Gljúfurárjökull
Gljúfurárjökull er einn af fjölmörgum daljöklum á Tröllaskaga. Hann blasir við frá Dalvík og úr Svarfaðardal og virðist vera fyrir botni Skíðadals. Svo er þó ekki heldur er hann í botni lítils afdals sem Gljúfurárdalur heitir. Eftir honum fellur lítil jökulá, Gljúfurá, í djúpu klettagili til Skíðadalsár. Gljúfurárjökull er um 3 km² að flatarmáli. Fyrir miðjum jöklinum er hár klettahnjúkur sem Blekkill nefnist og er um 1240 m hár. Vestan við hann er Almenningsfjall, sem er upp undir 1400 m hátt, en Heiðinnamannafjall liggur að honum að austan. Skriðjökulstunga gengur frá safnsvæði jökulsins við Blekkilinn og niður í dalbotninn. Þar eru miklar jökulurðir og jökulgarðar sem bera vitni um stærð jökulsins á umliðnum öldum. Um aldamótin 1900 virðist hann hafa náð mörg hundruð metrum lengra niður í dalinn en hann gerir nú. Gljúfurárjökull hefur talsvert verið rannsakaður og hefur verið vinsæll viðkomustaður hjá breskum námsmannaleiðöngrum en þar hafa stúdentar í náttúrufræðum öðlast reynslu í útilífi og rannsóknum.
Á Íslandi hófust jöklamælingar upp úr 1930. Ýmsir jöklar hafa verið mældir reglulega síðan en aðrir óreglulega. Fyrsta mæling á Gljúfurárjökli var gerð 1939. Reglulegar mælingar hófust síðan 1952. Mælingar sýna að frá 1939 til 1977 hopaði Gljúfurárjökull ár frá ári með þeirri einu undantekningu að á hafísárunum 1969 og 1970 gekk hann fram um örfáa metra. Árið 1977 hafði hann hopað rúma 400 m en þá snérist þróunin við og jökullinn tók að ganga fram á ný. Upp úr 1990 hafði jökultungan lengst um 150 m en þá hófst nýtt hörfunarskeið sem hefur staðið óslitið síðan. Þetta er mjög í samræmi við það sem hefur verið að gerast við sambærilega jökla annars staðar á landinu.
Tengt efni
breytaHeimildir
breyta- Hjörtur Eldjárn Þórarinsson. „Byggð í tröllagreipum“. Árbók Ferðafélags Íslands. () (1990): 69-76.