Þorgeir (príor í Möðruvallaklaustri)

Þorgeir var munkur í Möðruvallaklaustri á 14. öld og varð príor þar þegar klaustrið var endurreist árið 1328 en príorstími hans varð þó stuttur því Lárentíus biskup vék honum úr embætti árið eftir.

Föðurnafn Þorgeirs er óþekkt og ekkert vitað um ætt hans en hann var munkur í klaustrinu 1316, þegar það brann til kaldra kola eftir að munkarnir komu drukknir heim úr kaupstað á Gásum. Næsta áratuginn gegndi hann prestsembætti í Lögmannshlíð. Að boði erkibiskups var klaustrið svo endurbyggt eftir miklar deilur og Þorgeir skipaður príor. Deilunum lauk þó ekki þar með og veturinn eftir fór Þorgeir príor suður í Skálholt til Jóns biskups Halldórssonar, sem var andstæðingur Lárentíusar í deilunum, og þáði af honum gjafir. Þetta mislíkaði Lárentíusi, sem taldi að Þorgeir hefði átt að biðja sig leyfis til fararinnar.

Möðruvallabræður þóttu ekki sýna mikla forsjálni í fjárgeymslu klaustursins en söfnuðu að sér liði bænda og þegar Lárentíus biskup kom í eftirlitsferð um vorið var þar fyrir vopnað lið. Tveimur dögum seinna kom biskup þó aftur, tók lykla af munkunum og skipaði ráðsmann yfir klaustrið. Hann hafði Þorgeir príor á brott með sér og setti hann af en skipaði Steindór Sokkason príor. Ekkert er vitað hvað um Þorgeir varð síðar.

Um sumarið kom svo sendimaður Lárentíusar með úrskurð erkibiskups, þar sem kom fram að biskup skyldi hafa æðstu forráð klaustursins, og var allt með kyrrum kjörum meðan Lárentíus lifði.

Heimildir

breyta
  • „Möðruvallaklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Möðruvallaklaustur. Sunnudagsblað Tímans 13. ágúst 1967“.