Otradalur er dalur í Vesturbyggð, rétt austur af Bíldudal. Í Otradal hefur líklega verið búið allt frá landnámi þótt ekki sé minnst á hann í Landnámu, en líklegt má telja að Otradalur hafi verið í landnámi Ketils ilbreiða, en hann nam alla dali frá Kópanesi til Dufansdals, en fluttist seinna til Breiðafjarðar og nam Berufjörð.

En á Otradalur og ábúendur hans er minnst á í að minnsta kosti tveimur Íslendingasögum. Líklega var þekktasti ábúandi Otradals, Eyjólfur hinn grái sem drap Gísla Súrsson  í Geirþjófsfirði. Í Njálu er svo minnst á barnabarn Eyjólfs, Eyjólf Bölverksson, sem tók  að sér vörn í brennumálinu á Alþingi.

Í Jarðabók Árna Magnússonar, sem gerð var árin 1702-1714, er jörðinni lýst svo:  ”Jarðardýrleiki er óviss þar sem jörðin er tíundarfrí og presturinn nýtur staðarins frítt. Kúgildi eru alls 14, kvikfé 6 kýr, 1 naut veturgamalt, 1 kálfur, 32 ær, 3 sauðir tvævetrir, 16 veturgamlir, 25 lömb, 2 hestar. ”

Kirkja hefur verið í Otradal frá ómunatíð. Til eru máldagar frá 1324 og 1397 þar sem kirkjan helguð alsvaldandi Guði, heilagri móður Maríu, Bartalómeusi postula, Tómasi erkibiskup, Þorláki biskup, og Ceciliu meyju.

Í presta- og prófastatali séra Sveins Níelssonar er Sveinn Sigurðsson skalli fyrsti presturinn sem minnst er á í Otradal en hann á að hafa komið einhvertíma fyrir 1346. Síðasti presturinn í Otradal var Jón Árnason, en hann var frá 1891 til 1906 en þá var sóknin flutt til Bíldudals.[1]

Síðasta Otradalskirkjan var byggð 1876 en rifin á fyrri hluta 20. aldar en líkhússkofi reistur á hluta grunnsins.[2]

Otradalur var gerður að þingstað Suðurfjarðahrepps 1832 en fluttur til Bíldudals 1895.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. Halldór G. Jónsson 1999. Gamlir máldagar Otradalskirkju og hálfkirkjunnar á Hóli í Bíldudal. Frá Bjargtöngum að Djúpi II. Hrafnseyri 67-71. Bls 111-123
  2. Ingvaldur Nikulásson 1942. Tálknafjörður og Arnarfjörður að vestan. Barðstrendingabók. Reykjavík 111 - 123