Nýja bíó
Nýja bíó var kvikmyndahús í Reykjavík sem hóf starfsemi 29. júní árið 1912. Stofnendur voru nokkrir athafnamenn í Reykjavík. Fyrst var kvikmyndahúsið sett upp í austurendanum á Hótel Íslandi þar sem var áður veitingasalur. Nafnið var til aðgreiningar frá Gamla bíói, Reykjavíkur Biograftheater, í Fjalakettinum þar skammt frá. Árið 1919 hóf bíóið að reisa nýtt steinsteypt hús við Austurstræti og Lækjargötu og flutti þangað inn sumarið 1920. Árið 1986 tók Árni Samúelsson húsnæðið á leigu og kallaði það Bíóhúsið. Árið 1987 lögðust kvikmyndasýningar af í húsinu og 1988 var þar stofnaður skemmtistaðurinn Lækjartunglið sem síðar hét aðeins Tunglið. Þann 30. júlí 1998 brann húsið og gjöreyðilagðist. Það var síðan rifið og Iðuhúsið reist þar í staðinn. Framhlið Nýja bíós við Austurstræti var notuð sem fyrirmynd að framhlið Grillmarkaðarins sem var reistur þar 2011.