi. Tveir veitingastaðir eru í húsinu, á jarðhæð og efstu hæð. Á jarðhæð eru auk þess miðasala og verslanir. Harpa er 28.000 fermetrar að stærð og greiðir því há fasteignagjöld til Reykjavíkurborgar. Þetta var lengi gagnrýnt fyrir að standa í vegi fyrir fjárhagslegri sjálfbærni rekstrarins. Íslenska ríkið á 54% hlut í Hörpu á móti 46% hlut Reykjavíkurborgar.[1]

Kínverskir loftfimleikamenn leika listir sínar fyrir utan Hörpu árið 2011.
Harpa séð frá Vesturhöfninni.

Húsið var tímabundið kallað „Tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík“ en fékk síðan nafnið „Harpa“ á degi íslenskrar tónlistar 11. desember 2009.[2] Fyrstu tónleikarnir voru haldnir 4. maí 2011, en þar flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands 9. sinfóníu Beethovens undir stjórn Vladímírs Ashkenazy. Einsöngvarar voru Christiane Oelze, Sesselja Kristjánsdóttir, Kolbeinn Jón Ketilsson og Bjarni Thor Kristinsson og að auki tók Óperukórinn í Reykjavík ásamt Kór Áskirkju og Hljómeyki þátt í flutningi á 4. kafla 9. sinfóníu Beethovens á opnunarhátíðinni. Opnunartónleikar voru haldnir 13. maí, en næstu tvo daga var opið hús með fjölbreyttri tónlistardagskrá og komu þá um 32 þúsund manns í húsið eða um tíundi hluti íslensku þjóðarinnar. Frá opnun hefur Harpa hýst marga af stærstu tónlistarviðburðum og ráðstefnum landsins, eins og ráðstefnur Arctic Circle, lokatónleika Iceland Airwaves, UTmessuna og fanfest EVE Online. Leiðtogafundur Evrópuráðsins fór fram þar árið 2023.

Frá Hörpu liggur göngugata, Reykjastræti, milli Reykjavík Edition-hótelsins og höfuðstöðva Landsbankans, að Hafnartorgi, hinum megin við Geirsgötu. Upphaflega var hugmyndin að tengja Hörpuna við Lækjartorg með samfelldri göngugötu, þannig að Geirsgata færi í stokk og húsið Hafnarstræti 20 yrði rifið. Hætt var við að leggja Geirsgötu í stokk árið 2006, en þess í stað komu T-gatnamót þar sem hún mætir Lækjargötu. Undir Geirsgötu og Hafnartorgi er stærsti bílakjallari Íslands sem nær samfellt frá Hörpu að Tryggvagötu.

Skipulag og framkvæmdir

breyta
 
Harpa í byggingu árið 2010.

Tónlistar og ráðstefnuhúsið var hannað af teiknistofunni Batteríið arkitektar og Teiknistofu Hennings Larsens í Danmörku og stór glerhjúpur sem umlykur bygginguna er hannaður af Ólafi Elíassyni.[3]

Byggingin er hluti af stærri framkvæmd sem átti upprunalega að fela í sér 400 herbergja hótel, viðskiptamiðstöðina World Trade Center Reykjavík, nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, verslanir, íbúðir, veitingahús, bílastæðahús og göngugötu.[4] Verkið var boðið út af ríki og borg og að útboði loknu kom athafnamaðurinn Björgólfur Guðmundsson að fjármögnun byggingar Hörpu í gegnum eignarhlut Landsbankans í félaginu Portus, sem sá um framkvæmdina.[5] Eftir bankahrunið þurftu íslenska ríkið og Reykjavíkurborg að hlaupa undir bagga til að framkvæmdir héldu áfram. Um mitt ár 2010 var áætlað að heildarkostnaður frá upphafi næmi um 27,7 milljörðum.[6] Í ágúst árið 2010 kom upp eldur í byggingunni þegar verið var að sjóða saman stálgrindina fyrir glerhjúpinn. Rétt áður höfðu komið í ljós gallar á stálgrindinni sem var framleidd í Kína og þurfti að skipta um hana að hluta.

Bygging hótels, höfuðstöðva Landsbankans og bílastæðakjallara töfðust vegna hrunsins, en héldu áfram eftir 2016. Hótelið var opnað 2020 og sama ár var stærsti bílakjallari landsins opnaður, sem nær frá Hafnartorgi að Hörpu með 1160 bílastæðum fullbyggður.

Kjallarar hússins, m.a. þar sem bílakjallarar eru, eru að hluta undir og við sjávarborð. Sérstakar ráðstafanir voru gerðar til að koma í veg fyrir að loftfyllt byggingin flyti upp. Einnig var gert ráð fyrir hækkun yfirborðs sjávar vegna loftslagsbreytinga. Upphaflegar teikningar gerðu ráð fyrir að umferð bíla fram hjá svæðinu myndi að mestu fara neðanjarðar, til að tengja Hörpu betur við miðborgina. Þegar leið á byggingartímabílið, var stígur gangandi og hjólandi sem lá norðanmegin Kalkofnsvegar skorinn, á meðan fjögurra akreina akvegur var látin halda sér mestan hluta byggingartímabilsins.

