Sjávarborgin
Sjávarborgin (franska: Spirou et les hommes-bulles) eftir höfundinn og teiknarann Franquin í samvinnu við Jean Roba er sautjánda bókin í bókaflokknum um Sval og Val og inniheldur tvær sögur: Sjávarborgina sem er sjálfstætt framhald bókarinnar Svamlað í söltum sjó og Dularfulla líkneskið. Sögur þessar voru ritaðar árið 1958 en komu ekki út á bók fyrr en 1964. Árið 1983 var hún gefin út á íslensku.
Söguþráður
breytaSjávarborgin hefst á að Jón Harkan, glæpamaður úr Svamlað í söltum sjó flýr úr fangelsi. Skömmu síðar berast fregnir af því að kafbáti Sveppagreifans hafi verið rænt. Félagarnir álykta að Jón Harkan sé enn á ný á höttunum eftir gullfarminum á hafsbotni.
Svalur, Valur og greifinn halda með annan kafbát til frönsku Rivíerunnar til að elta Jón Harkan. Þar kynnast þeir Herra Una (franska: Monsieur D'Oup), heldri manni sem telur fátt dýrmætara í lífinu en ró og næði. Ýmis spellvirki eru unnin til að stöðva leiðangur þeirra félaganna, en Svalur kemst þó á mikið dýpi í köfunarhylkinu, þar sem hann telur sig sjá kýr á beit og ljós frá dularfullum neðansjávarfarartækjum. Vinir hans kenna ofskynjunum vegna köfunarveiki um.
Jón Harkan finnst í bát í höfninni, nær dauða en lífi, með gullforðann innanborðs. Lögreglan telur þá að málið sé leyst og engin þörf á frekari leit. Herra Uni tekur í sama streng. Félagarnir láta sér ekki segjast og þrátt fyrir frekari skemmdarverk uppgötva þeir leyndarmálið: Herra Uni hefur ásamt félögum sínum komið upp neðansjávarborg fjarri skarkala heimsins og beitt öllum brögðum til að halda henni leyndri, þar á meðal sveit manna í litlum kafbátum. Svalur og Valur lofa að þegja yfir leyndarmálinu.
Dularfulla líkneskið (franska: Les petits format) er seinni saga bókarinnar og álíka mikil að vöxtum. Svalur og Valur eru staddir í Sveppaborg. Valur bregður sér í ljósmyndavöruverslun til að kaupa filmur, en hverfur sporlaust. Síðar finna Svalur og Gormdýrið örsmátt líkneski sem er nákvæm eftirmynd Vals.
Svalur telur að vinur sinn hafi verið minnkaður og berast böndin að skringilegum doktor sem státar af miklu safni smálíkneskja. Sveppagreifinn kemur til sögunnar og saman uppgötva þeir hvernig í málinu liggur. Eigandi ljósmyndavöruverslunarinnar hefur þróað nýja tegund ljósmyndunar sem framkallar þrívíðar eftirmyndir, en aukaverkun hennar er sú að sá ljósmyndaði missir minni og rænu. Eftir mikla leit finnst Valur ráfandi um götur nálægs bæjar og endurheimtir minnið með hjálp greifans.
Fróðleiksmolar
breyta- Líkt og sagan Tembó Tabú birtist Sjávarborgin fyrst í dagblaðinu Le Parisien libéré, þetta er hins vegar eina Svals og Vals-sagan í opinbera bókaflokknum sem aldrei birtist í tímaritinu Sval. Sagan var teiknuð í svarthvítu og þurfti því að lita hana sérstaklega fyrir bókarútgáfuna. Litirnir þóttu því mun hrárri og einfaldari en í fyrri bókinni, Svamlað í söltum sjó, þar sem Franquin hafði lagt sérstaka áherslu á að teikna neðansjávarlífið sem best.
- Sjávarborgin er fyrsta saga Franquins sem unnin var eftir nákvæmu handriti sem samið var fyrir fram. Fram að því hafði höfundurinn unnið eftir lauslegum handritsdrögum og spunnið söguþráðinn frá einni viku til annarrar.
- John Helena eða Múrenan kemur við sögu í tveimur öðrum Svals og Vals-bókum: Svamlað í söltum sjó og Veirunni.
- Dularfulla líkneskið og Sjávarborgin eru álíka langar sögur, þótt titill bókarinnar sé dreginn af þeirri síðarnefndu. Í Danmörku hefur bókin komið út bæði undir titlinum Havmysteriet og Mineaturmysteriet og með forsíðum sem vísa í sitthvora söguna.
- Jean Roba var meðhöfundur Franquins í sögunum tveimur. Hans kunnasta verk eru sögurnar um Boule & Bill. Aðalpersónur þess bókaflokks koma lítillega við sögu í Dularfulla líkneskinu, þar sem Valur slæðist inn í skemmtigarð.
Íslensk útgáfa
breytaSjávarborgin var gefin út af Iðunni árið 1983 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Þetta var átjánda bókin í íslensku ritröðinni