65°32′44″N 18°04′58″V / 65.54551°N 18.08268°V / 65.54551; -18.08268

Kirkjan á Munkaþverá, reist árið 1844.

Munkaþverá, áður Þverá, er bær og kirkjustaður í Eyjafjarðarsveit og eitt helsta stórbýli héraðsins. Þar var munkaklaustur um fjögurra alda skeið í kaþólskum sið.

Bærinn hét Þverá eða Efri-Þverá á söguöld og fram eftir öldum og þar sátu höfðingjar. Fyrstur bjó þar Ingjaldur, sonur Helga magra, og er sagt að hann hafi reist þar stórt hof. Sonarsonur hans, ójafnaðarmaðurinn Víga-Glúmur, bjó seinna á Þverá. Þekktastur bænda á Þverá á fyrstu öldum byggðar er þó líklega Einar Þveræingur, sem kemur við sögu í ýmsum fornsögum. Hann var einnig afkomandi Helga magra og bróðir Guðmundar Eyjólfssonar ríka á Möðruvöllum. Sagt er að hann hafi reist fyrstu kirkjuna á Þverá.

Munkaþverárklaustur var stofnað árið 1155 af Birni Gilssyni Hólabiskupi og stóð fram um siðaskipti. Þá var klaustrið lagt af og eignir þess féllu undir konung en lögmenn og ýmsir höfðingjar og stórbændur bjuggu þar oftast. Á meðal þeirra má nefna Björn Benediktsson ríka sýslumann, son hans Magnús Björnsson lögmann, sem talinn var auðugastur Íslendinga á sinni tíð, og Svein Sölvason lögmann.

Minnisvarði um Jón Arason á Munkaþverá

Núverandi kirkja á Munkaþverá var reist af Þorsteini Daníelssyni á Skipalóni árið 1844 og er sérstætt klukknaport framan við hana. Sunnan við kirkjugarðinn er minnismerki um Jón biskup Arason, sem ólst upp á staðnum að nokkru leyti undir handarjaðri Einars Ísleifssonar ábóta, sem var ömmubróðir hans. Í kirkjugarðinum er reitur sem kallast Sturlungareitur og er sagt að þar hafi verið grafnir þeir Sturlungar sem féllu í Örlygsstaðabardaga árið 1238, svo og einhverjir sem féllu í bardaganum á Þveráreyrum 1255.

Heimildir

breyta
  • „„Nokkrar kynslóðir kirkna og klausturhúsa á Munkaþverá". Árbók hins íslenska fornleifafélags, 93. árgangur, 1996-1997“.
  • „„Byggt og búið í gamla daga X". Tíminn, 23. desember 1973“.