Skíðadalur er strjálbýll dalur sem skerst inn í fjallendi Tröllaskagans inn af Svarfaðardal við Eyjafjörð. Skíðadalur er í beinu framhaldi af aðaldalnum með stefnu til suðurs en innri hluti Svarfaðardals sveigir mjög til vesturs. Dalirnir klofna um hið svipmikla fjall Stól um 10 km frá sjó. Miklir og fornir berghlaupshólar sem nefnast Hvarfið liggja í mynni dalsins. Inn frá Skíðadal ganga margir afdalir inn milli hárra og hrikalegra fjalla. Innst í Skíðadal og afdölum hans er Sveinsstaðaafrétt. Gljúfurárjökull virðist vera fyrir botni Skíðadals eins og hann blasir við frá Dalvík en Skíðadalur nær lengra vestur inn á hálendið. Jökullinn er um 2 km þar sem hann er breiðastur og myndar hann nokkurs konar þríhyrning sem endar neðst í brattri skriðjökultotu sem nær nokkuð niður fyrir snjólínu, þ.e. 550 m hæð. [1]

Klængshóll innsti bær í Skíðadal. Upp af bænum rís fjallið Hestur. Til hægri er Kvarnárdalshnjúkur.

Hæsta fjall við Skíðadal er Dýjafjallshnjúkur og er hann talinn hæsti tindur á fjalllendi því sem er vestan Hörgár- og Öxnadals, 1456 m hár. [2] Aðrir háir tindar við Skíðadal eru meðal annars Vörðufell (1321 m), Blástakkur (1325 m), Steingrímur (1312 m) og Grjótárdalshnjúkur (1384 m). Gjarnan er talað um Stólinn sem einkennisfjall sveitarinnar. Hæsti hluti Stólsins ber nafnið Kerling (1212 m) og þaðan sést norður í Dumbshaf, til Dalvíkur sem og til allra byggðra býla í sveitinni. [3]

Ásgrímur Jónsson málaði allmargar stórar landslagsmyndir í Skíðadal á efri árum sínum. Í ævisögunni, sem Tómas Guðmundsson skáld færði í letur, segir Ásgrímur að hann hafi uppgötvað dalinn full seint á starfsævi sinni,[4] en þá var hann 75 ára. Um þetta segir Ásgrímur:

"Skíðadalur er einn þeirra staða sem ég mundi hafa kosið að kynnast miklu fyrr, og fegurri dal getur naumast á þessu landi. Ber þar einkum til, að fjöllunum er þar skipað niður af fágætri list, eða þvílíkt sem snillingur hafi verið þar að verki, og á rennur eftir dalnum, sem fellur með sama listrænum hætti inn í landslagið." 

Helstu bæir í Skíðadal eru:

 • Syðra-Hvarf
 • Hlíð
 • Hnjúkur
 • Klængshóll
 • Kóngsstaðir
 • Þverá
 • Másstaðir
 • Dæli

Innst í Skíðadal má sjá tóftarbrot allmargra eyðibýla sem voru í byggð á fyrri öldum. Bæir þessir virðast hafa verið í stopulli byggð í aldanna rás en á 19. öld var búið á þeim flestum enda var þá skortur á jarðnæði um land allt. Byggðin lagðist síðan af á fyrri hluta 20. aldar. Nöfn bæanna voru: Holárkot, Gljúfurárkot, Stafn, Sveinsstaðir, Krosshóll og Hverhóll.

Heimildir

breyta
 1. Hjörtur Eldjárn Þórarinsson (1990). Byggð í tröllagreipum. Ferðafélag Íslands - Árbók 1990 Bls. 69-70/76.
 2. Bjarni E. Guðleifsson (1990). Óbyggðaleiðir umhverfis Þorvaldsdal og Hörgárdal. Ferðafélag Íslands - Árbók 1990 Bls. 123.
 3. Hjörtur Eldjárn Þórarinsson (1990). Byggð í tröllagreipum. Ferðafélag Íslands - Árbók 1990 Bls. 90.
 4. Tómas Guðmundsson (1962). Ásgrímur Jónsson. Helgafell, Reykjavík Bls. 76.