Steinþór Guðmundsson
Steinþór Guðmundsson, (f. 1. desember 1890 - d. 8. febrúar 1973) var íslenskur kennari og bæjarfulltrúi í Reykjavík. Hann fæddist í Holti í Ketildalshreppi í Vestur-Barðastrandarsýslu en ólst upp í Tálknafirði, sonur verkafólks. Hann kvæntist árið 1917 skáldkonunni Ingibjörgu Benediktsdóttur og eignuðust þau fjögur börn.
Nám og starfsferill
breytaHann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1911, hélt því næst til Kaupmannahafnar þar sem hann nam stærðfræði og efnafræði. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1917 en starfaði þó aldrei sem guðfræðingur heldur helgaði starfsævi sína kennslustörfum, einkum í stærðfræði. Um þær mundir var Steinþór fjórðungsstjóri Ungmennafélags Íslands og stóð sem slíkur fyrir komu vestur-íslenska Stephans G. Stephanssonar til Íslands. Í ferðinni var Stephan heiðursgestur í brúðkaupi Steinþórs og Ingibjargar.
Steinþór var skólastjóri Flensborgarstjóra í forföllum 1917-18 og tók því næst við embætti skólastjóra Gagnfræðaskólans á Akureyri. Honum var vikið frá störfum árið 1929 af Jónasi frá Hriflu og hefur brottvikning hans verið tengd við herferð Jónasar gegn kommúnistum, en Steinþór var þá orðinn einn af forystumönum róttækra vinstrimanna á Akureyri. Hann varð kennari við Miðbæjarskólann 1933-45 og Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1942-55 og Gagnfræðaskólann við Vonarstræti 1955-56.
Stjórnmálaþátttaka
breytaSteinþór var kjörinn bæjarfulltrúi á Akureyri af lista Jafnaðarmanna í bæjarstjórnarkosniningunum 1927. Eftir stofnun Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins gekk Steinþór til liðs við hreyfinguna, sat í miðstjórn flokksins 1940-62 og var varaformaður hans 1952-57. Hann var kjörinn bæjarfulltrúi árið 1942 og sat í tvö kjörtímabil, til ársins 1950.
Tenglar
breyta- „Minning: Steinþór Guðmundsson“, minningargreinar í Íslendingaþáttum Tímans 24. maí 1973
- „Steinþór Guðmundsson“, sextugsafmælisgrein í Þjóðviljanum 1. desember 1950