Steffi Graf (Stephanie Maria Graf, f. 14. júní 1969 í Mannheim) er þekktasta og árangursríkasta kventennisstjarna Þýskalands. Hún hefur sigrað á 107 mótum, þar af 22 stórmótum. Hún hefur lengst allra kventennisleikara verið í efsta sæti heimslista tennisleikara, eða í 377 vikur alls.

Steffi Graf er sigursælasta tenniskona Þýskalands (2010)
Steffi Graf á sérstakri hátíð á Wimbledon 2009.

Æviágrip

breyta

Undrabarnið

breyta

Steffi Graf fæddist í Mannheim en ólst upp í Brühl við norðurmörk Mannheim. Hún var aðeins þriggja ára þegar faðir hennar, Peter Graf, gaf henni tennisspaða. Hann hafði sjálfur verið tennisleikari og sá strax hvað í dóttur hans bjó. Hún tók þátt í barnamótum og sigraði sitt fyrsta mót í München aðeins sjö ára gömul. Ellefu ára hóf hún þátttöku í tennismótum fyrir fullorðna. Á fyrsta móti sínu stóð hún lengi vel í hárinu á Evu Pfaff (nr. 80 á heimslistanum þá), sem tókst með naumindum að knýja fram sigur. Það var þá sem talað var um undrabarnið Steffi Graf. Aðeins 13 ára gömul gerðist Graf atvinnumaður í tennis. Viku seinna var hún sett á heimslistann sem nr. 214, yngsta manneskjan sem sett hefur verið á þennan lista. 1984 tók Graf þátt í sínum fyrstu stórmótum, Opna ástralska mótið og Wimbledon. Í báðum mótum komst hún í fjórðungsúrslit. Í lok ársins var hún kominn í 22. sæti heimslistans. Árið 1986 sigraði Graf í 8 mótum. Hún sigraði meðal annarra Chris Evert, sem var nr. 2 á heimslistanum. Seinna á árinu sigraði hún Opan mótið í Berlín með því að leggja Martinu Navratilovu að velli, sem þá var besta tennisleikkona heims. Í lok ársins var Steffi Graf komin í 3. sæti heimslistans, á eftir Evert og Navratilovu. Graf var þá aðeins 16 ára.

Heimsstjarna

breyta

1987 brustu allar flóðgáttir. Steffi Graf tók þátt í 75 leikjum og tapaði eingöngu tveimur þeirra. Hún sigraði á 11 mótum, þar á meðal í fyrsta sinn á stórmóti, Opna bandaríska mótinu. Við það komst hún á efsta sæti heimslistans. 1988 náði Graf þeim merka áfanga að sigra á öllum fjórum stórmótum á einu og sama árinu. Þau eru Opna ástralska mótið, Opna franska mótið, Wimbledon og Opna bandaríska mótið. Slíkt kallast Grand Slam. Graf gerði þó betur, því hún varð einnig Ólympíumeistari það árið. Slíkt hefur engin tennisleikari afrekað fyrr né síðar. Næsta ár var hún nærri því búin að endurtaka leikinn og vinna Grand Slam. En á Opna franska mótinu beið hún lægri hlut í úrslitaleiknum fyrir Arantxa Sánchez Vicario með minnsta mögulega mun. Næstu árin hélt Graf áfram að sigra á flestum stórmótum en náði ekki að afreka það aftur að sigra þau öll á sama ári. Hún sigraði i 66 leikjum í röð, sem er næstlengsta sigurganga í tennisheiminum fyrr og síðar. Hún vermdi efsta sæti heimslistans frá ágúst 1987 til mars 1991, er næsta stórstjanrnan í tennis tók við, Monica Seles. Graf náði aftur efsta sætinu 1993 og hélt því til 1996, þar til Martina Hingis tók við. Alls var Graf 377 vikur í efsta sætinu, lengst allra tennisleikara fyrr og síðar.

Erfiðleikar og endalok ferils

breyta

Árin 1996-1998 voru Steffi Graf og faðir hennar, Peter Graf, ákærð fyrir skattalagabrot. Á þessum tíma tók Graf þátt í færri mótum en áður. Árið 1997 tók hún til dæmis ekki þátt nema í fimm mótum (16 leikjum). Þannig missti hún af efsta sætinu á heimslistanum til Martinu Hingis. Peter Graf fékk þriggja ára og níu mánaða dóm en Steffi Graf slapp, þar sem fjármál hennar voru alfarið í höndum föður síns og hún hjálpaði til við rannsókn málsins. Í júní 1998 meiddist Graf á hné og þurfti að fara í uppskurð. Næstu tólf mánuði lék hún ekki tennis og var tekin af heimslistanum. Árið 1999 reyndi Graf endurkomu í tennisheiminum. Hún sigraði það ár sitt síðasta stórmót, Opna franska mótið, og náði að vinna sig upp í þriðja sæti heimslistans. Í ágúst 1999 þurfti hún að hætta leik vegna meiðsla í hné. Sama mánuð gaf hún út þá tilkynningu að hún myndi hætta allri keppni og leggja skóna á hilluna.

Titlar

breyta

Sigrar Steffi Graf í stórmótum:

Stórmót Ár
Opna ástralska mótið 1988, 1989, 1990, 1994
Opna franska mótið 1987, 1988, 1993, 1995, 1996, 1999
Wimbledon 1988, 1989, 1991, 1992, 1993, 1995, 1996
Opna bandaríska mótið 1988, 1989, 1994, 1995, 1996

Annað markvert

breyta
  • Steffi Graf var 5 sinnum kjörin íþróttamaður ársins í Þýskalandi
  • 1988 var Steffi Graf kjörin íþróttamaður ársins í heiminum
  • 1989 kom Steffi Graf fyrir í kvikmyndinni Otto – Der Ausserfriesische
  • 22. október 2001 giftist Steffi Graf bandaríska tennisleikaranum Andre Agassi
  • Steffi Graf stofnsetti hjálparsamtökin Children of Tomorrow, sem hjálpar börnum með sálræna erfiðleika
  • 2008 var Steffi Graf tekin upp í frægðarhöll íþróttamanna í Þýskalandi

Tenglar

breyta

Homepage til Steffi Graf

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Steffi Graf“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.