L'homme qui ne voulait pas mourir
L'Homme qui ne voulait pas mourir (ísl: Maðurinn sem vildi ekki deyja) er 48. Svals og Vals-bókin og sú önnur eftir þá Morvan og Munuera. Bókin kom út á frummálinu árið 2005.
Söguþráður
breytaSagan er sjálfstætt framhald tveggja Svals og Vals-bóka sem út komu með afar löngu millibili: Baráttunnar um arfinn frá 1952 og Svals í Moskvu frá 1990.
Sammi frændi Vals sleikir sárin ásamt rússneskum aðstoðarmönnum sínum í niðurníddu sveitasetri eftir misheppnuð illvirki í Moskvu. Um er að ræða hús sem frændi þeirra Vals og Samma átti, en undanskildi í erfðaskrá sinni í Baráttunni um arfinn. Fyrir hreina tilviljun hafa Svalur og Valur frétt af tilvist hússins og ákveða að skoða það á sama tíma. Um leið kemur aðvífandi torkennileg vera, sem líkist helst beinagrind.
Í ljós kemur að veran torkennilega er Tanzafio, frændinn úr Baráttunni um arfinn, sem reynist hafa sviðsett dauða sinn og lagst í heimshornaflakk. Á ferðum sínum hafi hann uppgötvað æskulindina, sem yngi upp hvern þann er dreypi af. Tunnu með vökva lindarinnar hafi hann geymt í húsinu yfirgefna og komi reglulega til að súpa af, en nú sé drykkurinn á þrotum.
Sammi og þrjótar hans sjá gróðavon í drykknum og halda af stað til Palombíu í leit að æskulindinni, en Svalur, Valur og Tanzafio reyna að stöðva þá og sækja meiri drykk fyrir þann síðastnefnda sem veslast hratt upp. Eftirförin reynist viðburðarík og í Palombíu komast félagarnir í tæri við þungvopnaða flokka innfæddra indíána annars vegar en bláfátækra bænda hinsvegar sem berjast á banaspjót. Í ljós kemur þó að foringjar beggja hópa, frumbyggjastúlkan Katxina og táningurinn Selvo eru í raun leynilegir elskendur.
Með hjálp elskendanna ná Svalur og félagar í skottið á Samma og hans mönnum í þá mund sem þeir komast að æskulindinni. Í átökunum særast Kaxtina, Selvo og Tanzafio öll til ólífis. Með töframætti æskulindarinnar tekst Tanzafio þó að bjarga unga fólkinu, en fórnar sjálfum sér. Sammi og félagar halda hins vegar á braut með venjulegt vatn sem þeir telja ranglega að búi yfir yngingarmætti. Sögunni lýkur á að Svalur og Valur vinna að endurbótum á ættaróðali frændans.
Fróðleiksmolar
breyta- Sagan er blóðugri en gerist og gengur í sagnaflokknum, þar sem fólk er skotið með köldu blóði. Öll fórnarlömbin fá þó bót meina sinna, nema Tanaziof frændi, sem þar með er ein örfárra persóna til að deyja í Svals og Vals-bókunum.
- Þyrilvængjan sem Valur finnur upp í Baráttunni um arfinn kemur að góðum notum í upphafi sögunnar.
- Í byrjun bókar segir Níkíta aðstoðarmaður Samma honum að upp sé komið vandamál. Hann svarar kaldhæðnislega: „Ekki segja mér að við séum tannkremslausir?“ – sem er vísun í Með kveðju frá Z, þar sem Sammi og Zorglúbb fjármagna ódæði sín með tannkremssölu.