Svalur í Moskvu

bók um Sval og Val frá árinu 1990

Svalur í Moskvu (franska: Spirou à Moscou) er 42. Svals og Vals-bókin og sú tíunda eftir þá Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu árið 1990 en í íslenskri þýðingu ári síðar.

Söguþráður

breyta

Svalur og Valur eru á leið til sólarlanda þegar franska leyniþjónustan rænir þeim á flugvellinum og flýgur með þá til Moskvu. Þar er þeim ætlað að hjálpa sovésku leyniþjónustunni KGB í baráttu sinni við hinn dularfulla glæpaforingja Tanaziof, sem KGB telur að Svalur og Valur hafi áður átt í höggi við. Þjónusta félaganna er hugsuð í skiptum fyrir tvö vestræn ungmenni sem handtekin voru fyrir að smygla sér til Sovétríkjanna.

Þeir Svalur og Valur hafa engan áhuga á verkefninu og halda í franska sendiráðið, þar verða þeir vitni að ránsferð Tanaziofs og manna hans. Tanaziof reynist vera Sammi, frændi Vals. Hann þykist vera rússneskur prins sem boðar valdarán og hótar að ræna múmíu Leníns.

Svalur, Valur og Lafidmerev fulltrúi KGB hyggjast sitja fyrir Samma og þrjótum hans, en með hjálp leyniganga tekst skúrkunum þó að stela múmíu Leníns og krefjast lausnargjalds. Þeir gera sér ekki grein fyrir að múmían í sýningarskápnum er ekki hinn raunverulegi Lenín heldur tvífari hans og mörg önnur eintök sé að finna.

Eftir æsilegan eltingaleik kemst Sammi undan en Svalur og Valur eru sendir aftur til Frakklands og hylltir sem hetjur fyrir framlag sitt til Sovétríkjanna.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Sagan kom út um það leyti sem Kalda stríðinu mátti heita lokið og Sovétríkin riðuðu til falls, en felur þó í sér ýmsar vísanir í staðalmyndir um Sovétríkin frá tímum Kalda stríðsins.
  • Bókstafirnir N og R eru prentaðir með spegilskrift í talblöðrum rússneskra persóna bókarinnar.
  • Aðstoðarmanni Samma frænda, Rússanum Níkíta, virðist hafa verið drekkt í ánni Volgu í lok bókarinnar. Hann snýr þó aftur sprelllifandi í bókinni L'homme qui ne voulait pas mourir.

Íslensk útgáfa

breyta

Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1991. Þetta var 28. bókin í íslensku ritröðinni.