Tónbil er bilið milli tveggja nótna í tónlist. Bilið er mælt í nótnabókstöfum en þar sem stundum er heiltónsbil milli bókstafa og stundum hálftóns þá þarf að nota litil, stór, hrein, minnkuð og stækkuð tónbil til að tákna alla fræðilega möguleika á tónbilum.

Stærð tónbils

breyta

Til að þekkja stærð tónbilsins geturðu einfaldlega talið bókstafina (með tilliti til að H sé milli A og C í stað bés og að eftir G komi A aftur). Bilið milli A og C er til að mynda þríund því AHC eru þrír bókstafir, að sama skapi er bilið milli F og A þríund því FGA eru þrír bókstafir en samt er ein fleiri nóta milli F og A heldur en A og C. Það gerir að verkum að A-C er lítil þríund og F-A er stór þríund. Einnig ef við værum með lækkaða nótu í A-C sumsé A-Ces þá væri ennþá um að ræða þríund en hún væri minni en litla þríundin og því minnkuð þríund að sama skapi ef A væri hækkaði í F-A sumsé F-Aís þá væri um að ræða stækkaða þríund.

Hrein tónbil

breyta

Hrein tónbil eru af þeirri stærð að þau ná alltaf jafn mörgum nótum á milli sín sama hvar þau eru spiluð. Því eru þau aldrei stór né lítil og þar af leiðandi hrein. Hrein tónbil geta þó verið stækkuð og minnkuð.

Stækkaða ferundin/minnkaða fimmundin

breyta

Vegna eðli hreinna fimmunda og hreinna ferunda myndast gat á milli þeirra, þar sem ekkert „náttúrulegt“ (stórt, lítið, hreint) tónbil er. Þetta gerir það að verkum að eina leiðin til að spila 6 hálftónsbil (eða hálfa áttund) er með stækkaðri ferund eða minnkaðri fimmund. Þess má geta að sökum þess hversu erfitt þykir að syngja þetta tónbil var það ekki notað fyrr á öldum. Það þótti og hljóma illa, enda mjög ómstrítt, og var kallað kallað diabolus in musica eða tónskratti.

Samhljóma tónbil

breyta

Samhljóma tónbil eru tónbil sem eru tónfræðilega ólík en eru spiluð eins á hljóðfærið og hljóma eins fyrir hlustandan. Þar sem tónbil eru notuð í samræmi við tóntegundir og hljóma getur það heitið mismunandi nöfnum en hljómað alveg eins. Dæmi: Stór tvíund hljómar alveg eins og minnkuð þríund enda jafn stór bil og spilað eins á hljóðfærin. Stækkuð ferund hljómar alveg eins og minnkuð fimmund, stækkuð sjöund hljómar alveg eins og áttund, minnkuð tvíund hljómar alveg eins og einund og svo má lengi telja.

Tónbil stærri en áttund

breyta

Þegar verið er að tala um tónbil er staðsetning nótna í áttundum yfirleitt sleppt og því verður stór níund tæknilega það sama og stór tvíund og stór þrjátu og þrírund verður því líka stór tvíund.

Stærðfræðileg útskýring

breyta

Þegar talað er um tónbil er verið að tala um hlutfall milli nótna og því tvöfalda áttundir hlutfallið en hafa engin bein áhrif. Ein áttund er 2:1, það er efri nótan er með helmingi hraðari sveiflutíðni en nótan fyrir neðan. Því getum við séð að áttund gefur okkur ekkert brot og ekkert hlutfall til að vinna með. Ef við erum með stóra þríund þá er hlutfall hærri nótunnar 5:4 miða við þá lægri. Þetta gerir það að verkum að stór tíund (áttund + þríund) sem er með hlutfallið 10:4 má þátta í áttund og þríund eða 2:1 * 5:4 sem sýnir að sama brot stendur eftir og hjá þríund.

Díatónísk Tónbil breyta
Hrein : einund (0) | ferund (5) | fimmund (7) | áttund (12)
Stór : tvíund (2) | þríund (4) | sexund (9) | sjöund (11)
Lítil : tvíund (1) | þríund (3) | sexund (8) | sjöund (10)
Stækkuð/minnkuð : ferund/fimmund (6)
Fjöldi hálftónsbila er í sviga fyrir aftan.