Eiríkur Hákonarson
Eiríkur Hákonarson Hlaðajarl (957 — 1023/24) réði ríkjum í Noregi ásamt Sveini hálfbróður sínum frá því um 1000 til 1015, í umboði Sveins tjúguskeggs Danakonungs. Þeir báru þó ekki konungsnafnbót.
Eiríkur var óskilgetinn sonur Hákonar Sigurðssonar Hlaðajarls, sem hann eignaðist ungur með konu af lágum stigum. Hann var fóstraður af Þorleifi spaka í Meðaldal, vini Hákonar. Eftir því sem Snorri segir í Heimskringlu var Eiríkur „brátt mannvænn, hinn fríðasti sýnum, mikill og sterkur snemma“, en faðir hans sinnti honum lítið framan af. Það breyttist þó seinna, þegar Eiríkur fullorðnaðist og varð mikill höfðingi. Þeir feðgar stýrðu her Norðmanna í orrustunni við Jómsvíkinga í Hjörungavogi. Þar gaf Eiríkur Vagni Ákasyni og fleiri Jómsvíkingum grið en Hákoni jarli líkaði það stórilla.
Eiríkur og Sveinn flúðu til Svíþjóðar þegar faðir þeirra var drepinn árið 995 og kom þangað til þeirra fjöldi manna sem flúið höfðu ofríki Ólafs Tryggvasonar. Eiríkur herjaði í Austurvegi um fimm ára skeið en var oftast í Danmörku á vetrum því hann var þá kvæntur Gyðu, dóttur Sveins tjúguskeggs. Árið 1000 gengu þeir Eiríkur, Sveinn og Svíinn Ólafur skotkonungur í bandalag, gerðu Ólafi Tryggvasyni fyrirsát við eyna Svoldur og felldu hann þar.
Eftir fall Ólafs stýrðu bræðurnir Eiríkur og Sveinn Noregi og skiptu landinu á milli sín. Samkvæmt Heimskringlu hafði Eiríkur fjögur fylki í Þrándheimi, Hálogaland og Naumudal, Fjörðu og Fjalir, Sogn og Hörðaland og Rogaland og norðan Agðir allt til Líðandisness.
Árið 1014 hélt Eiríkur jarl til Englands í herför með Knúti syni Sveins tjúguskeggs (síðar Knúti ríka) og lét Hákoni syni sínum eftir að sjá um ríki sitt. En haustið 1015 kom Ólafur helgi til Noregs, tók Hákon til fanga en gaf honum grið gegn því að hann færi úr landi. Eiríkur hélt sig áfram í Englandi og Knútur ríki gerði hann að jarli af Norðymbralandi. Þeirri tign hélt hann til dauðadags og sneri ekki aftur til Noregs.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Eirik Håkonsson“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 3. apríl 2010.
Fyrirrennari: Ólafur Tryggvason |
|
Eftirmaður: Hákon Eiríksson | |||
Fyrirrennari: Hákon Sigurðarson |
|
Eftirmaður: Hákon Eiríksson |