Suðurfirðir
Suðurfirðir er samheiti á nokkrum fjörðum sem ganga inn úr Arnarfirði. Þeir eru Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður.
Landslag í Suðurfjörðum er mjög vestfirskt, há basaltfjöll og brattar hlíðar í sjó fram og helsta undirlendi í fjarðarbotnum. Þar er hins vegar víða mjög gróðursælt og birkiskógar með ívafi reynis í fleiri fjörðum, sérlega í Geirþjófsfirði og Norðdal í Trostansfirði.
Bæirnir í fjörðunum, ásamt Bíldudal, voru sérstakt sveitarfélag sem hét Suðurfjarðahreppur fram að 1987 þegar það sameinaðist Ketildalahrepp og mynduðu þeir í sameiningu Bíldudalshrepp. Árið 1994 sameinaðist hann Barðastrandahrepp, Rauðasandshrepp og Patrekshrepp í sveitarfélagið Vesturbyggð.
Búið var á 15 bæjum, þar af tveim tvíbýlum, fram undir miðja 20. öld. Nú er einungis búið á tveim, Fossi og Dufansdal. Eina þéttbýlissvæðið í Arnarfirði er Bíldudalur, þar búa nú um um 300 manns. Bíldudalur er gamall verslunarstaður allt frá einokunartímanum og þar hafa miklir athafnamenn sett sitt mark á staðinn, m.a. Ólafur Thorlacius (1761-1815) og Pétur J. Thorsteinsson (1854-1929). Í kaþólskri tíð var bænahús á Bíldudal og hálfkirkja frá 14. öld en hún var lögð niður 1670. Kirkja Suðurfjarða var í Otradal fram á tuttugustu öld en 1906 var vígð kirkja á Bíldudal.
Í Langaneshlíðum, norðan við Geirþjófsfjörð, var bærinn Steinanes. Í Geirþjófsfirði voru bæirnir Krosseyri, Langibotn og Sperðlahlíð. Í Trostansfirði (sem ævilega var nefndur Trosnasfjörður af seinni tíma Arnfirðingum) einn samnefndur bær. Í Reykjafirði var samnefnt tvíbýli. Í Fossfirði bæirnir Foss og Dufansdalur. Þar norðan við var Otradalur. Í Bíldudalsvogi voru, fyrir utan þorpið, bæirnir Litlaeyri og Hóll. Norðan við Bíldudalsvogin var bærinn Auðihrísdalur.
Landnám
breytaí Landnámabók er sagt að Ketill ilbreiður Þorbjarnarson hafi numið Arnarfjarðardali frá Kópanesi til Dufansdals. Ketill ílengdist þó ekki í Arnarfjarðardölum heldur fór að Berufirði hjá Reykjanesi en skildi eftir sig nafnið Ketildalir. Ánn rauðfeldur Grímsson bjó einn vetur í Dufansdal en Dufan leysingi hans bjó þar eftir. Ánn er sagður hafa gert bú á Eyri, það getur annað hvort verið þar sem nú heitir Hrafnseyri í Arnarfirði eða þar sem nú er þorpið á Bíldudal. Geirþjófur Valþjófsson er sagður hafa numið í Arnarfirði, Fossfjörð, Reykjarfjörð, Trostansfjörð, Geirþjófsfjörð og bjó hann í Geirþjófsfirði.
Tengill
breyta- Vestfjarðavefurinn
- http://www.bildudalur.is/ Geymt 30 september 2007 í Wayback Machine Vefsvæði Bílddælinga