Steindór Sokkason
Steindór Sokkason (d. fyrir 1352) var íslenskur munkur sem var príor í Möðruvallaklaustri frá 1328 og var skipaður af Lárentíusi Kálfssyni biskupi þegar Þorgeir príor var settur af eftir miklar deilur biskups og munkanna á Möðruvöllum.
Steindór var sonur Sokka Steindórssonar á Munkaþverá og konu hans Þuríðar Einarsdóttur og bróðir hins mikla fræðimanns Bergs Sokkasonar, ábóta á Munkaþverá og vinar Lárentíusar biskups. Sjálfsagt hefur Steindór einnig verið vel menntaður en ekki er þó vitað um nein ritverk hans og engum sögum fer af ábótastörfum hans, nema hvað allt virðist hafa verið með kyrrum kjörum eftir hatrammar deilur áranna á undan, að minnsta kosti framan af. Árið 1342 kom Ormur Ásláksson, þá nýorðinn Hólabiskup, í klaustrið, fangaði þrjá munka, lét járna þá og varpa í myrkrastofu fyrir einhverjar sakir. Eitthvað kann að hafa verið athugavert í klaustrinu en Ormur var líka frægur fyrir deilur og óstjórn.
Líklega hefur Steindór enn verið príor þegar þetta var en dánarár hans er óþekkt. Þórður Bergþórsson varð svo príor 1352.