Janry (2. október 1957), er listamannsnafn Belgans Jean-Richard Geurts. Hann er afkastamikill teiknari myndasagna og kunnastur fyrir vinnu sína við sagnaflokkinn um Sval og Val, sem og bókanna um ævintýri Litla-Svals.

Ferill

breyta
 
Belgíski teiknarinn Janry áritar verk sín á bókamessu í Gautaborg 2008.

Janry fæddist í borginni Likasi í Lýðveldinu Kongó, sem þá laut stjórn Belga. Tíu ára að aldri fluttist hann til Brussel, þar sem snemma fór að bera á teikniáhuga hans. Í myndlistarskóla kynntist hann Philippe Vandevelde, sem síðar varð samverkamaður hans í fjölda verkefna. Félagarnir kölluðu sig Tome & Janry, sem var hnyttin vísun í teiknimyndatvíeykið Tom & Jerry.

Snemma á níunda áratugnum var þeim falin gerð sagnanna um Sval og Val, Janry sem teiknari en þeir báðir sem höfundar. Bækurnar urðu fjórtán í allt. Ein þeirra, Furðulegar uppljóstranir, var safn af litlum sögum sem meðal annars fjölluðu um bernskuár Svals. Það gat af sér sjálfstæðan bókaflokk um ævintýri Litla-Svals. Þrátt fyrir nafnið og lyftuvarðarbúning aðalsöguhetjunnar lúta þær sögur eigin lögmálum og í raun engin bein tengsl milli barnunga og fullorðna Svals. Sextán bækur hafa komið út um Litla-Sval á árunum 1990 til 2012.

Samhliða því að teikna sögurnar um Sval og Litla-Sval hefur Janry samið myndasögurnar Hittumst á himnum (franska: Passe-moi l'ciel) ásamt teiknaranum Stuf, Stéphane De Becker. Það eru litlar skrítlur með Lykla-Pétri í aðalhlutverki, en einnig koma við sögu Guð og Satan.

Árið 2013 hóf Janry að teikna nýjan myndasöguflokk Le Aventures de Poussin 1er ásamt höfundinum Eric-Emmanuel Schmitt. Hann fjallar um kjúkling á hænsnabúi sem glímir við tilvistarlegar spurningar.