Sveinn Hákonarson
Sveinn Hákonarson Hlaðajarl (d. um 1016) réði ríkjum í Noregi ásamt Eiríki hálfbróður sínum frá því um 1000 til 1014 og með Hákoni syni Eiríks 1014-1015, í umboði Sveins tjúguskeggs Danakonungs.
Sveinn var sonur Hákonar Sigurðssonar Hlaðajarls og konu hans, Þóru Skagadóttur Skoftasonar. Hann átti alsystkinin Heming og Bergljótu. Hálfbróðirinn Eiríkur var elstur og var frillusonur. Hann þótti þó að mörgu leyti fremri bróður sínum og í orrustunni í Hjörungavogi, þar sem þeir voru báðir, ætlaði Sveinn að flýja undan Vagni Ákasyni en bróðir hans kom þá og hrakti Vagn frá og náði að handsama hann.
Þeir bræður flýðu báðir til Svíþjóðar undan Ólafi Tryggvasyni eftir að faðir þeirra var drepinn en Sveinn var ekki með í Svoldarorrustu, þar sem Ólafur féll. Eftir það skiptu þeir Noregi á milli sín - Svíinn Ólafur skotkonungur fékk einnig nokkur héröð - en töldust þó báðir lénsmenn Sveins tjúguskegg og báru ekki konungsnafnbót.
Eiríkur jarl hélt til Englands í herför árið 1014 og lét Hákoni syni sínum eftir veldi sitt. Hákon og Sveinn stýrðu ríkinu saman til hausts 1015, en þá kom Ólafur helgi til landsins og gerði kröfu til konungsstólsins. Hann vann sigur á Sveini í orrustu en Sveini tókst að flýja til Svíþjóðar. Þar ætlaði hann að koma sér upp her og vinna Noreg að nýju en dó áður en af því yrði.
Kona Sveins var Hólmfríður, sem var annaðhvort systir eða dóttir Ólafs skotkonungs af Svíþjóð. Dóttir þeirra var Sigríður, sem giftist Ásláki syni Erlings Skjálgssonar, og líklega einnig Gunnhildur, sem giftist Sveini Ástríðarsyni Danakonungi.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Svein Håkonsson“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 3. apríl 2010.
Fyrirrennari: Ólafur Tryggvason |
|
Eftirmaður: Ólafur helgi | |||
Fyrirrennari: Hákon Sigurðarson |
|
Eftirmaður: Hákon Eiríksson |