Arkitektúr og nýting ljóshjúpsins

breyta

Árið 2013 vann byggingin Mies van der Rohe verðlaunin fyrir nútíma arkitektúr, en verðlaunin eru gefin út af Evrópusambandinu. Áberandi útlit byggingarinnar kemur frá glerhjúpnum eftir Ólaf Elíasson sem sækir innblástur í íslenska náttúru. Framhliðin er smíðuð úr mörgum smærri gler- og stálþáttum og svipaða spegla má finna í loftinu, en innblásturinn kemur frá stuðlabergi.[7] Ólafur leikur sér síðan með ljósið sem kviknar á myrkum vetrarmánuðum Íslands, en hver gluggi hefur að geyma LED ljós sem er hægt að stjórna.[8]

Glerhjúpurinn samanstendur af 714 LED ljósum, 486 í austurhluta hússins og 228 í vesturhlutanum.[9] Þessi ljós sýna alla jafna myndbandsverk hannað af Ólafi Elíassyni. Árið 2021, vegna 10 ára afmælis hússins, bjó hann til 12 ný ljósverk til að sýna á glerinu, eitt fyrir hvern mánuð ársins.[10] Árið 2014 veitti Ólafur öðrum listamönnum fyrst aðgang að háþróuðu ljósakerfi hússins, þegar listamennirnir Atli Bollason og Owen Hindley sýndu gagnvirka listaverkið PONG, byggt á klassíska spilakassaleiknum Pong, fyrir Menningarnótt. Þetta var í fyrsta sinn sem framhliðin var notuð til annarra nota en myndbandaspilunar og PONG var sýnd aftur árið eftir sem hluti af Sónar Reykjavík hátíðinni, en þá voru ljós hjúpsins einnig stillt til að endurspegla tónlistina sem var spiluð innanhúss. Þetta markaði upphafið að víðtækari notkun á ljósunum í hjúpi Hörpu, því Harpa, Studio Ólafur Elíasson og Reykjavíkurborg hófu opnar umsóknir um listrænar tillögur um nýtingu framhliðarinnar ári síðar og fengu vinningshafar aðstoð við útfærslu frá stafræna listamanninum Owen Hindley.[11] Vinningshafarnir árið 2016 voru listamennirnir Halldór Eldjárn og Þórður Hans Baldursson með verkið Slettireka (e. Paint Splatter). Ljósahjúpi Hörpu var breytt í risastóran gagnvirkan striga og hverjum sem er var gert mögulegt að myndskreyta strigann með því að klessa á hann sýndarmálningu. Myndskreytingin fór þannig fram að fólk opnaði þar til gert smáforrit á síma sínum og valdi þar úr litum og hvar viðkomandi vildi sletta málningu á glerhjúpinn. Áhrifin sáust strax á glerhjúpnum og laut sýndarmálningin þar sömu náttúrulögmálum og annar seigfljótandi vökvi þar sem hann tók að leka hægt og rólega niður.[12][13]

Owen Hindley og Atli Bollason héldu svo áfram að nýta ljóshjúp Hörpunnar á ýmsan skapandi máta, til dæmis með uppsetningu á SónarSpil, sem var sérstök dagskrá tengd upplifun, nýsköpun og tækni á meðan tónlistarhátíðin Sónar Reykjavík fór fram árið 2018. Þar fóru fram námskeið til að kenna almenningi að tengja saman tækni og list og nota ljóshjúp Hörpu á skapandi máta.[14][1][2]

  • Eldborg (1600-1800 sæti)
  • Silfurberg (750 sæti)
  • Norðurljós (450 sæti)
  • Kaldalón (195 sæti)

Tilvísanir

breyta
  1. „Fyrirtækið“. Harpa. Sótt 12.1.2023.
  2. Harpa skal tónlistarhúsið heita; af Mbl.is
  3. Þröstur Helgason (20. október 2007). „Í skapandi samstarfi við borgarbúa“. Lesbók Morgunblaðsins: 3–5.
  4. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20080714191340/www.gestastofa.is/heildarverkefnid/
  5. Kristjana Guðbrandsdóttir (22. janúar 2008). „Menningarmannvirki rís af grunni“. 24 stundir: 22.
  6. Átti við um kostnað frá gjaldþrotinu
  7. lars. „Harpa in Reykjavik: Iceland's symbol of recovery — Nordic Labour Journal“ (enska).
  8. lars. „Harpa in Reykjavik: Iceland's symbol of recovery — Nordic Labour Journal“ (enska).
  9. „Samkeppni um listaverk á ljóshjúp Hörpu | Reykjavik“. reykjavik.is. 8. desember 2015. Sótt 7. mars 2024.
  10. Harpa. „Harpa — húsið þitt“. www.harpa.is. Sótt 7. mars 2024.
  11. „Harpa turns into a giant canvas“. Iceland Monitor. Sótt 7. mars 2024.
  12. „Harpa turns into a giant canvas“. www.mbl.is. Sótt 7. mars 2024.
  13. „Slettireka í Hörpu | Borgin okkar“. borginokkar.is. Sótt 7. mars 2024.[óvirkur tengill]
  14. Pálsson, Stefán Árni (10. maí 2018). „Sónar Reykjavík kynnir tuttugu fyrstu listamenn hátíðarinnar - Vísir“. visir.is. Sótt 7. mars 2024.

Tenglar

breyta

64°9′1″N 21°55′57″V / 64.15028°N 21.93250°V / 64.15028; -21.93250