Nóta (tónlist)
Í tónlist er grunneiningin kölluð nóta. Annaðhvort er þá verið að tala um ákveðna sveiflutíðni sem hefur fengið nafn, tákn fyrir sveiflutíðni á rituðu formi, lengd tónsins eða samsetning af þessu þrennu.
Þessar tíðnir endurtaka sig í svokölluðum yfirtónum (þ.e.a.s. yfirtónaröðinni) þar sem sveiflutíðnin margfaldast. Þannig að ef A er 442 Hz er fyrsti tónn í yfirtónaröðinni a (A áttund ofar) 884 Hz og e` (fimmund ofar) annar tónninn í yfirtónaröðinni 1326 Hz. Með því að tvöfalda tíðni nótu fær maður nótuna áttund ofar (Arnold Schoenberg: Harmonielehre, 2001).
Í vestrænni tónfræði er sveiflutíði nótna oftast táknuð með bókstafarunu frá A til G (eða H, útskýring neðar), sem endurtekur sig bæði upp og niður. Þessar sjö nótur eru nú skilgreindar vísindalega sem ákveðin hlutföll af sveiflutíðni nótunnar A. Alþjóðlegur staðall á sveiflutíðni einstrika A (fyrir ofan miðju c) er 440 Hz. Þó eru til dæmi um að hljómsveitir stilli sig örlítið hærra (442 Hz - 445 Hz) til að hljóma bjartari eða noti aðra tíðni til að nálgast hljóm annarra landa eða tímabila sem notuðu aðra viðmiðun.
Annað algengt nafnakerfi fyrir nótur er svokallað solfege kerfi. Þar er grunntónn lags kallaður Do, óháð sveiflutíðni hans. Aðrar nótur eru svo lagaðar að gildi grunntónsins, og eru kallaðar Re, Mí, Fa, So, La og Tí. Í Frakklandi eru nótur nefndar eftir solfege kerfinu, þannig að þar er Do það sem á íslensku kallast C algjörlega óháð því hvort það sé grunntónn.
Áðurnefndar nótur (do, re, mi, fa, so, la og ti) (geta t.d. verið allar hvítu nóturnar á píanói) mynda dúr-skala. Dúr skali ásamt moll-skala og 5 öðrum kirkjutóntegundum eru oft nefndir díatónískir skalar. Díatónískir skalar hafa 7 nótur og tónbil milli aðliggjandi nótna í honum eru heiltónn í 5 tilvikum og hálftónn í tveimur tilvikum (þá er talið með bilið milli 7. og 8. nótunnar, sem er einnig grunntónn því skalinn endurtekur sig).
Í vestrænni tónlist eru gjarnan díatónískir skalar (sérstaklega dúr og moll) hafðir til grundvallar en alls ekki eingöngu, oft skipta lög/tónsmíðar yfir í aðra tóntegund auk þess sem hljómhæfir og laghæfir moll-skalar eru notaðir. Frá og með rómantíska tímabilinu á 19. öld urðu kaflar í krómatískum eða heiltóna-skölum einnig nokkuð algengir. Til að spila alla þessa skala duga ekki þessar 7 nótur sem eru í stökum díatónískum skala og því þarf að bæta við fimm nótum. Það er gert með svokölluðum hálftónum. Hver hálftónn er skilgreindur sem fyrra gildi * 12. rót af 2 (1.0594630943593...) og hálftónn fyrir ofan 440 Hz A er því 440 × 1.059... ~ 466.16376.
Nótur á Íslandi
breytaÁ Íslandi eru notuð þýsk nöfn og skilgreiningar á nótum, þar eru heiltónarnir A, H, C, D, E, F og G, og hálftónshækkun táknuð með viðskeytinu -ís og hálftónslækkun með -es. Hægt er að tvílækka og -hækka, og er þá viðskeytið -ísís og -eses. A og E fá einungis -s í fyrstu lækkun og einlækkað H er kallað B. Þá er hægt að setja upp lista yfir möguleg nöfn á hverri hálfnótu frá A:
- 1. hálfnóta: Gísís, A, Heses (eða Bes)
- 2. hálfnóta: Aís, B, Ceses
- 3. hálfnóta: Aísís, H, Ces
- 4. hálfnóta: Hís, C, Deses
- 5. hálfnóta: Cís, Des
- 6. hálfnóta: Císís, D, Eses
- 7. hálfnóta: Dís, Es, Feses
- 8. hálfnóta: Dísís, E, Fes
- 9. hálfnóta: Eís, F, Geses
- 10. hálfnóta: Eísís, Fís, Ges
- 11. hálfnóta: Físís, G, Ases
- 12. hálfnóta: Gís, As
Tenglar
breytaHeimildir
breytaArnold Schoenberg. Harmonielehre. Universal-Ed., Wien. 2001