Grund í Svarfaðardal
Grund í Svarfaðardal er ein af stærri bújörðunum í dalnum. Bærinn í miðri sveit, vestan Svarfaðardalsár, um 6 km frá strönd gegnt Hofi. Barnaskóli Svarfdælinga stóð lengi í túnfætinum á Grund innan og neðan við bæinn og þar var líka samkomuhús sveitarinnar. Utan við Grund er Grundarlækur. Hann kemur úr miklu skriðugili í fjallinu, Grundargili. Úr þessu gili hafa oft komið miklar aurskriður sem hafa valdið tjóni á túnum á Grund og næsta bæ, Brekku, og tekið sundur þjóðveginn um dalinn. Skriðurnar eiga upptök sín í vatnshlaupum sem koma úr Nykurtjörn, litlu vatni í um 700 m hæð í fjallinu ofan við Grund. Grund er landnámsjörð, að því er sagt er í Svarfdæla sögu, þar bjó Þorsteinn svörfuður. Grundar er víða getið í fornum heimildum. Í Sturlungu segir frá því að Tumi hinn yngri, sonur Sighvats Sturlusonar, og Halldóra móðir hans hafi fengið jörðina til ábúðar fyrst eftir ósigur Sturlunga í Örlygsstaðabardaga árið 1238. Þorsteinn Eyjólfsson lögmaður á Urðum átti Grund á seinni hluta 14. aldar og kallaði hana sína bestu jörð Norðanlands. Jón Arason biskup eignaðist jörðina og gaf Þórunni dóttur sinni hana 1541. Eftir aftöku biskups og sona hans í Skálholti 1550 kúguðu valdsmenn konungs jörðina af henni og eftir það taldist hún konungsjörð allt fram á 20. öld.
Blakksgerði
breytaBlakksgerði tilheyrði Grund. Bærinn er neðan þjóðvegarins og stendur á háum malarhjalla upp af Svarfaðardalsá. Sunnan bæjarins er golfskáli Golfklúbbsins Hamars á Dalvík. Þar er Arnarholtsvöllur, 18 holu golfvöllur, en hann er að mestu í landi Ytra-Garðshorns. Blakksgerði er gamalt örnefni en ekki er vitað til þess að þar hafi verið búið fyrr en 1898 þegar þar var reist íbúðarhús og stofnsett bú. Jörðin tilheyrði Grund til að byrja með en varð svo sjálfstæð bújörð. Þar var búið fram yfir 1950 en nú er gamla íbúðarhúsið notað sem sumarbústaður.
Örnefnið Blakksgerði er nefnt á tveimur stöðum á Svarfdælu. Í fyrra skiptið er það nefnt í sambandi við sérkennilega skipasmíði þar í nágrenninu en í seinna skiptið tengist það frásögninni um það þegar landnámsmaðurinn Þorsteinn Svörfuður var heygður á melnum gegnt Blakksgerði. Þar er að líkindum átt við Arnarholtið en þar fannst mikill kumlateigur úr heiðnum sið um miðja 20. öld.
Heimildir
breyta- Hjörtur Eldjárn Þórarinsson. „Svarfaðardalur og gönguleiðir um fjöllin“. Árbók Ferðafélags Íslands. () (1973): 9-119.
- Stefán Aðalsteinsson (1978). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík.