Sveinsstaðaafrétt

Sveinsstaðaafrétt nefnist afrétt Svarfdælinga. Hún er innst í Skíðadal og afdölum hans þar. Bæði sauðfé og hestar og jafnvel geldneyti ganga þar til beitar að sumarlagi. Ólíkt því sem gerist á Suðurlandi og víðar er nafnorðið afrétt í kvenkyni í munni Svarfdælinga.

Gangnamenn í 1. göngum 2008, Gljúfurárjökull til vinstri, Almenningsfjall fyrir miðju.

Sveinsstaðaafrétt er smöluð á hverju hausti af Gangnamannafélaginu svokallaða. Yfirleitt er farið þrisvar, þ.e. í fyrstu og aðrar göngur og eftirleit. Ein eða tvær vikur líða venjulega milli fyrstu og annarra gangna. Farið er í fyrstu göngur í byrjun september. Það er mun fyrr en áður var, þegar farið var í göngur í kring um 20. september. Í eftirleit er farið eftir ástæðum seint að hausti. Sveinsstaðaafrétt skiptist í nokkur gangnasvæði. Þau eru Litlidalur, Almenningur, Austurtungur, Vesturtungur (Austur- og Vestur-Stafnstungur), Vesturárdalur og Krosshólsfjall. Á síðustu árum hafa Holárdalur, Gljúfurárdalur og Kóngsstaðadalur bæst við umdæmi Gangnamannafélagsins, en þessi svæði tilheyra þó ekki hinni eiginlegu Sveinsstaðaafrétt.

Göngur breyta

Sveinsstaðaafrétt

 

Göngur taka ekki langan tíma miðað við það sem sums staðar er. Á móti kemur að fjöllin eru brött og há, sum yfir 1400 m. Á fyrsta degi taka menn til nesti og koma hrossum fram í Skíðadal. Á öðrum degi er smalað og féð rekið í girðingu við Stekkjarhús sem er sæluhús gangnamanna. Það stendur þar sem áður var stekkur frá Krosshóli. Þar er einnig hesthús. Á þriðja degi er safnið rekið á Tungurétt, skilarétt Svarfdælinga, sem er í tungunni á mótum Svarfaðardals og Skíðadals. Þar er dregið í sundur, drukkið kaffi í Tunguseli, skála Kvenfélagsins Tilraunar, sungið og pelum lyft. Þá er oft glatt á hjalla. Eftir það reka bændur fé sitt heim eða aka því, sem er mun algengara. Að kvöldi er dansleikur, gangnaball, í hinu fornfræga samkomuhúsi á Höfða í Svarfaðardal.

Gangnaforingjar breyta

Fyrirliði gangnamanna í Sveinsstaðaafrétt kallast gangnaforingi. Steingrímur Eiðsson (1915-1976), bóndi á Ingvörum var gangnaforingi um langan aldur eða allt frá 1938 og fram yfir 1970. Árni Veigar Steingrímsson (1943-2009) sonur hans tók við af honum, seinna varð Eiður Steingrímsson (1943-2015), bróðir hans, gangnaforingi og hélt þeirri tign til 2009. Núverandi gangnaforingi er Karl Heiðar Friðriksson frá Grund, nú bóndi í Brekku.

Krosshólshlátur breyta

 
Gangnamenn við við Stekkjarhús í 1. göngum 2008.

Mikil menning og sagnaarfur tengist göngum í Sveinsstaðaafrétt. Gangnamenn halda góða skrá yfir hverjar göngur þar sem greint er frá helstu atburðum, tíðarfari og fjárheimtur. Einnig er skráður kveðskapur sem jafnan verður til í göngum. Bókin sem geymir þetta efni nefnist Krosshólshlátur eftir þekktri þjóðsögu í safni Jóns Árnasonar. Samnefnd vísa eftir Hjört E. Þórarinsson er þjóðsöngur eða einkennisstef gangnamanna:

Hér skal ætíð hafa völd
hugur ofsakátur,
megi hljóma um ár og öld
og eilífð Krossshólshlátur.

Gefin hefur verið út bók um gangnamenningu Svarfdæla með miklum frásögnum og kveðskap úr Sveinsstaðaafrétt. Bókin, sem ber nafnið Krosshólshlátur, er skráð af Hjörleifi Hjartarsyni í Laugasteini og kom út 2013.